Hoppa yfir valmynd
31. desember 2020 Innviðaráðuneytið

Úthlutun viðbótarframlaga Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga

Frá Reykjavík - myndHugi Ólafsson

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að úthlutun viðbótarframlaga sem ætlað er að veita sveitarfélögum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu, ásamt reglugerð þar að lútandi. Framlögin eru hluti af aðgerðum sem fram komu í yfirlýsingu í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál sem fulltrúar ríkis og sveitarfélaga undirrituðu 30. september sl. Framlögin sem um ræðir eru vegna málefna fatlaðs fólks, aukins kostnaðar vegna fjárhagsaðstoðar og til sveitarfélaga sem glíma við fjárhagserfiðleika vegna Covid-19 faraldursins. 

Viðbótarframlög vegna málefna fatlaðs fólks

Samþykkt hefur verið að veita 670 m.kr. aukaframlag til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks. Áætlað er að framlög Jöfnunarsjóðs vegna málefna fatlaðs fólks verði um 670 m.kr. lægri en ráð var gert í upphafi árs. Ástæðurnar eru annars vegar lækkun útsvars ársins og hins vegar lægri framlög ríkissjóðs vegna verkefnisins. Aukaframlagið er ætlað að koma til móts við þessa lækkun.

Skipting aukaframlagsins á milli þjónustusvæði er í sama hlutfalli og almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020.

Framlög vegna fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga

Veitt verður 720 m.kr. framlag til sveitarfélaga þar sem kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar hefur aukist miðað við árið 2019. Óskað var eftir gögnum frá sveitarfélögum um útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar fyrir árin 2019 og 2020. Svör bárust frá 33 sveitarfélögum þar sem kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar hefur aukist milli ára.

Framlög til sveitarfélaga vegna fjárhagserfiðleika

Að lokum var samþykkt að veita 500 m.kr. framlag til sveitarfélag sem glíma við hvað mestu fjárhagserfiðleika vegna Covid-19 faraldursins. Framlagið var unnið í nánu samstarfi við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Eftirlitsnefndin lagði fram tillögu að aðferðafræði og forsendur til grundvallar við ákvörðun um úthlutun framlagsins.

Við úthlutun framlagsins var tekið tillit til lækkun útsvarstekna fyrir tímabilið apríl – október á árinu 2020 miðað við fyrra ár. Jafnframt var horft til tiltekinna framlaga Jöfnunarsjóðs sem höfðu lækkað frá upphaflegri áætlun. Nánar má sjá um aðferðafræðina í umsögn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum