Hoppa yfir valmynd
1. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Breyting á lista öruggra ríkja hefur ekki verið staðfest

Frá því í júní 2020 hafa Schengen-ríkin stuðst við lista yfir svokölluð örugg ríki þegar kemur að ferðatakmörkunum vegna Covid-19 inn á Schengen-svæðið. Þriðja ríkis borgarar sem koma frá og hafa búsetu í öruggu landi, þurfa þá ekki að sæta tak­mörk­un­um á ónauðsynlegum ferðum. Það þýddi í tilfelli Íslands að óbólusettir ferðamenn sem komu frá slíkum ríkjum, þar á meðal Bandaríkjamenn, gátu komið til landsins en þurftu að framvísa PCR-vottorði við brottför, ásamt tvöfaldri PCR-sýnatöku og 5 daga sóttkví á milli við komu til landsins. Ísland hafði frumkvæði að því í mars á þessu ári að láta almennt bann við ónauðsynlegum ferðum ekki ná til einstaklinga með fullnægjandi bólusetningarvottorð. Sú breyting var í kjölfarið innleidd í öðrum Schengen-ríkjum.

Listinn yfir örugg ríki hefur tekið stöðugum breytingum í samræmi við þróun Covid-19 faraldursins í löndum heimsins og þann 30. ágúst sl. voru Bandaríkin, Ísrael, Kósóvó, Líbanon, Svartfjallaland, og Norður-Makedónía tekin af lista yfir örugg ríki. Sú ráðstöfun er tekin í ljósi stöðu Covid-19 í þessum löndum.

Dómsmálaráðherra hefur ekki staðfest þessa breytingu fyrir Íslands hönd. Tilmælin eru ekki lagalega bindandi. Þessi breyting á lista yfir örugg ríki hefði aðeins áhrif á óbólusetta ferðamenn sem eru ekki að koma hingað vegna vinnu eða vegna fjölskyldutengsla. Slík breyting hefði engin áhrif á bólusetta ferðamenn sem er langstærsti hópurinn sem hingað kemur. 

Á síðu ríkislögreglustjóra er að finna gildandi reglur um ferðatakmarkanir vegna Covid-19.og sömuleiðis er bent á handhæga leið til að feta sig í gegnum reglurnar miðað við stöðu og brottfararstað hverju sinni á slóðinni island.is/entry

Ferðatakmarkanir vegna Covid-19 eiga ekki við um útlendinga sem ferðast til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ.á.m. eftirtaldir:

  • farþegar í tengiflugi,
  • starfsfólk á sviði heilbrigðisþjónustu og öldrunarþjónustu,
  • starfsfólk sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu,
  • einstaklingar sem hafa þörf á alþjóðlegri vernd,
  • einstaklingar sem þurfa að ferðast vegna brýnna aðstæðna í fjölskyldu sinni,
  • einstaklingar og sendinefndir sem koma til landsins á vegum íslenskra stjórnvalda, starfsmenn sendiskrifstofa og aðrir fulltrúar erlendra ríkja, starfsmenn alþjóðastofnana og einstaklingar í boði þeirra sem þurfa að koma til landsins vegna starfsemi þessara stofnana, fulltrúar herliðs, og starfsmenn sem sinna mannúðaraðstoð og almannavörnum og fjölskyldur framangreindra aðila.
  • námsmenn,
  • einstaklingar sem þurfa nauðsynlega að ferðast vegna viðskipta eða starfa sem eru þess eðlis að þau er ekki hægt að framkvæma síðar eða erlendis.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum