Hoppa yfir valmynd
28. desember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID 19: Bóluefni Pfizer komið til landsins – bólusetning hefst á morgun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd

„Dag­ur­inn í dag er dag­ur góðra frétta og senni­lega betri frétta en við höf­um lengi heyrt“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við móttöku fyrstu 10.000 skammtanna af bóluefni Pfizer við COVID-19 í dag. Hún sagði engan hafa órað fyrir því að takast myndi að þróa bóluefni við þessum skæða og alvarlega heimsfaraldri á svo skömmum tíma. Það hefði gerst hraðar en nokkur þorði að vona eða taldi raunhæft. Þetta væri ótrúlegur árangur sem þakka mætti víðtækri samstöðu og samvinnu vísindamanna, fyrirtækja, heilbrigðiskerfa og þjóða. Fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi í lok febrúar á þessu ári og rúmt ár er frá því að fyrsta smitið greindist í heiminum.

Bóluefni Pfizer kom með flugi til landsins frá Hollandi í morgun og var án tafar flutt í höfuðstöðvar Distica í Garðabæ, en fyrirtækið mun annast vörslu og dreifingu bóluefnisins hér á landi. Fjölmiðlar sýndu beint frá móttöku bóluefnisins þar sem meðal annarra voru viðstödd, auk Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra, þau Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica, Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Bólusetning hefst strax á morgun þar sem byrjað verður á að bólusetja framlínustarfsfólk í heilbrigðisþjónustu og íbúa á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum.

Eins og fram kom í máli heilbrigðisráðherra er bóluefni Pfizer enn sem komið er eina bóluefnið sem komið er með markaðsleyfi í Evrópu en fleiri bóluefni eru í augsýn. Samningur Íslands við Pfizer á grundvelli Evrópusamstarfsins tryggir bóluefni fyrir 85.000 manns. Samningur Íslands við Moderna verður undirritaður fyrir áramót. Þess er vænst að lyfið fái markaðsleyfi fyrri hluta janúarmánaðar og í kjölfarið mun áætlun um afhendingu bóluefnisins liggja fyrir. Samningur Íslands um bóluefni Astra Seneca var undirritaður 15. október sl., beðið er eftir markaðsleyfi en fyrirtækið stefnir að því að hefja afhendingu efnisins til Evrópuþjóða á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Hér að neðan má sjá myndir frá komu bóluefnisins til Keflavíkur og frá afhendingu þess í höfuðstöðvum Distica.

  • Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira