Hoppa yfir valmynd
16. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Breytingar á sóttvarnaráðstöfunum innanlands 18. mars

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa - myndVelferðarráðuneytið - ME
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi 18. mars og byggja í meginatriðum á tillögum sóttvarnalæknis. Þær fela fyrst og fremst í sér auknar kröfur um skráningu gesta og smitgát í tengslum við viðburði. Þá eru einnig gerðar ríkari kröfur til sóttvarnaráðstafana þar sem boðið er upp á hlaðborð. Gildistími reglugerðar um þessar breytingar er til 9. apríl næstkomandi.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er bent á að góður árangur hafi náðst í baráttunni við COVID-19 faraldurinn hér á landi. Takmarkanir séu trúlega hvergi minni í Evrópu en hér og mikilvægt sé að varðveita þennan góða árangur. Frá 19. febrúar hafa átta einstaklingar greinst innanlands og af þeim voru fjórir í sóttkví. Síðastliðna sjö daga hafa fimm greinst innanland með hið svokallaða breska afbrigði veirunnar (B.1.1.7) sem álitið er vera meira smitandi en önnur afbrigði og auk þess talið valda meiri veikindum hjá börnum. Sóttvarnalæknir telur ekki efni til að draga úr samkomutakmörkunum innanlands, heldur mælist til að þær verði áfram óbreyttar að mestu.

Breytingar sem taka gildi 18. mars

Allir gestir skráðir: Á öllum viðburðum, svo sem í athöfnum trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðlistar-, menningar og íþróttaviðburðum, ráðstefnum, fyrirlestrum og sambærilegum viðburðum, skulu gestir skráðir í númeruð sæti og teknar niður upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer hvers og eins.

Engar veitingar í hléi: Óheimilt er að selja eða bjóða veitingar í hléi á viðburðum og skulu gestir beðnir um að halda kyrru fyrir í sætum sínum.

Engin blöndun milli sóttvarnahólfa: Sem fyrr mega 200 gestir sitja í hólfi á viðburðum. Fyrir og eftir viðburð og í hléi skulu skipuleggjendur viðburða tryggja að ekki komi fleiri saman en 50 manns þar sem gætt skal að tveggja metra reglu og grímunotkun ef ekki er hægt að tryggja nándarmörk. (Uppfært)

Hlaðborð: Áfram verður heimilt að bjóða upp á hlaðborð en gestum gert skylt að sótthreinsa hendur áður en þeir sækja sér mat á hlaðborðið og einnig að því loknu, auk þess sem þeir þurfa að bera grímu og gæta að 2 metra nálægðarmörkum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum