Hoppa yfir valmynd
25. október 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Staða bólusetninga, horfur og næstu skref

Smitum af völdum Covid-19 hér á landi hefur fjölgað nokkuð undanfarið og þróun í ýmsum ríkjum  Evrópu þar sem fjölgun smita er enn hraðari og sjúkrahúsinnlögnum fjölgar ört, kallar á stöðumat hér. Vitað er að bólusetning gegn veirunni veitir góða vörn og ver fólk fyrir alvarlegum veikindum. Um 76% landsmanna eru nú fullbólusett en til að fyrirbyggja hraðari útbreiðslu og mikil veikindi hér þarf að gera enn betur. Um 34.400 einstaklingar 12 ára og eldri eru óbólusettir.

Til að verja samfélagið gegn útbreiddu smiti og auknu álagi á heilbrigðiskerfið er mikilvægt að þeir sem ekki hafa þegar verið bólusettir þiggi slíkt boð. Þá skiptir einnig miklu máli að fólk þiggi örvunarbólusetningu sem stendur hún til boða samkvæmt ráðleggingum sóttvarnalæknis.

Staðan:

  • Um 76% landsmanna eru fullbólusett en 89% ef aðeins eru taldir 12 ára og eldri.
  • Bólusetningarhlutfallið er um 99% hjá þeim sem eru 70 ára og eldri en nokkru lægra hjá þeim sem yngri eru.
  • Bólusetning barna á aldrinum 12-15 ára hófst í ágúst. Tæp 64% hópsins eru fullbólusett.
  • Nánar um stöðu bólusetninga á www.covid.is

Árangursrík bólusetning 12-15 ára barna

Bólusetning barna 12-15 ára hér á landi hófst í ágúst og eru nú tæp 64% hópsins fullbólusett. Vörn bólusetningar hjá þessum hópi hefur reynst góð (29. okt. höfðu 9 börn greinst smituð, þ.e. 0,07% hópsins) og sú var einnig raunin í rannsókn sem gerð var á notkun bóluefnis Pfizer sem var undanfari markaðsleyfis fyrir notkun þess hjá þessum aldurshópi þar sem vörnin reyndist 100%. Nánar er sagt frá þessu á vef Lyfjastofnunar. Þess er vænst að fljótlega verði unnt að bjóða börnum á aldrinum 6-11 ára bólusetningu með bóluefni Pfizer. Rannsóknum á notkun bóluefnisins fyrir þennan aldurshóp er lokið og er reiknað með að leyfi fyrir notkun lyfsins handa börnum á þessum aldri verði veitt fyrir áramót. (Uppfærðar upplýsingar um bólusetningu barna 29.10.´21)

Örvunarbólusetning dregur verulega úr líkum á alvarlegum veikindum

Sóttvarnalæknir mælir með örvunarbólusetningu fyrir alla 60 ára og eldri, heilbrigðisstarfsfólk, íbúa á hjúkrunarheimilum og tiltekna viðkvæma hópa, sbr. nánari skilgreining á vef embættis landlæknis. Rannsókn sem gerð var í Ísrael og birt í The New England Journal of Medicine, sýnir umtalsverðan árangur af örvunarbólusetningu einstaklinga 60 ára og eldri sem voru fullbólusettir með tveimur skömmtum af bóluefni Pfizer og fengu örvunarskammt þegar a.m.k. 5 mánuðir voru liðnir frá seinni sprautunni. Að liðnum 12 dögum frá örvunarbólusetningu voru líkur á smiti rúmlega 11 sinnum minni en hjá sambærilegum hópi sem ekki hafði fengið örvunarskammt og líkur á því að þeir veiktust alvarlega af Covid-19 voru nærri 20 sinnum minni.

Innköllun í örvunarbólusetningu stendur yfir

Heilsugæslan annast örvunarbólusetningar og munu allir sem eru 60 ára og eldri fá boð um slíkt. Nú þegar hafa um 59% heilbrigðisstarfsfólks fengið örvunarskammt, um 68% íbúa á hjúkrunarheimilum og um 57% annarra sem eru 60 ára og eldri. Miðað er við að þeir sem eru 70 ára og eldri fái örvunarskammt ef þrír mánuðir eru liðnir frá því að viðkomandi var fullbólusettur en fólk á aldrinum 60 til 70 ára að sex mánuðum liðnum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira