Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Breyting á sóttvarnalögum samþykkt á Alþingi

Alþingishúsið - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum var samþykkt á Alþingi í liðinni viku með öllum greiddum atkvæðum. Með lagabreytingunni er kveðið skýrar á um til hvaða ráðstafana er heimilt að grípa vegna farsóttarhættu og útbreiðslu smits, í hvaða tilvikum og með tilliti til meðalhófssjónarmiða. Markmið breytinganna er að tryggja að slíkar skerðingar á stjórnarskrárvörðum réttindum fólks styðjist við viðhlítandi lagaheimild og séu ekki framkvæmdar nema í þágu almannahagsmuna eða til verndar heilsu eða réttindum annarra. Með lagabreytingunni er kveðið á um að meðan á sóttvarnaaðgerðum stendur skuli ráðherra upplýsa Alþingi um sóttvarnaaðgerðir með mánaðarlegri skýrslugjöf hafi aðgerð varað lengur en í tvo mánuði.

Drög að frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum voru unnin af starfshópi heilbrigðisráðherra sem skipaður var í september síðastliðnum. Hlutverk hópsins var að skýra nánar ákvæði sóttvarnalaga um opinberar sóttvarnaráðstafanir og valdheimildir stjórnvalda þar að lútandi. Við endurskoðunina var horft til fenginnar reynslu af heimsfaraldri COVID-19. Til grundvallar vinnunni var lögð álitsgerð sem Dr. Páll Hreinsson gerði að beiðni forsætisráðherra um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarna samkvæmt sóttvarnalögum. Áform um endurskoðun sóttvarnalaga voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 8. október síðastliðinn og þann 23. nóvember mælti ráðherra fyrir frumvarpinu á Alþingi.

,,Mikilvægt er að fram komi að heimildir sóttvarnalaga til skerðingar á réttindum, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans, hafa þann tilgang að tryggja líf og heilsu fólks sem eru veigamestu verndarhagsmunir samfélagsins sem njóta verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans. Jafnframt hefur verið talið að á stjórnvöldum hvíli frumkvæðisskylda að stjórnlögum til að bregðast við til verndar lífi og heilsu fólks ef ljóst er að bein og fyrirsjáanleg ógn steðji að því," sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra m.a. þegar hún mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi.

Stefnt að heildarendurskoðun sóttvarnalaga

Eins og fram kemur í áliti velferðarnefndar um frumvarpið sem nú er orðið að lögum var talið mikilvægt að ekki yrðu að svo stöddu gerðar breytingar á sóttvarnalögum sem myndu breyta eða gætu torveldað stjórnsýslu sóttvarna meðan heimsfaraldur kórónaveiru geisar. Aftur á móti er heildarendurskoðun laganna fyrirhuguð. Velferðarnefnd leggur áherslu á að í þeirri vinnu verð m.a. horft til þróunar löggjafar annars staðar á Norðurlöndum, enda stjórnskipan ríkjanna um margt sambærileg og Norðurlandaþjóðirnar í fremstu röð á sviði mannréttinda, lækninga og vísinda. Sérstaklega verði horft til heimilda til aðgerða á landamærum og heimilda til takmarkana á frelsi, svo sem hvað útgöngubann og lokun atvinnustarfsemi varðar. Þá hvetur nefndin til þess að Alþingi verði upplýst reglulega um framgang heildarendurskoðunar laganna. Við heildarendurskoðun sóttvarnalaga verði einnig horft til skuldbindinga Íslands á grundvelli EES-samningsins og Schengen-samstarfsins.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira