Hoppa yfir valmynd
14. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sjúkrahúss-app, fjarvöktun vegna krabbameina og Gagnaþon fyrir umhverfið meðal nýsköpunarverkefna hins opinbera

Nýsköpun hjá hinu opinbera hefur aukist að undanförnu og mikill meirihluti svarenda hjá ríkinu hefur innleitt allavega eitt nýsköpunarverkefni síðustu tvö ár. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Nýsköpunarvoginni, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur látið framkvæma í annað sinn.

Ráðuneytið hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun opinberra aðila á kjörtímabilinu og má þar helst telja aðgerðaáætlun um nýsköpun sem hins opinbera sem fjármála- og efnahagsráðherra birti í mars 2019. Aðgerðaáætlunin samanstóð af 12 verkefnum sem nú er lokið.  Meðal verkefnanna eru til að mynda átak vegna nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu, Gagnaþon fyrir umhverfið, mælaborð stjórnenda og nýja gátt um vefþjónustur ríkisins.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það er ánægjulegt að sjá stöðugan vöxt í nýsköpun hjá hinu opinbera, rétt eins og úti í samfélaginu. Með nýjum lausnum getum við veitt fólki sífellt betri þjónustu á sama tíma og við nýtum skattfé betur.“

Fjárfestingarátak skilaði bættri þjónustu

Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu var einnig gert hátt undir höfði með sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar þar sem 12 verkefni heilbrigðisstofnana, frumkvöðla og fyrirtækja fengu fjármögnun. Flest verkefnin eiga það sameiginlegt að auka stafræna þjónustu við sjúklinga sem leiðir einnig til tímasparnaðar fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Meðal afurða sem átaksverkefnið skilaði sér er app fyrir inniliggjandi sjúklinga á Landspítala, ný leið í atferlisþjálfun ungmenna á BUGL og fjarvöktun ónæmismeðferðar krabbameina.

Aukin nýsköpun stofnana

Í nýsköpunarvoginni sem framkvæmd var í annað sinn felst könnun á stöðu nýsköpunar hjá stofnunum. Niðurstöður könnunarinnar fyrir árið 2021 sýna að nýsköpun hjá stofnunum ríkisins hefur aukist frá því að könnunin var fyrst gerð árið 2018 og má þar helst nefna að vægi tækninýjunga í nýsköpun opinberra aðila er nú orðið mun meira en áður sem er í takt við aukna áherslu stjórnvalda á stafræna þjónustu. 82% svarenda hjá ríkinu höfðu innleitt að minnsta kosti eitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum sem er aukning frá fyrri könnun.

Styrkja þarf frekari nýsköpun

Áfram þarf að byggja áfram á þeim árangri sem unnist hefur og styrkja enn frekar nýsköpun með það að markmiði að bæta opinbera þjónustu, auka skilvirkni og hvetja til verðmætasköpunar í samfélaginu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur t.d. falið Ríkiskaupum aukið hlutverk þegar kemur að opinberri nýsköpun en tækifæri í innkaupum ríkisins til nýsköpunar eru fjölmörg og endurspeglar ný innkaupastefna þessar áherslur.

Mikilvægt er að öll stefnumörkun stjórnvalda hvetji til áframhaldandi nýsköpunar. Stefna hins opinbera um stafræna þjónustu sem nýlega kom út er þannig til þess gerð að auka nýsköpun í samfélaginu öllu og mjög mikilvægt er að nýta tækifæri stafvæðingar til þess að auka aðgengi að gögnum til nýsköpunar. Þá mun aukin notkun hins opinbera á skýjalausnum, meðal annars í gegnum Microsoft Office samninginn, hafa í för með sér mjög mikil tækifæri til nýsköpunar í rekstri stofnana og er það því eitt af markmiðum nýrrar skýjastefnu sem nú er í samráði . Þá gegnir nýsköpun mikilvægu hlutverki í stjórnendastefnu ríkisins.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum