Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Nýtt hjúkrunarheimili í Árborg opnar í mars

Nýtt hjúkrunarheimili á Selfossi fyrir 60 íbúa verður afhent tilbúið til notkunar í byrjun mars. Heimilið er samstarfsverkefni ríkis og Sveitarfélagsins Árborgar og kemur m.a. í stað tveggja hjúkrunarheimila sem lögð voru af á Suðurlandi árið 2016. Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun reka heimilið, ásamt 40 öðrum hjúkrunarrýmum sem eru við stofnunina á Selfossi.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að höfðu samráði við sveitarfélagið Árborg að 40 af þessum 100 rýmum í rekstri HSU, verði tímabundið til ráðstöfunar fyrir íbúa af höfuðborgarsvæðinu sem bíða eftir hjúkrunarrými. Þrátt fyrir þetta leiðir opnun nýja heimilisins til þess að hjúkrunarrýmum í Árborg fjölgar um 25 sem uppfyllir þá þörf sem fyrir er á svæðinu. Tryggt verður að forgangur fólks sem bíður eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu haldist, þrátt fyrir að það þiggi tímabundið rými á Selfossi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir afar ánægjulegt að opnun nýja hjúkrunarheimilisins í Árborg sé nú í sjónmáli. „Þetta verður mikilvæg og kærkomin viðbót fyrir íbúa Árborgar. Eins er það góður kostur við núverandi aðstæður að geta boðið öldruðum sem bíða eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu upp á þennan valkost meðan skortur er á hjúkrunarrýmum í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum.“

Auglýst hefur verið eftir starfsfólki á nýja hjúkrunarheimilinu og gert ráð fyrir að fyrstu íbúarnir flytji þar inn þegar líður á marsmánuð. Á heimilinu eru fimm búsetueiningar fyrir 12 íbúa hver.

Hönnuðir hússins eru Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. og fyrirtækið Eykt hefur annast framkvæmdirnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum