Hoppa yfir valmynd
1. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID 19: Frumvarp um bótarétt vegna bólusetningar

Alþingishúsið - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um sjúklingatryggingu sem hefur að markmiði að styrkja réttarstöðu fólks vegna bólusetningar við COVID-19. Með frumvarpinu er kveðið á um bótarétt komi til þess að einstaklingur verði fyrir tjóni sem hlýst af eiginleikum bóluefnisins eða rangri með­höndlun þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heil­brigðisstarfsmanns þrátt fyrir að öllum reglum og góðum framleiðsluháttum hafi verið fylgt við þróun og framleiðslu viðkomandi bóluefnis. Með fyrirhugaðri lagabreytingu verður réttarstaða fólks hér á landi sambærileg því sem er í Danmörku og Noregi.

Gildandi lög um sjúklingatryggingu kveða á um rétt sjúklinga til bóta sem tengjast tjóni sem sjúklingar geta orðið fyrir við meðferð í heilbrigðisþjónustu af ýmsum ástæðum. Bótarétturinn er nokkuð víðtækur og gerir ekki kröfu um að fyrir liggi sök í máli, heldur einungis að færðar séu sönnur á að einstaklingur hafi orðið fyrir tjóni vegna tilvika sem koma fram í lögunum. Þetta á þó ekki við um lyf, því samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna eru bætur ekki greiddar sjúklingi ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Í slíkum tilvikum þarf fólk að sækja mögulegan rétt sinn til bóta á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð en ýmis skilyrði eru fyrir því að unnt sé að beita þeim lögum, meðal annars að vara sé haldin ágalla.

Með fyrirhugaðri lagabreytingu verður kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga um sjúklingatryggingu greiðist bætur til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19-sjúkdómnum á árunum 2021–2023 af ástæðum sem að framan greinir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira