Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19 Bólusetningardagatalið uppfært

Frá bólusetningu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 29. desember 2020 - myndStjórnarráðið

Bóluefnadagatal heilbrigðisráðuneytisins og sóttvarnalæknis hefur verið uppfært í samræmi við nýjustu upplýsingar um afhendingu bóluefna gegn COVID-19. Gert er ráð fyrir að á öðrum ársfjórðungi, þ.e. í apríl, maí og júní berist bóluefni fyrir samtals rúmlega 193.000 einstaklinga. Gangi það eftir hefur Ísland þá fengið bóluefni fyrir samtals 240.000 einstaklinga frá því að bólusetningar hófust í lok desember. Til samanburðar var gert ráð fyrir bóluefni fyrir samtals 217.000 einstaklinga við síðustu uppfærslu dagatalsins þann 12. mars síðastliðinn. Þetta eru um 86% þeirra sem ráðgert er að bólusetja en alls telur sá hópur um 280.000 manns. Ekki er gert ráð fyrir að börn fædd 2006 og síðar verði bólusett, né þeir sem fengið hafa Covid-19.

Fjögur bóluefni eru með markaðsleyfi og þrjú þeirra eru nú þegar í notkun hér á landi. Þetta eru bóluefni Pfizer, AstraZeneca, Moderna og Janssen. Fyrir liggur staðfest áætlun um afhendingu þessara lyfja til loka apríl. Gert er ráð fyrir að bóluefni CureVac hljóti markaðsleyfi í byrjun maí en framleiðandi þess miðar nú við að hefja afhendingu í lok annars ársfjórðungs sem er nokkru seinna en áður var áætlað.

Í dag hófst á ný bólusetning með bóluefni frá AstraZeneca og er nú verið að bjóða eldri aldurshópnum í bólusetningu. Gert er ráð fyrir að í vikunni eftir páska hafi öllum 70 ára og eldri verið boðin bólusetning. 

Þá má búast við hraðari afhendingu bóluefna í Evrópu í ljósi frétta frá Lyfjastofnun Evrópu sem birt var í dag, sjá nánar hér.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira