Hoppa yfir valmynd
23. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch Ratings staðfestir óbreytta A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með neikvæðum horfum

Fitch Ratings birti í dag mat á lánshæfi ríkissjóðs. Langtímaeinkunnir í innlendri og erlendri mynt eru óbreyttar og standa í A. Horfur eru neikvæðar.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli m.a. háa landsframleiðslu á mann, góða stjórnarhætti, hátt þróunarstig og góða umgjörð viðskiptalífsins sem eru sambærilegri við lönd með „AAA“ og „AA“ lánshæfiseinkunn. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt til skarps efnahagssamdráttar og viðsnúnings til hins verra í opinberum fjármálum. Smæð hagkerfisins og takmarkaður fjölbreytileiki útflutnings draga lánshæfiseinkunnina niður. Neikvæðar horfur endurspegla hækkun skulda sem hlutfalls af landsframleiðslu og hættu á að faraldurinn verði langvarandi og færist í aukana sem myndi hafa neikvæð áhrif á efnahagslífið og fjármálakerfið.

Að mati Fitch Ratings gætu kosningar á næsta ári leitt til slakara aðhalds í opinberum fjármálum, en breið pólitísk samstaða um að byggja upp viðnámsþrótt í opinberum fjármálum og mikil lækkun skulda á síðustu árum styður við trúverðugleika til lengri tíma litið.

Ísland hefur burði til að fjármagna mikinn halla á ríkisfjármálum vegna viðbragða við áhrifum heimsfaraldursins á næstu árum. Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 168% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2019 og þar af voru um 70% í innlendum eignum. Ríkissjóður hefur einnig greiðan aðgang að alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum og rúma sjóðsstöðu í innlendri og erlendri mynt auk þess sem lausafjárstaða bankakerfisins er góð.

Skjót viðbrögð heilbrigðisyfirvalda hafa komið í veg fyrir að grípa hafi þurft til harðs útgöngubanns til að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins. Örvunaraðgerðir á sviði ríkisfjármála og peningamála hafa mildað samdráttinn í einkaneyslu og viðhaldið efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika.

Aukið traust á því að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu nái stöðugleika til meðallangs tíma og að hagkerfið komist hjá langvarandi kreppu gætu leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.
Neikvæðari þróun skulda en gert er ráð fyrir, til dæmis vegna skorts á aðhaldi í ríkisfjármálum eftir að stuðningsaðgerðir vegna heimsfaraldursins hafa runnið sitt skeið, veikari hagvaxtarhorfur eða verulegt fjármagnsútflæði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagslegan stöðugleika og erlenda stöðu þjóðarbúsins gætu leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum