Hoppa yfir valmynd
14. október 2020 Félagsmálaráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Aðgerðarteymi gegn ofbeldi skilar annarri áfangaskýrslunni

Aðgerðarteymi gegn ofbeldi hefur skilað annarri áfangaskýrslu sinni.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, skipuðu í byrjun maí aðgerðateymi í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Teyminu er stýrt af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra, og Eygló Harðardóttur. Hefur teymið nú skilað annarri áfangaskýrslu sinni sem geymir fjórar megintillögur og eru þær ítarlega útfærðar og kostnaðarmetnar.

Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • Að þróuð verði vefútfærsla á hugrænni úrvinnslumeðferð við áföllum í samvinnu sálfræðiþjónustu geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahúss, Miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis og Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
  • Að fræðsla um foreldrafærni, sem standi öllum foreldrum til boða fyrir fæðingu barns og fyrstu 1.000 daga lífs þess, verði efld enn frekar í gegnum heilsuvera.is. Áhersla verður á að efla færni foreldra og draga þannig úr líkum á vanrækslu, misnotkun og ofbeldi gegn börnum.Hugað verður sérstaklega að foreldrum og börnum í viðkvæmri stöðu.
  • Að verkferlar og viðbrögð heilbrigðisstarfsfólks til að bregðast við einkennum heimilisofbeldis verði bættir með því að útbúa rafrænan verkferil vegna heimilisofbeldis í Heilsuveru, hjá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og sjúkraskrárkerfinu.
  • Að samið verði við Neyðarlínuna um að skipuleggja markaðsherferð veturinn 2020-2021 um vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu. Vitundarvakningin byggir á nýrri vefgátt 112 um ofbeldi. Til hliðsjónar verður markaðsefni Neyðarlínunnar og herferð Jafnréttisstofu Þú átt von. Herferðin verði framkvæmd í áföngum þar sem í hverjum áfanga verði áhersla á að nálgast einstaka viðkvæma hópa, samhliða almennri vitundarvakningu um að hafa samband við 112 ef áhyggjur vakna um ofbeldi.

Heildarkostnaður af þessum tillögum er áætlaður 66,7 milljónir króna. Ákveðið hefur verið að framlengja starfstíma aðgerðateymisins til 31. janúar 2021 og skilar það þá samantekt á aðgerðum og árangri af vinnu sinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira