Hoppa yfir valmynd
12. maí 2021 Matvælaráðuneytið

Mögulegt að auka útflutningsverðmæti sjávarútvegs og fiskeldis verulega

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra og Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ og ritstjóri skýrslunnar - myndGolli

Mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöður og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019.

Skýrslan var unnin að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ritstjóri hennar var Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um núverandi stöðu sjávarútvegs og fiskeldis og áskoranir og tækifæri til framtíðar.

Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi

Fremst í skýrslunni er fjallað um viðfangsefni skýrslunnar með hliðsjón af stoðum sjálfbærrar þróunar, þar sem bæði er fjallað um stöðu sjávarútvegs- og fiskeldis í dag og áskoranir og tækifæri til framtíðar. Hér eru dregin saman helstu atriði:

  • Aðgangur að auðugum fiskimiðum, jarðvarma og orku fallvatna hefur mótað hagþróun Íslands og skapað forsendur fyrir þeirri velsæld sem Íslendingar búa við í dag. Lífskjör þjóðarinnar hljóta áfram að byggja að verulegu leyti á skynsamlegri og sjálfbærri hagnýtingu þeirra auðlinda sem hún ræður yfir. Með sjálfbæri þróun er átt við að hægt verði hverju sinni að mæta þörfum samtímans án þess að dregið sé úr möguleikum komandi kynslóða. Það er almennt viðurkennt að sjálfbær þróun hvíli á þremur meginstoðum; efnahag, umhverfi og samfélagi. Allar tengjast þessar stoðir innbyrðis.
  • Árið 2019 var samanlagt virði framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum um 332 milljarðar kr. Þar af námu útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 260 milljörðum kr. og höfðu hækkað um 60% á tveimur áratugum. Á tímabilinu 2009 til 2019 jókst aflaverðmæti um 45 milljarða kr. og útflutningsverðmæti um 97 milljarða kr. á föstu gengi. Ríflega helming aukinna útflutningsverðmæta má rekja til aukinnar verðmætasköpunar í vinnslu, en tæplega helming til hærra aflaverðmætis.
  • Íslenskur sjávarútvegur hefur brugðist við sífellt harðnandi alþjóðlegri samkeppni og breytingum á mörkuðum með því að nýta og taka þátt í að þróa nýjustu tækni á flestum stigum virðiskeðjunnar, þ.e. veiðum, vinnslu, flutningum og síðast en ekki síst í markaðssetningu. Margt í þeirri þróun byggist á því að í íslenskum sjávarútvegi séu fjárhagslega sterk fyrirtæki sem hafa bolmagn til að fjárfesta í tækniþróun og tækninýjungum. Þeim við hlið standa lítil og meðalstór fyrirtæki sem hafa komið fram með ýmsar nýjungar. Sveigjanleiki íslensks sjávarútvegs til að bregðast við breytingum grundvallast þannig á þessum tveimur stoðum; annars vegar stórum og stöndugum fyrirtækjum og hins vegar mikilvægum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Engu að síður eru íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þó lítil í alþjóðlegum samanburði.
  • Í helstu samkeppnislöndum Íslands í sjávarútvegi eru til staðar ríkisstyrkir til handa sjávarútvegsfyrirtækjum. Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr hópi helstu samkeppnislanda hvað þetta varðar enda greiða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki veiðigjald. Ísland er þannig eina landið innan OECD þar sem sjávarútvegur greiðir meira til hins opinbera en greinin fær greitt úr opinberum sjóðum. Sú staðreynd að íslenskur sjávarútvegur geti þrátt fyrir þetta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er til merkis um styrkleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins í alþjóðlegu samhengi.

Hreinn stuðningur við sjávarútveg í löndum OECD sem hlutfall af heildargreiðslum hins opinbera til greinarinnar

Heimild: OECD (e.d.) og eigin útreikningar.

  • Stjórnkerfi fiskveiða hefur haft áhrif á alla virðiskeðju íslensks sjávarútvegs. Bætt gagnasöfnun og skipulag hefur auðveldað sjávarútvegsfyrirtækjum að stýra veiðum þannig að fiskur er veiddur á þeim árstíma og svæðum þar sem gæði hans eru mest og markaðsaðstæður hagkvæmastar. Samfara minni sókn til að ná sama afla hefur dregið úr álagi veiða á vistkerfið og vert er að nefna að mjög hefur dregið úr olíunotkun og með því úr kolefnisspori sjávarútvegs.
  • Hagstæð viðskiptakjör og gott aðgengi að erlendum mörkuðum eru forsendur árangurs í markaðsstarfi. Mikilvægt er að Íslendingar nái áfram góðum kjörum í viðskiptasamningum og viðhaldi sömu eða betri kjörum inn á markaði í löndum Evrópusambandsins. Aðrir þættir sem hafa áhrif á samkeppnishæfni eru að haldið sé vel á matvælaöryggismálum til að tryggja útflutning og verja orðspor íslenskra afurða. Þá er ónefnt að þróun samgangna og flutninga hefur mikil áhrif á þessar atvinnugreinar.
  • Ríki og sveitarfélög hafa umtalsverðar tekjur af fyrirtækjum í sjávarútvegi og uppbygging fiskeldis mun einnig skila ríki og sveitarfélögum á tilteknum svæðum tekjum. Þessar tekjur nýtast við uppbyggingu þjónustu og framkvæmda. Sterk sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki eru ekki síst mikilvæg fyrir byggðir sem standa höllum fæti og þar sem atvinnulífið er oft og tíðum einhæft. Skattspor íslensks sjávarútvegs er mjög stórt, en áætlað er að árið 2018 hafi það verið 77 milljarðar króna.
  • Mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019.

Útflutningsverðmæti til framtíðar (mynd 0-1)

  • Hafrannsóknir verða áfram grundvallarforsenda fyrir ábyrgum fiskveiðum hér við land og rannsóknaráætlanir Hafrannsóknastofnun mun þurfa jöfnum höndum að viðhalda vöktun fiskistofna og bregðast við breytingum í hafinu sem skapa nýjar áskoranir.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum