Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stuðningur vegna niðurfellingar viðburða á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga

Á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag var fjármála- og efnhagsráðuneytinu ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu falið að greina vanda aðila í íþrótta- og æskulýðsstarfi sem hafa þurft að aflýsa viðburðum vegna sóttvarnarráðstafna. Þar er litið til viðburða sem hafa verið mikilvægar tekjuöflunarleiðir í starfinu.

Óhagnaðardrifin íþrótta- og æskulýðsfélög hafa getað nýtt sér ýmis almenn úrræði ríkisins til að bregðast við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins, svo sem styrki vegna greiðslna til starfsmanna sem sæta sóttkví. Þeim hafa þó ekki staðið til boða úrræði sem beinast að skattskyldum rekstraraðilum, á borð við lokunar-, tekjufalls- eða viðspyrnustyrki eða greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Til að bregðast við tekjufalli íþróttafélaga vegna faraldursins veitti ríkið Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands samtals 750 millj. kr. í styrki 2020 og 2021 sem sambandið úthlutaði til aðildarfélaga. Þá hafa íþróttafélög einnig getað sótt um styrki til að mæta launakostnaði og verktakagreiðslum íþróttafélaga innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem er gert að fella niður starfsemi vegna sóttvarnarráðstafana 1. október 2020 til 31. desember 2021.

Þessi úrræði duga þó ekki til að mæta nema hluta af tekjufalli íþrótta- og æskulýðsfélaga sem hafa reitt sig í ríkum mæli á tekjur af viðburðum sem hefur þurft að aflýsa vegna samkomutakmarkana.

Í sumum tilvikum getur stefnt í alvarlegan rekstrarvanda án frekari stuðningsaðgerða. Í vinnu ráðuneytanna verða mótaðar tillögur að úrræði til að mæta vanda þeirra. Eftir atvikum gæti verið um að ræða sjóð þar sem sækja mætti styrk í til að koma til móts við óumflýjanlegan útlagðan kostnað vegna viðburðanna. Að auki verði hægt að sækja styrk vegna tekjufalls sem ekki er mætt með öðrum úrræðum eða öðrum tekjuöflunarleiðum.

Slíkum sjóði væri ætlað að bæta tekjufallið að hluta og með því verður dregið úr áhrifum tekjufallsins fyrir þá mikilvægu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem í hlut á.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum