Hoppa yfir valmynd
12. október 2020 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Skólastarf í forgangi

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði í dag með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og fulltrúum Kennarasambands Íslands og skólastjórnenda um stöðu skólastarfs í ljósi þróunar COVID-19 faraldursins hér á landi.

Í máli sóttvarnalæknis kom meðal annars fram að hlutfall barna (0-18 ára) af heildarfjölda smitaðra er áþekkt og sl. vetur, eða um 11%. Þegar horft er til uppsafnaðra smita á hverja 1000 íbúa eru þau töluvert færri hjá börnum 17 ára og yngri en hjá öðrum aldurshópum. Lítið virðist um smit milli barna innan skólanna sjálfra og það hefur einnig sýnt sig af gögnum frá nágrannalöndunum. 


Mynd: Tölfræði af covid.is – dags. 12. október 2020.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Skólastarf er í algjörum forgangi í okkar samfélagi og við leggjum í góðri samvinnu mikið kapp á að halda úti eins öflugu og öruggu starfi eins og kostur er hverju sinni. Ég er stolt af viðbragðsflýti og samstarfi í þeim skólum þar sem smit hafa komið upp, þar er greinilega haldið vel á málum. Ég brýni okkur öll að missa ekki sjónar á mikilvægi menntunar og virkri þátttöku í skólastarfi þó nú séu óvenjulegar aðstæður, hvet fólk til að treysta skólastjórnendum og sóttvarnaryfirvöldum og leggist á árar með þeim fjölmörgu sem standa vörð um skólastarf.“

Ragnar Þór Pétursson formaður Kennarasambands Íslands:
„Árið 2020 hefur opinberað styrkleika og veikleika hvers einasta samfélags á Jörðinni. Íslenska samfélagið hefur sótt mikinn styrk til skólanna, bæði í vor og nú. Þar á hvert barn að eiga örugga höfn í traustum höndum hjartahlýs fagfólks. Nú er ekki rétti tíminn fyrir tómarúm. Ákvörðun eins getur hæglega orðið að afleiðingum margra. Leiðin fram á veginn er vörðuð þeim sömu gildum sem alla jafna einkenna farsælt skólastarf: Virðingu, umhyggju, metnaði og samvinnu. Traust samstarf skólafólks, stjórnvalda, nemenda og foreldra og annarra grunnkerfa samfélagsins þarf að byggja á heiðarleika, hreinskilni og traustri upplýsingagjöf þar sem áskoranir, hugleiðingar, hugmyndir og áhyggjur allra viðkomandi eru ræddar opinskátt og leiddar til farsælustu niðurstöðu sem völ er á hverju sinni. Þannig er skólafólk vant að vinna. Þannig ættum við öll að vinna.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir:
„Viðvarandi verkefni okkar í vetur verður að stuðla áfram að góðum sóttvörnum – ekki síst á vettvangi skóla. Mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna er ótvírætt en það er úthaldið einnig. Það að virða reglur um nálægðarmörk og hámarksfjölda, fækka þeim sem fólk er í nánum tengslum við og standa saman, mun skila okkur árangri.“


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira