Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Fjöldatakmörk verða 50 manns frá 24. febrúar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns samkvæmt nýjum reglum um samkomutakmarkanir sem taka gildi 24. febrúar. Heimilt verður að hafa að hámarki 200 viðskiptavini í verslunum, á söfnum, í kirkjum og á tilteknum viðburðum. Sund- og baðstöðum og skíðasvæðum verður heimilt að taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta. Sama máli gegnir um heilsu- og líkamsræktarstöðvar en þar er jafnframt óheimilt að hafa fleiri en 50 manns í rými.  Á íþróttakeppnum verður nú heimilt að hafa áhorfendur. Þetta er megininntak tilslakana á samkomutakmörkunum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Gildistími nýrrar reglugerðar um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar er til og með 17. mars nk. 

Með reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi 8. febrúar síðastliðinn voru gerðar varfærnar tilslakanir á samkomutakmörkunum og átti reglugerðin að gilda til 3. mars. Í ljósi góðar stöðu á faraldrinum innanlands telur sóttvarnalæknir óhætt að gera enn frekari tilslakanir nú þegar, enda hafa aðgerðir á landamærum verið hertar til að draga enn frekar úr líkum á því að smit berist frá útlöndum. Fá smit hafa greinst innanlands undanfarið og þá hjá fólki sem þegar var í sóttkví. Ekki hefur greinst smit utan sóttkvíar síðan 1. febrúar. Sóttvarnalæknir segir ekki hægt að fullyrða að landið sé „veirufrítt“ og brýnir því fyrir fólki að vera áfram varkárt og gæta að sóttvörnum.

Reglur um grímunotkun verða óbreyttar og áfram verður 2 metra nándarregla meginviðmið en þó með ákveðnum undantekningum eins og að neðan greinir.

Fjöldatakmarkanir fara úr 20 manns í 50 en með undantekningum:

Söfn og verslanir: Viðskiptavinir mega vera allt að 200 í stað 150 áður, að uppfylltum skilyrðum reglugerðarinnar um fermetrafjölda. Áfram gilda 2 metra nálægðarmörk og grímuskylda.

Viðburðir þar sem gestir sitja: Allt að 200 manns mega vera viðstaddir athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðslistar- menningar- og íþróttaviðburði, ráðstefnur, fyrirlestra og sambærilega viðburði að uppfylltum öllum eftirtöldum skilyrðum.

  • Heimiluð nándarmörk milli ótengdra aðila eru nú 1 metri, að uppfylltum skilyrðum.
  • Gestir mega ekki sitja andspænis hver öðrum nema meira en tveir metrar séu á milli þeirra.
  • Þátttaka allra gesta skal skráð þar sem fram kemur nafn, kennitala og símanúmer.
  • Allir skulu nota andlitsgrímu og tryggt að fjarlægð milli ótengdra aðila sé meiri en 1 metri.
  • Heimilt er að hafa hlé á sýningum en áfengisveitingar og áfengissala á viðburðum er óheimil.
  • Koma skal í veg fyrir hópamyndanir, jafnt fyrir og eftir viðburð og í hléi.

Ath! Ef ekki er hægt að uppfylla eitthvert framantalinna skilyrða gildir reglan um 50 manna hámarksfjölda á viðburðinum.

Áhorfendur á íþróttaviðburðum: Heimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. Áhorfendur mega vera allt að 200 manns að því gefnu að hægt sé að uppfylla öll skilyrði hér að framan um viðburði þar sem gestir sitja. Ef áhorfendur eru standandi gildir regla um 50 manna hámarksfjölda. 

Sund- og baðstaðir: Gestir mega vera 75% af leyfilegum hámarksfjölda.

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar: Gestir mega vera 75% af leyfilegum hámarksfjölda. Í  hverju rými mega nú að hámarki vera 50 manns. 

Skíðasvæði: Heimilt er að taka á móti 75% af hámarksfjölda af móttökugetu hvers svæðis.

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar: Leyfilegur hámarksfjöldi í rými verður 50 manns. Heimilt er að taka á móti nýjum viðskiptavinum til kl. 22.00 en þeir skulu allir hafa yfirgefið staðinn fyrir kl. 23.00.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum