Hoppa yfir valmynd
29. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræddi leiðir að öflugum efnahagsbata á ráðherrafundi OECD

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - myndGolli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í dag og í gær. Meginefni fundarins var að ræða leiðir að öflugum og grænum efnahagsbata sem sé sem flestum til hagsbóta.

Ráðherra var frummælandi í tveimur málstofum á fundinum og ræddi m.a. aðgerðir til að örva hagkerfi ríkjanna, stefnu einstakra ríkja og alþjóðlega samvinnu.

„Það er gríðarleg áskorun fyrir okkur öll að takast á við heimsfaraldur kórónuveiru. Á næstunni er eitt helsta verkefni okkar að koma í veg fyrir að sú mikla aukning atvinnuleysis sem við höfum séð verði varanleg,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra á fundinum. Hann sagði einnig að á Íslandi væri tekist á við þennan vanda með viðamiklum vinnumarkaðsaðgerðum sem og umfangsmiklu fjárfestingarátaki sem beindist ekki aðeins að þeim innviðum sem fyrir væru heldur einnig að því að efla rannsókna- og þróunarstarfsemi og opinbera tækniinnviði.

„Það er mitt mat að efling stafrænna innviða sé lykilatriði til að hjálpa okkur að komast út úr þessari kreppu sem samkeppnishæfara samfélagi. Við höfum fylgst grannt með þróuninni í Eistlandi og Finnlandi, sem standa framarlega í þessum efnum, og erum þakklát fyrir samstarfið við þessar þjóðir á þessu sviði.“

„Þrátt fyrir að við séum nú í miðjum faraldri er mikilvægt að leggja línur til framtíðar og huga að áætlanagerð til lengri tíma,“ sagði Bjarni og tók sem dæmi að á Íslandi væri nú unnið að því að ljúka síðasta hluta umfangsmikilla breytinga á tekjuskattskerfinu og nýlega hefði verið lögð fram fjármálaáætlun til fimm ára með markmið um stöðvun skuldasöfnunar árið 2025, áður en skuldir færu yfir 60% af landsframleiðslu.

Á fundinum var jafnframt rætt um stefnu ríkja og alþjóðlega samvinnu til lausnar vandanum sem hlýst af heimsfaraldrinum. Bjarni sagði að þegar séð væri fyrir endann á faraldrinum væri brýnt að huga að því að mikilvæga verkefni að endurreisa þrótt opinberra fjármála. „Þetta á ekki síst við í litlum hagkerfum sem reka sjálfstæðan gjaldmiðil eins og Ísland,“ sagði ráðherra.

Bjarni sagði að Ísland hefði sérstakan áhuga á að horfa til grænna lausna til framtíðar. „Orkan sem við nýtum er næstum 100% endurnýjanleg og 40% nýrra bíla í landinu eru annaðhvort rafbílar eða vetnisknúnir og við erum að leita leiða til að auka græna fjárfestingu fyrirtækja með sérstökum skattaafslætti á græna fjárfestingu í kreppunni.“Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira