Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 154. löggjafarþings 2023–2024

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætis­ráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 154. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlun­in er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning ein­stakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrar­þings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnar­frum­varpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.

Þingmálaskrá, 154. löggjafarþing (pdf)

 

Forsætisráðherra

  1. Frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands.
    Frumvarpið felur í sér að koma á laggirnar sjálfstæðri mannréttindastofnun sem uppfyllir Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin mun starfa á vegum Alþingis og meginhlutverk hennar verður að efla og vernda mannréttindi á Íslandi. Mannréttindastofnun Íslands skal vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins, m.a. með því að vera þeim til ráðgjafar um eflingu og vernd mannréttinda. September.

  2. Frumvarp til laga um almennar sanngirnisbætur.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um bætur úr ríkissjóði til þeirra einstaklinga sem orðið hafa fyrir illri meðferð eða ofbeldi vegna háttsemi opinberra aðila hjá stofnunum ríkisins, sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila á grundvelli ákvörðunar eða samnings við opinberan aðila eða samkvæmt opinberu leyfi samkvæmt lögum sem valdið hefur þeim varanlegum skaða sem ekki fæst bættur á annan hátt. Gert er ráð fyrir að sérstök matsnefnd sanngirnisbóta taki við umsóknum, leggi mat á umsóknir og geri tillögu til sanngirnisbótanefndar um greiðslu sanngirnisbóta til einstaklinga sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Sanngirnisbótanefnd taki síðan endanlega ákvörðun hverju sinni um greiðslu bóta til einstaklinga. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands o.fl. (smágreiðslumiðlun).
    Með frumvarpinu verður Seðlabanka Íslands veitt heimild til að koma á fót grunninnvið fyrir innlendar smágreiðslur í þágu þjóðaröryggis og hagkvæmni. Gert er ráð fyrir að þessi lausn feli í sér að greiðslur berist milli tveggja innlánsreikninga. Þannig verði hægt að stunda dagleg viðskipti í verslunum, til dæmis, án þess að greiðslur fari fram fyrir milligöngu erlendra aðila eins og nú er. Október.

  4. Frumvarp til laga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimildir stjórnvalda til að meta og taka afstöðu til fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi með tilliti til sjónarmiða um þjóðaröryggi, sbr. ábendingar í skýrslu stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir (maí 2021) og löggjöf um þetta efni annars staðar á Norðurlöndum og á Evrópska efnahagssvæðinu. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (ýmsar breytingar).
    Frumvarp til laga um endurskoðun á lögum nr. 58/1998 og tengdum lögum þar sem eftirfarandi atriði verði sérstaklega tekin til skoðunar: Orkunýting í þjóðlendum, almenningar í vötnum, eignarréttur að auðlindum í jörðu, eignarréttindi tengd kolefniseiningum, starfslok óbyggðanefndar o.fl. Mars.  

  6. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd ályktana Alþingis frá árinu 2022.
    Árleg skýrsla. Október.

  7. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
    Árleg skýrsla. Maí.

  8. Skýrsla forsætisráðherra um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi.
    Árleg skýrsla. Maí.

 

Dómsmálaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998 (öflun og varsla skotvopna).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á vopnalögum til að innleiða reglugerð (ESB) 2017/853 um öflun og vörslu skotvopna þar sem mælt er fyrir um skýrar reglur til að auka rekjanleika skotvopna, reglur um tiltekinn varðveislutíma upplýsinga í skotvopnaskrá og áskilnað um sérstakar ráðstafanir þegar skotvopn eru gerð óvirk. Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögunum um innflutning á svokölluðum safnvopnum auk frekari breytinga á ákvæðum laganna um skráningu, eftirlit og vörslu skotvopna. Innleiðing. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993 (reikningshald Kirkjugarðasjóðs o.fl.).
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 5. mgr. 40. gr. laganna um kirkjugarða, greftrun og lík­brennslu, nr. 36/1993, þess efnis að reikningshald Kirkjugarðasjóðs verði fært frá skrifstofu biskups til kirkjugarðaráðs, sem bera mun ábyrgð á reikningshaldi sjóðsins og því hvernig haldið er utan um fé hans. Jafnframt verði felld brott tvö ákvæði er snúa að Bálfararfélagi Íslands sem hefur verið lagt niður og ekki starfað í um 60 ár. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (sameining héraðs­dóm­stólanna).
    Samkvæmt lögum um dómstóla eru héraðsdómstólarnir átta sjálfstæðar stofnanir með aðsetur víða um land. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem sameina þessar stofnanir í einn héraðs­dóm­stól en með starfsstöðvar á þeim stöðum þar sem héraðsdómstólarnir eru nú. Með sam­ein­ingu héraðsdómstólanna aukast möguleikar á að jafna starfsálag milli héraðsdómstóla og færa verk­efni til dómstóla á landsbyggðinni. Af þessu leiðir að nauðsynlegt er að gera ýmsar breytingar á réttar­fars­lögum, sérstaklega lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Endurflutt. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (aðgerðir til að koma í veg fyrir brot).
    Markmið frumvarpsins er að skýra heimildir lögreglu til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum hvað varðar afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins, afbrot sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi og afbrot sem framin eru á netinu. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um meðferð vopna hjá lögreglu. Endurflutt. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (stafræn miðl­un gagna og stafrænar birtingar).
    Með frumvarpinu er ætlunin að ryðja úr vegi hindrunum í gildandi réttarfarslöggjöf fyrir því að í auknum mæli megi miðla gögnum með stafrænum hætti eða birta innan réttarvörslukerfisins. Það verði gert með því að gera réttarfarslöggjöfina hlutlausa um afhendingarmáta gagna, heimila notkun raf­rænna undirskrifta o.s.frv., auk þess að heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala sem nú krefjast tiltekins birtingarmáta. Þá er jafnframt lagt til að heimilað verði að senda kröfulýsingu í þrotabú til skiptastjóra á stafrænan hátt sem og að heimildir til þinghalda á fjarfundi verði gerðar varanlegar. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991 (stafræn málsmeðferð).
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja lagalegan grundvöll stafrænnar málsmeðferðar í málum sem varða innheimtu fjárkrafna, þ.e. fjárnámsmálum og nauðungarsölumálum, sem koma til meðferðar hjá dómstólum og sýslumannsembættum. Í því felst að veita sýslumönnum og dómstólum heimild í lög­um til stafrænnar málsmeðferðar og gera mögulegt að sleppa óþarfa fyrirtökum í þessum málum. Nóvember.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd).
    Með frumvarpinu er ætlunin að samræma löggjöf og framkvæmd þessara mála við umgjörð annarra Evrópuríkja, einkum Norðurlandanna, og tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns og auka skil­virkni innan stjórnsýslunnar. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög, nr. 108/1999, og lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988 (aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka).
    Frumvarpið miðar að því að bregðast við áhættumati ríkislögreglustjóra vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka, sem tengist aðild Íslands að FATF (Financial Action Task Force). Í áhættumatinu er m.a. bent á að áhætta geti tengst skráðum trú- og lífsskoðunar­félög­um, sjóðum og sjálfseignarstofnunum og eru því lagðar til breytingar á lögunum vegna þess. Janúar.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, nr. 75/2019 (gildissvið gagnvart dómstólum, gjaldtaka o.fl.).
    Frá gildistöku persónuverndarlaga hefur komið í ljós að skýra þarf nokkur ákvæði laganna nánar eða breyta til að ákvæðin verði framkvæmanleg. Með frumvarpinu er brugðist við ábendingum sem borist hafa, m.a. frá Persónuvernd og fleiri aðilum. Janúar.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (ýmsar breytingar vegna skipulagðrar brotastarfsemi).
    Frumvarpið kveður á um breytingar á ákvæðum laganna um afhendingu gagna til verjenda og réttar­gæslumanna, lengd og tilhögun gæsluvarðhalds, þ. á m. einangrunarvistar. Þá er einnig mælt fyrir um breytingar er varða öflun fjarskiptagagna, upplýsinga hjá fjármálastofnunum og heimild ríkis­saksóknara til að flytja mál á milli embætta. Janúar.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum, nr. 71/1997 (nauðungarvistanir, yfirlögráð­end­­ur o.fl.).
    Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögræðislögum, m.a. í þeim tilgangi að gera ákvæði laganna um nauðungarvistanir skýrari og skerpa á ýmsum reglum um sviptingu lögræðis, um hlutverk lög­ráða­manna og reglum um eftirlit og heimildir yfirlögráðenda. Með frumvarpinu er m.a. stefnt að því að koma til móts við ábendingar alþjóðlegra eftirlitsaðila, umboðsmanns Alþingis og fagaðila um breytingar á lögunum. Janúar.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993 (örorkumat o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum skaðabótalaga sem varða mat á örorku og örorkunefnd. Einnig eru lagðar til breytingar er varða margfeldisstuðul, vísitölutengingu og frá­drátt­ar­reglur sem lagðar voru til í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi á 148. löggjafarþingi. Janúar.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984 (einföldun málsmeðferðar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum til einföldunar á framkvæmd laganna. Febrúar.

  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016 (nefnd um dómarastörf, leyfi dómara, tilnefningarhlutverk Hæstaréttar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeim reglum sem gilda um meðferð mála hjá nefnd um dómarastörf í því skyni að gera þær skýrari. Jafnframt eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sem heimila að veita dómurum leyfi til allt að sex ára til að taka sæti í alþjóðlegum dóm­stól eða starfi við aðra alþjóðastofnun eða þiggja setningu við æðri dómstól. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er varða tilnefningar Hæstaréttar í nefndir. Í mörgum lagaákvæðum er mælt fyrir um að Hæstiréttur Íslands skuli tilnefna einn nefndarmann eða fleiri í kærunefndir og úrskurðarnefndir innan stjórnsýslunnar. Með frumvarpinu er lögð til breyt­ing á þessum ákvæðum þannig að Hæstiréttur tilnefni eftirleiðis einungis í stjórnsýslunefndir ef það telst nauð­synlegt eða eðlilegt í ljósi starfsemi hlutaðeigandi nefndar. Febrúar.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um söfnunarkassa, nr. 73/1994, og lögum um happ­drætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973 (aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka).
    Frumvarpið miðar að því að bregðast við áhættumati ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjár­mögn­un hryðjuverka, sem tengist aðild Íslands að FATF (Financial Action Task Force). Í áhættu­mat­inu er m.a. bent á að áhætta geti tengst starfsemi söfnunarkassa og happdrættisvéla og eru því lagðar til breytingar á lögunum vegna þess. Febrúar.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018 (ýmsar breytingar).
    Frumvarpið kveður á um breytingar á 1) ákvæðum laganna um áhættumat vegna tilmæla FATF um fjármögnun gereyðingarvopna, 2) ákvæðum er varða ábyrgðarmenn innan tilkynningarskyldra aðila, 3) orðalagsbreytingar á ýmsum ákvæðum vegna tilvísunar til brottfallinna laga um kauphallir og á viðurlagaákvæðum þar sem skortir á ákveðin atriði, 4) ákvæðum um raunverulega eigendur og 5) úrræði til handa skrifstofu fjármálagreininga lögreglu ef tilkynningarskyldir aðilar skirrast við að afhenda gögn. Febrúar.

  17. Frumvarp til laga um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgð­ar foreldra og aðgerða til verndar börnum.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði sem eru nauðsynleg til að Ísland geti fullgilt samning um lögsögu, gildandi lög, viðurkenningu, fullnustu og samvinnu vegna ábyrgðar foreldra og aðgerða til verndar börnum sem gerður var í Haag 19. október 1996. Febrúar.

  18. Frumvarp til laga um lokuð búsetuúrræði.
    Með frumvarpinu er ætlunin að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna, m.a. um lokuð búsetuúrræði (brottvísunartilskipunin). Febrúar.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bóta­fjár­hæð­ir).
    Með frumvarpinu er lögð til einföldun á meðferð bótakrafna vegna brota á IX.–XIV. kafla laga um meðferð sakamála vegna ólögmætrar handtöku, þvingunarráðstafana og gæsluvarðhalds á þann hátt að settar verði reglur um viðmiðunarfjárhæðir bóta sem ríkislögmaður styðst við við uppgjör slíkra bóta. Samhliða er felld brott skylda til að veita gjafsókn í slíkum bótamálum. Með þessum breyting­um er unnt að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings um bætur. Í frumvarpinu felst hagræðing við meðferð málanna, bæði fyrir þolendur og ríkið, auk þess sem gera má ráð fyrir lækkun útgjalda hjá ríkissjóði vegna málskostnaðar í þessum málum. Mars.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (vefverslun með áfengi, fram­leiðsla áfengis til einkaneyslu).
    Með frumvarpinu verður lagaumhverfi vefverslunar tekið til endurskoðunar. Jafnframt verður lagt til að ekki verði lengur refsivert fyrir einstaklinga að framleiða áfengi, að því gefnu að framleiðslan sé einungis til einkaneyslu og að ekki sé um að ræða framleiðslu á sterku áfengi. Mars.

 

Félags- og vinnumarkaðsráðherra

  1. Frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar.
    Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um atvinnuleysistryggingar sem meðal annars er ætlað að einfalda gildandi atvinnuleysistryggingakerfi sem og að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa á vinnumarkaði, svo sem hvað varðar ólík ráðningarform. Október.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (skilvirkari málsmeðferð og breytingar á skilyrðum).
    Í frumvarpinu felast breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sem meðal annars er ætlað að skýra málsmeðferð á grundvelli laganna og gera hana skilvirkari. Október.

  3. Frumvarp til laga um starfsendurhæfingu.
    Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um starfsendurhæfingu. Í lögunum er kveðið á um heildstæðan feril starfsendurhæfingar og mat á virkni einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði eftir að starfsendurhæfing telst fullreynd. Þá er gert ráð fyrir breytingum á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð þar sem áhersla er lögð á sameiningu bótaflokka og einfaldari reglur um útreikninga á greiðslum. Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun örorku- og endurhæfingalífeyriskerfisins. Nóvember.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (störf ríkissáttasemjara).
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem meðal annars verður litið til tillagna starfshóps sem fengið hefur það hlutverk að leggja fram tillögur til að skýra formlegt gildi miðlunartillagna ríkissáttasemjara, forsendur framlagningar og heimildir ríkissáttasemjara til að knýja á um atkvæðagreiðslu um slíkar tillögur eftir að þær hafa verið lagðar fram. Jafnframt er það hlutverk starfshópsins að kanna hvort, og þá hvernig, rétt sé að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi, samanber markmið sem fram koma í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Janúar.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (reglugerðarheimildir).
    Í frumvarpinu felast breytingar á lögum nr. 38/2018 þar sem tekið er mið af tillögum úr skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laganna frá árinu 2022. Lagt er til að bæta við lögin reglugerðarheimildum svo ráðherra sé heimilt að kveða með nánari hætti á um ýmis atriði laganna, meðal annars hvað varðar fæðisfé fyrir starfsfólk sem matast með notendum, og hvernig útfæra skuli aðstoðarmannakort fyrir fatlað fólk sem veiti aðstoðarmanni viðkomandi ókeypis aðgang hjá hinu opinbera, svo sem á söfn, í sund o.s.frv. Janúar.

  6. Frumvarp til starfskjaralaga.
    Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um starfskjör launafólks í stað laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Megintilgangur frumvarpsins er að skýra þær grundvallarreglur sem gilda á vinnumarkaði í tengslum við laun og önnur starfskjör launafólks, meðal annars í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði. Endurflutt. Janúar.

  7. Frumvarp til laga um greiðslur vegna umönnunar langveikra eða fatlaðra barna.
    Í frumvarpinu felast breytingar á tilhögun stuðnings við foreldra og forráðamenn fatlaðra og langveikra barna í samræmi við niðurstöður starfshóps sem skipaður var til þess að meta reynslu af framkvæmd laganna og þörf á breytingum. Einföldun kerfis með sameiningu foreldragreiðslna og umönnunargreiðslna auk þess sem greiðslur til foreldra taki mið af umönnunarþörf og kostnaði sem er tilkominn vegna fötlunar og veikinda barnsins. Endurflutt. Janúar.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (sjálfstætt starfandi einstaklingar o.fl.).
    Gert er ráð fyrir tilteknum breytingum á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga í samræmi við ákvæði til bráðabirgða VII. í lögum um atvinnuréttindi útlendinga þar sem kveðið er á um að ráðherra skuli skipa starfshóp til að gera tillögur að lagabreytingum sem heimili útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa til sjálfstætt starfandi einstaklinga og að tímabundin atvinnuleyfi skuli skilyrt við tilteknar atvinnugreinar í stað starfs hjá tilteknum atvinnurekendum. Febrúar.

  9. Frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn.
    Ný heildarlög um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. Frumvarpinu er meðal annars ætlað að setja nánari lagaákvæði um réttarstöðu einstaklinga sem hefur verið gert að sæta öryggisráðstöfunum á grundvelli VII. kafla almennra hegningarlaga og kveða með nánari hætti á um framkvæmd ráðstafananna. Mars.

  10. Frumvarp til laga um framhaldsfræðslu.
    Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um framhaldsfræðslu eftir heildarendurskoðun á gildandi lögum, meðal annars í ljósi reynslunnar við framkvæmd gildandi laga sem og með hliðsjón af yfirstandandi heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins. Mars.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011 (ýmsar breytingar).
    Markmið frumvarpsins er að bæta úr ýmsum atriðum laganna í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd þeirra, svo sem að skýra ákvæði um persónulega talsmenn. Mars.

  12. Frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning fyrir örorkulífeyrisþega.
    Í frumvarpinu verður kveðið á um félagslegan viðbótarstuðning við örorkulífeyrisþega sem búa hér á landi en hafa ekki áunnið sér full réttindi í almannatryggingum og hafa litlar sem engar aðrar tekjur sér til framfærslu. Mars.

  13. Tillaga til þingsályktunar um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
    Ályktunin felur í sér stefnu og aðgerðaáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til ársins 2030. Verkefni sem áður voru skilgreind í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks verða felld inn í landsáætlun, auk aðgerða sem unnar hafa verið af vinnuhópum undir verkefnastjórn um gerð landsáætlunar og innleiðingu samningsins. Nóvember.

  14. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að móta skuli skýra og heildstæða stefnu í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Auk þess samþykkti Alþingi árið 2022 þingsályktun, nr. 29/152, um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025 sem kveður á um að mótuð skuli skýr og heildstæð langtímastefna í málaflokknum. Í ljósi þess er gert ráð fyrir að lögð verði fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Mars.

 

Fjármála- og efnahagsráðherra

  1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2024.
    Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2024 sem lagt er fram á sama tíma. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. September.

  3. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2022. September.

  4. Frumvarp til laga um veggjöld vegna notkunar bifreiða (gjaldtaka hreinorku- og tengiltvinnbifreiða).
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna notkunar hreinorkubifreiða, þ.m.t. rafmagns- og vetnisbifreiða, og tengiltvinnbifreiða á vegakerfinu. Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi taki gildi þann 1. janúar 2024. Október.

  5. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2023. Október.

  6. Frumvarp til laga um þjóðarsjóð.
    Sjóðurinn verður eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll. Honum verður falið að annast um uppsöfnun á nánar skilgreindum tekjum ríkissjóðs og úthlutanir verða háðar aðkomu Alþingis í formi þingsályktunartillögu og fjárlagaheimildar. Endurflutt. Október.

  7. Frumvarp til laga um fjárfestingar ríkisins.
    Heildarendurskoðun á núgildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001. Megintilgangur frumvarpsins er að ná fram aukinni gæðatryggingu í fjárfestingum ríkisins, ásamt því að tryggja samræmda málsmeðferð við ólíkar tegundir fjárfestinga. Október.

  8. Frumvarp til laga um slit og uppgjör ÍL-sjóðs.
    Markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að mæla fyrir um skipulögð slit og uppgjör ÍL-sjóðs með hagfelldri niðurstöðu fyrir þá sem hafa hagsmuna að gæta. Nóvember.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009 (kolefnisgjald).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gildissviði og fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna. Nóvember.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (gistináttaskattur, barnabætur o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Um er að ræða breytingar sem felast m.a. í útvíkkun á gistináttaskatti þannig að hann nái jafnframt til gistinátta í skemmtiferðaskipum sem leggjast að höfn hér á landi. Þá er um að ræða ákvæði sem snúa m.a. að samtímabarnabótum, áfengisgjaldi, heimildum tollgæslu, upplýsingaheimildum skattyfirvalda, breytingum á tollalögum vegna kolefnisjöfnunar yfir landamæri (CBAM), stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki, reiknuðu endurgjaldi o.fl. Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (heimilisfesti o.fl.).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á reglum sem snúa að skattalegu heimilisfesti manna í tilefni af nýlegri dómaframkvæmd. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um framkvæmdir og umsýslu fasteigna fyrir Landspítala og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu (NLSH).
    Endurskoðun á núgildandi lagaramma um NLSH er varðar framkvæmdir við Hringbraut. NLSH fær aukin verkefni er varða undirbúning og framkvæmd bygginga fyrir Landspítala og aðra sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í samræmi við ákvarðanir stjórnvalda. Þá er einnig gert ráð fyrir að heimilt verði að færa eignarhald og umsýslu fasteigna vegna sjúkrahúss til félagsins með sambærilegum hætti og gert var vegna umsýslu fasteigna Háskóla Íslands. Nóvember.

  13. Frumvarp til laga um högun upplýsingatækni í rekstri ríkisins.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja stefnumótun og framkvæmd upplýsingatæknimála í rekstri ríkisins o.fl. Nóvember.

  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016 (markviss innkaup, stofnanaumgjörð).
    Endurskoðun tiltekinna ákvæða í núgildandi lögum með það að markmiði að gera innkaup á vegum hins opinbera markvissari í framkvæmd og tryggja samræmi við EES-rétt. Þá þarf einnig að endurskoða ákvæði laganna um stofnanaumgjörð Ríkiskaupa vegna mögulegrar sameiningar þeirrar stofnunar við FSRE. Nóvember.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (fjárfestingarheimildir og viðbótarlífeyrissparnaður).
    Í frumvarpinu verður lagt til að valfrelsi einstaklinga í fjárfestingarkostum viðbótarlífeyrissparnaðar verði aukið. Málið á uppruna sinn í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Nóvember.

  16. Frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga á fjármálamarkaði (úrelt lög).
    Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði brott ýmis lög á fjármálamarkaði sem eru talin úrelt eða hafa lokið hlutverki sínu. Desember.

  17. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á fjármálamarkaði (lagfæringar).
    Með frumvarpinu verða lagðar til minni háttar lagfæringar á ýmsum lögum á fjármálamarkaði, meðal annars til að unnt verði að leiða í íslenskan rétt efni Evrópugerða sem hafa verið teknar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Desember.

  18. Frumvarp til laga um verðbréfun (STS).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2017/2402, um almennan ramma fyrir verðbréfun og gerð sértæks ramma fyrir einfalda, gagnsæja og staðlaða verðbréfun o.fl. Verðbréfun er tegund fjármögnunarviðskipta fjármálastofnana og álitin mikilvægur þáttur í vel starfhæfum fjármálamarkaði, enda sé hún byggð á traustu skipulagi. Með frumvarpinu verður komið á styrkri lagaumgjörð er miðar að því að draga úr áhættunni sem felst í verðbréfun og tryggja aðgreiningu einfaldra, gagnsærra og staðlaðra verðbréfunarafurða frá flóknum, ógagnsæjum og áhættusamari afurðum. Með frumvarpinu verða jafnframt lagðar til breytingar á lögum um verðbréfasjóði, vátryggingastarfsemi, lánshæfismatsfyrirtæki, rekstraraðila sérhæfðra sjóða og afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, til samræmis við breytingar á öðrum tilskipunum og reglugerðum með reglugerð (ESB) 2017/2402. Innleiðing. Janúar.

  19. Frumvarp til laga um greiðslur yfir landamæri í evrum (CBPR).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2021/1230, um greiðslur yfir landamæri í Sambandinu. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 78/2014, sem sett voru til innleiðingar á reglugerð (EB) 924/2009, um greiðslur yfir landamæri í Bandalaginu, og ný lög sett í þeirra stað. Innleiðing. Janúar.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (uppgjörstímabil o.fl.).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt í tengslum við uppgjörstímabil virðisaukaskatts o.fl. Janúar.

  21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, og lögum um lánasýslu ríkisins, nr. 43/1990 (endurskoðun).
    Með frumvarpinu er stefnt að því endurskoða lagaákvæði um lánaumsýslu ríkissjóðs og ríkisábyrgðir. Undir lánaumsýslu falla m.a. tekin lán ríkissjóðs, endurlán, ábyrgðir, afleiður, áhættustýring og sjóðsstýring. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma löggjöfina gildandi lögum um opinber fjármál og stefnu í lánamálum. Janúar.

  22. Frumvarp til laga um meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja meðferð eignarhluta ríkisins í fyrirtækjum með breyttu fyrirkomulagi þar sem aukin áhersla verður lögð á gagnsæi, jafnræði, lýðræðislega aðkomu þingsins og upplýsingagjöf til almennings. Félagasýslan kemur í stað Bankasýslu ríkisins. Janúar.

  23. Frumvarp til laga um innviði á markaði fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni (DLT).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2022/858, um tilraunaregluverk fyrir innviði á markaði fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni, og breytingar á lögum um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga, nr. 7/2020, og lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Með reglugerðinni er komið á skipulagi til reynslu fyrir innviði sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni (DLT), það er markaðstorg fjármálagerninga, uppgjörskerfi og kerfi sem gegna hlutverki bæði viðskipta- og uppgjörskerfa. Þá er hugtakið DLT-fjármálagerningur skilgreint í henni, það er fjármálagerningur sem gefinn er út, skráður, fluttur og varðveittur á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni. Kröfur í tilskipunum og reglugerðum sem þegar eru í gildi (MiFID II, MiFIR og CSDR) eru lagaðar að sérstöku eðli áskorana sem tengjast framþróun tækni. Markmið reglugerðarinnar er meðal annars að fylla upp í tómarúm í gildandi samevrópsku regluverki. Um tímabundið reynslutímabil er að ræða samkvæmt reglugerðinni, að hámarki sex ár. Innleiðing. Janúar.

  24. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (stafræn viðskipti yfir landamæri og lágmarksskattur á alþjóðafyrirtæki).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar sem snúa að skattlagningu tekna vegna stafrænna viðskipta yfir landamæri og lögfestingu lágmarksskatts á alþjóðafyrirtæki. Mars.

  25. Frumvarp til laga um hópfjármögnun fyrir fyrirtæki (ECSP).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2020/1503 sem kveður á um starfsleyfi fyrir þjónustuveitendur sem hafa milligöngu um hópfjármögnun fyrir fyrirtæki í formi lána eða verðbréfakaupa og kröfur þar um. Enn fremur verða lagðar til minni háttar breytingar á lögum um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Innleiðing. Mars.

  26. Frumvarp til laga um stafrænan viðnámsþrótt fjármálamarkaðar (DORA).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð (ESB) 2022/2554, um stafrænan viðnámsþrótt fjármálamarkaðar, og tilskipunar (ESB) 2022/2556, um breytingar á ýmsum gildandi tilskipunum. DORA-gerðirnar svonefndu tilheyra stafrænum fjármálapakka Evrópusambandsins sem ætlað er að stuðla að því að umgjörð fjármálamarkaða mæti þörfum og kröfum nútímans, meðal annars hvað net- og upplýsingaöryggi varðar. Með frumvarpinu verður lagt til að samræmdar kröfur verði gerðar til viðbúnaðar og umgjarðar áhættustýringar helstu tegunda fyrirtækja á fjármálamarkaði, að teknu tilliti til stærðar og áhættusniðs, eðlis, umfangs og flækjustigs þjónustu/starfsemi og kerfislegs mikilvægis, þar á meðal að því er varðar aðkeypta tækniþjónustu og skyldu til að tilkynna um alvarleg atvik. Fyrirtækjum á fjármálamarkaði verði eftir atvikum skylt að framkvæma einfaldar eða ógnamiðaðar netöryggisprófanir í því skyni að bæta áfallaþol. Þá verði frekari stoðum rennt undir heimildir til miðlunar upplýsinga um ógnir og áhættu sem steðjað getur að starfsemi fyrirtækja á fjármálamarkaði, enda sé slíkt samstarf formgert og hlíti nánar tilgreindum skilyrðum. Með DORA-reglugerðinni er komið á sameiginlegri umgjörð yfirsýnar evrópska fjármálaeftirlitskerfisins með stærstu tækniþjónustuveitendum, sem útnefndir verða sem mikilvægir á sameiginlegum innri markaði fjármálaþjónustu. Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum á fjármálamarkaði, sem þegar víkja að einhverju marki að stafrænum viðnámsþrótti ólíkra fyrirtækja. Innleiðing. Mars.

  27. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018 (miðlægir mótaðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins).
    Með frumvarpinu verður lagt til að reglugerð (ESB) 2019/2099, um breytingar á reglugerð (ESB) nr. 648/2012, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (EMIR 2.2), verði veitt lagagildi hér á landi með breytingu á lögum nr. 15/2018 um sama efni. Frumvarpið felur í sér breytingar á eftirliti með miðlægum mótaðilum. Engir slíkir eru starfandi hérlendis. Innleiðing. Mars.

  28. Frumvarp til laga um starfstengda eftirlaunasjóði (IORP II).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun (ESB) 2016/2341, um starfstengda eftirlaunasjóði. Með frumvarpinu verður lagt til að felld verði úr gildi lög um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 78/2007, sem sett voru til innleiðingar á tilskipun (ESB) 2003/41 um sama efni, og ný lög sett í þeirra stað. Um er að ræða endurútgáfu á eldri tilskipun um sama efni, það er tilskipun 2003/41/EB, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum sem sjá um starfstengd eftirlaun. Innleiðing. Mars.

  29. Frumvarp til laga um veggjöld vegna notkunar bifreiða (gjaldtaka ökutækja, eldsneytis o.fl.).
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag gjaldtöku í formi kílómetragjalds vegna notkunar bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti á vegakerfið. Samhliða er gert ráð fyrir því að endurskoðun fari fram á þeim lögum sem gilda um skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Gert er ráð fyrir að nýtt kerfi taki gildi þann 1. janúar 2025. Mars.

  30. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988 (skattlagning sýndareigna).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um virðisaukaskatt vegna skattalegrar meðhöndlunar sýndareigna, þ.m.t. rafmynta. Mars.

  31. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029.
    Samkvæmt 5. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. Mars.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um íslensk landshöfuðlén og lögum um Fjarskiptastofu (fjarskiptanet, skráning, eftirlit o.fl.).
    Í frumvarpinu er lögð til breyting á fjarskiptalögum með því að kveðið verði á um opinn aðgang að fjarskiptanetum sem notið hafa ríkisaðstoðar og um verðlagningu fyrir aðgang að slíkum netum. Þá er lögð til breyting á lögum um íslensk landshöfuðlén, með því að lögfesta lágmarksskráningar-upplýsingar um ábyrgðaraðila tiltekinna léna, sem þörf er á í tengslum við rannsókn mála hjá lögreglu og öðrum stjórnvöldum. Að síðustu er lögð til breyting á lögum um Fjarskiptastofu með því að lögfesta sérstaka þagnarskyldu Fjarskiptastofu og netöryggissveitar um viðkvæm öryggisgögn með sama hætti og gildir samkvæmt fjarskiptalögum og lögum um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnot opinberra upplýsinga, nr. 45/2018 (mjög verðmæt gagnasöfn).  
    Stafræn þróun hefur verið afar hröð undanfarin ár og hefur hún opnað á nýjar leiðir til aðgangs að upplýsingum og til hagnýtingar upplýsinga. Með frumvarpinu er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024, um opin gögn og endurnot upplýsinga frá hinu opinbera, innleidd. Innleiðing. Október.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 (ECTS-einingar, örnám og styttri námsleiðir).
    Í frumvarpinu felst breyting sem heimilar háskólum að meta örnám eða styttri námsleiðir til ECTS-eininga ásamt því að viðmið um lágmarkseiningafjölda til diplómaprófs hækka úr 30 ECTS-einingum í 60 einingar, til að uppfylla skuldbindingar Íslands á grundvelli Bologna-samstarfsins. Október.

  4. Frumvarp til laga um Kríu, nýsköpunarsjóð (sameining sjóða).
    Frumvarpinu er ætlað að sameina krafta nýsköpunarsjóða á vegum ráðuneytisins þannig að úr verði nýr og öflugur fjárfestingar- og styrktarsjóður sem hafi skýra áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki á fyrstu stigum sem og áherslu á og markmið um að styðja nýskapandi lausnir við samfélagslegum áskorunum. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991 (viðbótarvernd).
    Í frumvarpinu felst formleg innleiðing reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 469/2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf en efnislegt inntak reglugerðarinnar hafði verið lögfest með lögum til breytinga á einkaleyfalögum, nr. 57/2021. Innleiðing. Febrúar.
     
  6. Frumvarp til laga um ramma um frjálst flæði ópersónugreinanlegra upplýsinga á Evrópska efnahagssvæðinu (frjálst flæði ópersónugreinanlegra upplýsinga).
    Með frumvarpinu er reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1807 um ramma um frjálst flæði ópersónugreinanlegra upplýsinga í Evrópusambandinu innleidd. Frumvarpið kveður á um frjálst flæði gagna, annarra en persónuupplýsinga, innan Evrópska efnahagssvæðisins, með því að takmarka heimildir til þess að krefjast staðbindingar gagna, þ.e. þegar krafist er að gögn séu staðsett innan ákveðins landsvæðis. Þá er tryggt aðgengi lögmætra yfirvalda að gögnum sem geymd eru innan annars aðildarríkis. Innleiðing. Febrúar.  

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna, nr. 153/2020 (endurskoðun).
    Í ákvæði til bráðabirgða VIII við lög um Menntasjóð námsmanna segir að endurskoða skuli lögin innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda og að ráðherra skuli kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2023. Umrædd lög komu til framkvæmda 1. júlí 2020. Í því ljósi og í framhaldi af skýrslu ráðherra um Menntasjóðinn verður lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjóðinn með vísan til niðurstaðna skýrslunnar. Mars.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003 (endurskoðun).
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að kortlagningu á umhverfi sjóða á vegum ráðuneytisins síðustu misseri. Þá eru lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir komin til ára sinna og tímabært að endurskoða þau í ljósi þróunar á síðustu árum og þeirrar staðreyndar að stuðningur á grundvelli laganna er ekki einungis stuðningur við vísindarannsóknir heldur fjölbreyttur stuðningur við nýsköpun og vísindi. Mars.

  9. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi.
    Tillagan byggir á sýn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis um að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum sé að hugvit verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Hugvitið, sem er okkar dýrmætasta en um leið vannýttasta auðlind, verði að virkja betur og þannig megi koma í veg fyrir of miklar sveiflur í hagkerfinu og einsleitni starfa. Draga eigi úr því að þekking flæði frá Íslandi og út í heim og jafnframt stuðla að því að þeir sem leiti til landsins séu í auknum mæli sérfræðingar sem skapi ný og spennandi störf. Með aðgerðum sem kynntar eru í tillögunni er ætlunin að leysa úr læðingi þá krafta sem myndast við sameiningu málaflokkanna og þær nýju hugmyndir sem verða til í suðupotti háskóla, vísinda, rannsókna, hugverka, iðnaðar, fjarskipta, upplýsingasamfélags og nýsköpunar. Endurflutt. September.

  10. Skýrsla háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um Tæknisetur og stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
    Í ákvæði til bráðabirgða VI við lög um opinberan stuðning við nýsköpun, nr. 25/2021, kom fram að ráðherra skuli gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi Tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir gildistöku laganna. Október.

  11. Skýrsla háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um Menntasjóð námsmanna.
    Í ákvæði til bráðabirgða VIII við lög um Menntasjóð, nr. 60/2020, segir að endurskoða skuli lögin innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda og að ráðherra skuli kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2023. Nóvember.

 

Heilbrigðisráðherra

  1. Frumvarp til sóttvarnalaga (heildarlög).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum í kjölfar heildarendurskoðunar á lögunum sem ráðist var í veturinn 2021-2022 með hliðsjón af fenginni reynslu eftir heimsfaraldur SARS-CoV-2-veirunnar. Breytingar frá gildandi lögum varða einkum stjórnsýslu sóttvarna, feril ákvarðana um opinberar sóttvarnaráðstafanir og aukna aðkomu Alþingis að þeim. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, nr. 6/2002 (innihaldsefni, rekjanleiki, umbúðir tóbaksvara o.fl.).
    Með frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á lögunum til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að innleiddar verði reglur tilskipunarinnar um umbúðir tóbaksvara, rekjanleika og skráningu þeirra og tilkynningar um nýjar vörur. Jafnframt verður lagt til að innleiddar verði reglur um jurtavörur til reykinga og takmarkanir á einkennandi bragði og tilteknum aukaefnum í tóbaksvörum. Innleiðing. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um lækningatæki (upplýsingar um birgðastöðu).
    Með frumvarpinu verður lagt til að gerð verði breyting á lögum til að setja lagastoð fyrir upplýsingasöfnun og upplýsingagjöf um birgðir allra lyfja, þ.m.t. undanþágulyfja sbr. 12. gr. lyfjalaga og mikilvægra lækningatækja hér á landi frá öllum aðilum sem halda þessar birgðir. Frumvarp þetta er m.a. liður í innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/123 frá 25. janúar 2022 um að styrkja hlutverk Lyfjastofnunar Evrópu að því er varðar viðbúnað við krísu og krísustjórnun varðandi lyf og lækningatæki og fyrsta viðbragð heilbrigðisráðherra við skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir sem forsætisráðuneytið gaf út í ágúst 2022. Endurflutt. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika).
    Með frumvarpinu er lagt til að festa í lög um heilbrigðisþjónustu ákvæði um hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rekstraraðila sem veita heilbrigðisþjónustu til að tryggja betur öryggi sjúklinga, styrkja öryggismenningu og skapa heilbrigðisstarfsfólki betri starfsskilyrði. Þannig væri hægt að sækja til saka stofnunina (lögaðilann) þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks. Markmiðið er að fækka þeim málum sem fara til lögreglu. Með frumvarpinu eru ákvæði um rannsókn alvarlegra atvika ítarlegri. Lagt er til að réttindi sjúklinga, eða eftir atvikum aðstandenda, á upplýsingum um framgang rannsóknar verði lögfestur. Einnig eru lagðar til breytingar á ferli kvartana til embættis landlæknis, til að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma, í þágu öryggis og gæða heilbrigðisþjónustu. Auk þess eru skyldur heilbrigðisstofnana til innra eftirlits áréttaðar. Endurflutt. September.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (takmörkun á beitingu nauð­ung­ar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela meðal annars í sér meginreglu um bann við beitingu nauðungar en einnig undanþágur frá meginreglunni þegar brýna nauðsyn ber til að beita nauðung að uppfylltum skilyrðum sem skilgreind eru í frumvarpinu. Enn fremur eru með frumvarpinu lagðar til strangari málsmeðferðarreglur en nú gilda sem fylgja þarf við og í kjölfar slíkra inngripa, þ.m.t. skráningarskyldu tilvika, kæruheimildir og rétt til að bera mál undir dómstóla. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, nr. 44/2014 (samþykki Persónuverndar).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 13. gr. laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði en umrætt ákvæði fjallar um umfjöllun Persónuverndar á vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Lagt er til í frumvarpinu að ráðherra setji reglugerð um umsóknir sem skylt er að senda til umfjöllunar hjá Persónuvernd. Með þessari breytingu er unnt að undanskilja tilteknar vísindarannsóknir sem siðanefnd er skylt að senda til Persónuverndar. Það myndi almennt stytta málsmeðferðartíma siðanefnda og einfalda málsmeðferð. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (heilbrigðisskrár o.fl.).
    Í frumvarpinu verður lagt til að settur verði nýr kafli í lög um landlækni og lýðheilsu þar sem kveðið verður með ítarlegum hætti á um þær heilbrigðisskrár sem landlæknir skal setja, skipuleggja og halda. Þörf er á að uppfæra núgildandi ákvæði um heilbrigðisskrár í takt við breyttar aðstæður í heilbrigðiskerfinu og þær skrár sem haldnar eru, svo sem meðferðartengdar heilbrigðisskrár og gæðaskrár og veita skipulagningu slíkra skráa fullnægjandi lagastoð, svo sem m.t.t. persónuverndar. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 100/2020 (viðbrögð við lyfjaskorti, lyfjaávísanir o.fl.).
    Með frumvarpinu verða sett ákvæði sem veita Lyfjastofnun heimildir til að bregðast við og/eða takmarka áhrif lyfjaskorts í landinu. Enn fremur verða gerðar breytingar á ákvæðum er varða ávísanaréttindi og þau látin ná yfir fleiri heilbrigðisstéttir en fyrir eru með öryggi sjúklings að leiðarljósi. Meðfram þeirri breytingu verður sett skýr skylda á heilbrigðisstarfsmenn með ávísanaréttindi að hafa gilda starfsábyrgðartryggingu. Að lokum verða gerðar breytingar á orðalagi til að gæta samræmis í löggjöfinni. Nóvember.

  9. Frumvarp til laga um sjúklingatryggingu (heildarlög).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um sjúklingatryggingu sem fela m.a. í sér að afgreiðsla mála mun fara fram hjá Sjúkratryggingum Íslands, óháð því hvort atvik hafi orðið á heilbrigðisstofnun í eigu hins opinbera eða hjá einkaaðila. Enn fremur verður lagt til að hámarksbætur í hverju tjóni verði hækkaðar og að sjaldgæfar og alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetninga sem heilbrigðisyfirvöld hvetja til verði bættar. Með frumvarpinu verður eytt þeirri óvissu sem uppi hefur verið um forræði Sjúkratrygginga Íslands á gagnaöflun og málsmeðferð auk þess sem málin verða ekki borin undir dómstóla fyrr en eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur úrskurðað í málinu. Að öðrum kosti skal einstaklingur höfða almennt skaðabótamál. Desember.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (umsýsluumboð).
    Með frumvarpinu er lögð til heimild til handa sérfræðilæknum til að veita þriðja aðila umsýsluumboð til aðgangs að stafrænum heilbrigðisgáttum fyrir hönd einstaklings 16 ára og eldri sem er ófær um að veita slíkt umboð sjálfur með rafrænum skilríkjum, vegna vitsmunalegra, geðrænna og/eða líkamlegra skerðinga. Janúar.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (fjarheilbrigðisþjónusta).
    Með frumvarpinu er lagt til að nýtt ákvæði verði sett í lög um heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að skýra og samræma hugtakanotkun um fjarheilbrigðisþjónustu og mismunandi þætti hennar til að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og nýtingarmöguleikum fjarheilbrigðisþjónustu. Janúar.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 (eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum o.fl.).
    Með frumvarpinu verða ákvæði um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum gerð ítarlegri. Meðal annars verður lagt til að lögfesta heimildir embættis landlæknis fyrir vinnslu viðkvæmra upplýsinga í eftirlitsmálum, tilkynningarskyldu heilbrigðisstofnana og annarra stjórnvalda á brotum heilbrigðisstarfsmanna og rýmka tímafrest embættis landlæknis í málum þegar heilbrigðisstarfsmaður er sviptur starfsleyfi eða ávísunarrétti tímabundið. Þá verði ákvæði laganna um faglegar kröfur til rekstrar heilbrigðisþjónustu gerð skýrari. Febrúar.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008 (ýmsar breytingar).
    Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Breytingunum er m.a. ætlað að lögfesta atriði er varða vinnslu persónuupplýsinga og breyta orðalagi sem á ekki lengur við gildandi framkvæmd, svo sem varðandi réttindagreiðslur. Þá verða lagðar til breytingar á ákvæðum kaflans sem varða aðgerðir Sjúkratrygginga Íslands vegna vanefnda. Mars.

  14. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára.
    Til að hrinda lýðheilsustefnu til ársins 2030 í framkvæmd skal gera áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu aðila, svo sem sveitarfélög. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan lýðheilsustefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra skal leggja árlega fram aðgerðaáætlanir lýðheilsu­stefnunnar til umræðu á Alþingi. Mars.

  15. Skýrsla heilbrigðisráðherra um áætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu til fimm ára.
    Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd skal gera áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi. Heilbrigðisráðherra skal leggja árlega fram aðgerðaáætlanir heilbrigðisstefnu til umræðu á Alþingi. Mars.

 

Innviðaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2012 (hagkvæmar íbúðir). 
    Markmið frumvarpsins er að tryggja framboð hagkvæms húsnæðis með því að lögfesta heimild sveitarfélaga til að skilyrða notkun lands til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði, óháð eignarhaldi lóða. Breytingin er í samræmi við aðgerðaáætlun rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum sem var undirrituð 12. júlí 2022. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að ræða þar sem reglur um starfsemi sjóðsins verða fluttar úr lögum um tekjustofna sveitarfélaga í ný heildarlög. Einnig verður lögð til sú breyting að nokkur af helstu framlögum sjóðsins verða sameinuð í eitt framlag. Hlutverk sjóðsins verði áfram að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003 (skipulag o.fl.).
    Með frumvarpinu verða lögð til ákvæði um fyrirkomulag framsals verkefna frá Vegagerðinni til Landhelgisgæslu Íslands og Neyðarlínunnar ohf., tilkynningarskyldu farþegaskipa, stjórnvaldssektir o.fl. Endurflutt. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019 (úrbætur á póstmarkaði).
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi áformað að setja lagastoð fyrir innleiðingu framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1263 um netverslun yfir landamæri. Einnig er áformað að breyta 1. málslið 5. mgr. 27. gr. póstþjónustulaganna, nr. 98/2019, í því skyni að greiða fyrir aukinni notkun bréfakassasamstæðna auk þess sem áformað er að gera lagfæringar á texta laganna þar sem láðist að afmá orðið „Póst- og fjarskiptastofnun“ úr lögunum að fullu þegar stjórnsýsla og eftirlit með póstmálum var færð til Byggðastofnunar. Innleiðing. Endurflutt. September.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (EES-mál).
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja lagastoð til innleiðingar EES-gerða sem varða koltvísýringslosun ákveðinna ökutækja, skýrslugjöf þar um, gerð og búnað ökutækja, markaðseftirlit, aksturs- og hvíldartíma ökumanna, endurmenntun atvinnubílstjóra o.fl. Frumvarpið er að hluta til efnislega samhljóða frumvarpi sem ráðherra lagði fram á 153. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.  Innleiðing. Endurflutt. September.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (húsnæðisöryggi og réttarstaða leigjenda).
    Frumvarpið hefur það að markmiði að bæta upplýsingar um leigumarkaðinn með almennri skráningarskyldu leigusamninga í leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Frumvarpinu er enn fremur ætlað að auka húsnæðisöryggi leigjenda með því að stuðla að langtímaleigu með styrkingu forgangsréttar leigjanda til áframhaldandi leigu við lok leigusamnings. Enn fremur er því ætlað að tryggja fyrirsjáanleika og sanngirni um breytingar á leigufjárhæð, jafnt á samningstíma sem og við framlengingu eða endurnýjun leigusamnings. September.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tímabundinna undanþága frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.
    Frumvarpið er liður í samhæfingu aðgerða stjórnvalda vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur að markmiði að bregðast við bráðavanda í húsnæðismálum þess hóps. Frumvarpinu er ætlað að greiða fyrir því að stjórnvöld geti nýtt húsnæði sem er þegar fyrir hendi á húsnæðismarkaði en sem ekki hefur verið ætlað til búsetu undir tímabundin búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd án þess að afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun húsnæðisins til búsetu eða ráðast í breytingar á aðal- eða deiliskipulagi hlutaðeigandi sveitarfélags, enda uppfylli húsnæðið nánar skilgreind skilyrði um öryggi, brunavarnir og hollustuhætti sem og um gæði nærumhverfis. Endurflutt. September.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011 (breytingar á úthlutunarreglum).
    Lagðar verða til breytingar á úthlutunarreglum laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, sem fjalla um stuðning við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn. Breytingarnar hafa það markmið að auka vægi styrkveitinga til minni framleiðenda. Október.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003 (gjaldtaka o.fl.).
    Með frumvarpinu verða lögð til ákvæði um eldisgjald, heimild til rafrænnar vöktunar, afmörkun hafnarsvæða á sjó, stjórnsýslukærur o.fl. Október.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018 (skipan svæðaráða o.fl.).
    Breytingar til að uppfæra kröfur um samsetningu svæðisráðs og einfalda ferli við endurskoðun strandsvæðisskipulags. Október.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994 (gististarfsemi í fjöleignarhúsum).
    Frumvarpið hefur að markmiði að skýra þær reglur sem gilda um breytta hagnýtingu séreignar við rekstur gististarfsemi í fjöl­eign­ar­húsum, einkum hvort samþykki annarra eigenda sé áskilið fyrir slíkri starfsemi og þá að hvaða marki, hvort sem um heimagistingu eða rekstrarleyfisskylda gististarfsemi er að ræða. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 77/2019 (smáfarartæki o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að taka mið af sérkennum smáfarartækja og þeim áskorunum sem fylgt hafa aukinni notkun þeirra. Einnig eru breytingar lagðar til varðandi notkun stöðureita og lögunum til skýringar. Frumvarpið er að hluta til efnislega samhljóða frumvarpi sem ráðherra lagði fram á 153. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Endurflutt. Nóvember.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000 (öryggisskráning í húsnæði, fjöldatakmörkun lögheimilis í íbúðarhúsnæði og aðgangur að húsnæði til eftirlits).
    Breytingar á grundvelli tillagna starfshóps um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á heimildum til fjöldaskráningar lögheimilis/aðseturs í íbúðarhúsnæði, tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi. Enn fremur er lögð til rýmkun á reglum um húsnæðisstuðning í formi húsnæðisbóta sem hvata til að skrá rétta búsetu. Nóvember. 
              
  14. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2012 (tímabundnar uppbyggingarheimildir).
    Markmið laganna er að tímabinda uppbyggingarheimildir á grundvelli samþykkts deiliskipulags til að auka heimildir sveitarfélaga til að þrýsta á uppbyggingu lóða sem hefur verið úthlutað. Nóvember.  

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018 (lögheimilisflutningur).
    Lagðar verða til breytingar á lögunum sem hafa það markmið að veita einstaklingum sem búa við ofbeldi í nánu sambandi möguleika á að geta fengið lögheimili sínu breytt og haft það dulið þannig að viðkomandi sé ekki með skráð sama lögheimili og maki eða sambúðaraðili sem beitt hefur ofbeldi. Endurflutt. Febrúar. 

  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðisbætur, nr. 75/2016 (endurskoðun húsnæðisstuðnings við leigjendur).
    Frumvarpið hefur það að markmiði að koma á fót einu húsnæðisstuðningskerfi við leigjendur sem verði á vegum ríkisins í stað tveggja eins og nú. Þannig verði húsnæðisstuðningur í formi húsnæðisbóta ríkisins annars vegar og sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga hins vegar sameinaður í eitt stuðningskerfi í því skyni að tryggja jafnræði leigjenda til stuðnings óháð búsetu og einfalda kerfið gagnvart notendum þess. Febrúar.

  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (endurskoðun á fyrirkomulagi stofnframlaga).
    Frumvarpið hefur það að markmiði að endurskoða fyrirkomulag stofnframlaga til almennra íbúða í því skyni að slíkur húsnæðisstuðningur nái betur markmiðum sínum og styðji enn betur við fyrirhugaða húsnæðisuppbyggingu á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Febrúar.

  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (endurskoðun á fyrirkomulagi hlutdeildarlána).
    Frumvarpið hefur það að markmiði að endurskoða fyrirkomulag stofnframlaga hlutdeildarlána í því skyni að slíkur húsnæðisstuðningur nái betur markmiðum sínum og styðji enn betur við fyrirhugaða húsnæðisuppbyggingu á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum. Febrúar.

  19. Frumvarp til laga um almenningssamgöngur.
    Frumvarpið felur í sér nýja heildarlöggjöf um almenningssamgöngur hér á landi. Með því er skapaður rammi um samþætt kerfi almenningssamgangna og tengingar ólíkra ferðamáta innan kerfisins og lagt til að stofnað verði opinbert hlutafélag um rekstur almenningssamgangna. Markmið frumvarpsins er að stuðla að virkum, öruggum og hagkvæmum almenningssamgöngum og að auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum almennt. Febrúar.

  20. Frumvarp til laga um lóðarleigusamninga.
    Frumvarp á grundvelli ábendinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um úthlutun lóða og rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis. Ekki er til heildstæð löggjöf um lóðarleigusamninga hér á landi og geta réttindi til lóðar, sem mannvirki, verið mismunandi eftir því hvaða sveitarfélagi viðkomandi lóð tilheyrir. Mars.

  21. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
    Fimmtán ára stefnumótandi samgönguáætlun ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára. September.
         
  22. Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2024-2038 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
    Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að ráðherra sveitarstjórnarmála skuli að minnsta kosti á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Hinn 29. janúar 2020 var gildandi áætlun samþykkt fyrir árin 2019- 2033 og aðgerðaáætlun fyrir 2019-2023. September.

  23. Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
    Tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu er lögð fram í samræmi við ákvæði laga um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála. Með henni er sett fram opinber stefna í húsnæðismálum til fimmtán ára, ásamt fimm ára aðgerðaáætlun. Október.

  24. Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
    Tillaga til þingsályktunar um skipulagsstefnu er lögð fram á grundvelli skipulagslaga. Í henni er mótuð opinber stefna í skipulagsmálum, einkum þegar kemur að landsskipulagi. Stefnumótunin miðar við fimmtán ár og enn fremur er lögð fram aðgerðaáætlun til fimm ára. Nóvember.

 

Matvælaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (framleiðendafélög).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem heimila fyrirtækjum í meirihlutaeigu framleiðenda að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti. Október.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994 (EES-reglur).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða EES-reglur um lyfjablandað fóður og prótín af dýrauppruna í fóðri. Október.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 (aukaafurðir).
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna reglna um aukaafurðir dýra. Október.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu fyrir dýr, nr. 66/1998 (gjaldtaka).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða gjaldtöku fyrir leyfisveitingu heilbrigðisstarfsmanna. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (leyfi til prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði).
    Frumvarpið mælir fyrir breytingu á 13. gr. laga nr. 79/1997 þar sem ráðherra verði heimilt að veita aðilum skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til veiða til að prófa nýjan vinnslu- og veiðarfærabúnað í skipum. Heimild þessi er háð þeim skilyrðum að aflanum sé skilað til viðurkennds uppboðsmarkaðs á Íslandi fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til sjóðs, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum. Þá verði heimild til að taka sérstakt gjald fyrir afla, sem rennur í ríkissjóð. Slíkar tilraunir eða rannsóknir skulu að jafnaði fara fram undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslunnar eða Fiskistofu. Verði því ekki viðkomið að hafa sérstakan eftirlitsmann um borð í skipi því er heimild fær samkvæmt þessari grein skal heimildin veitt með því skilyrði að Hafrannsóknastofnun fái nákvæmar upplýsingar um niðurstöður þessara tilrauna eða rannsókna. Heimilt er að ákveða að leyfishafi skuli greiða allan kostnað sem leiðir af veru eftirlitsmanns um borð í skipi samkvæmt þessari grein. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins og gjaldskrá. Október.

  6. Frumvarp til laga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar (heildarlög).
    Frumvarpið mælir fyrir um ný heildarlög um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar með því að sameina og endurskoða lagabálka á sviði fiskveiðistjórnunar og sjávarútvegs í ein heildarlög. Frumvarpið byggir m.a. á tillögum úr verkefninu Auðlindin okkar. Í frumvarpinu verður að finna efnisreglur sem varða nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar, þ.e. sjávardýr, s.s. sjávargróður, sem nytjuð eru eða kunna að vera nytjuð innan sem utan fiskveiðilandhelgi Íslands og sérlög gilda ekki um. Frumvarpið tekur mið af þremur stoðum sjálfbærrar þróunar og helstu meginreglum umhverfisréttar um vistkerfis- og varúðarnálgun. Markmið frumvarpsins er að tryggja betri yfirsýn, samræma hugtakanotkun, skýra heimildir til setningar stjórnvaldsfyrirmæla og heimildir til viðurlaga við brotum. Janúar.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, nr. 13/1998 (eftirlit).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að styrkja samtímaeftirlit stofnunarinnar, einkum með að geta óskað eftir upplýsingum frá Skattinum um útflutningsverð afurða. Þannig getur stofnunin verið fljótari að úrskurða í málum, viðhaft áhættumiðað eftirlit og byggt ákvarðanir á samtímaupplýsingum. Verðlagsstofa mun gera tillögur um breytingar á lögunum. Janúar.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um opinberar stofnanir (framkvæmd stjórnsýslu og eftirlits).
    Frumvarpið mælir fyrir breytingum á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, lögum um Hafrannsóknastofnun, nr. 112/2015, lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992 og lögum um Matvælastofnun, nr. 30/2018. Lagðar eru til breytingar til að styrkja eftirlit framangreindra stofnana, heimild til upplýsingaöflunar og aðrar breytingar sem eru til þess fallnar að styrkja opinbert eftirlit. Þá eru lagðar til breytingar er varða framkvæmd stjórnsýslu í umræddum stofnunum og hæfniskröfur forstjóra. Janúar.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna lagareldis (stefnumótun í lagareldi).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða stefnumótun lagareldis, m.a. á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019, og lögum um varnir gegn fiskisjúkdómum, nr. 60/2006. Febrúar.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995 (opinbert eftirlit með matvælum).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi opinbers eftirlits með matvælum. Febrúar.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2012 (eftirlit). 
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða eftirlit með velferð dýra m.a. í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar. Mars.

  12. Tillaga til þingsályktunar um stefnu í lagareldi.
    Stefnu um lagareldi er ætlað að skapa skýrari sýn og áherslur fyrir greinina til framtíðar. Stefnan byggir á þeirri stefnumótun sem unnið hefur verið að síðastliðin ár. Október.

  13. Tillaga til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu.
    Stefnu um sjávarútveg er ætlað að skapa skýrari sýn og áherslur fyrir sjávarútveg til framtíðar. Stefnan byggir m.a. á niðurstöðum úr verkefninu Auðlindin okkar, matvælastefnu til ársins 2040 sem staðfest var á 153. löggjafarþingi (2022-2023) og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um nýtingu auðlinda hafsins. Með stefnunni er hugað að umgjörð sjávarútvegs í heild sinni og er stefnunni ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg, m.a. til að stuðla að hagkvæmari og sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda, þannig að nýting auðlinda hafsins fari ekki umfram þau mörk sem náttúran setur. Janúar.

 

Menningar- og viðskiptaráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (hljóð- og myndmiðlunarþjónusta).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingu á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Innleiðing. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (skilyrtir styrkir til sjónvarpsþáttagerða).
    Frumvarpið byggist að meginhluta á kvikmyndastefnu til ársins 2030 sem var kynnt 6. október 2020 á vef Stjórnarráðsins. Þar er kallað eftir breyttu fyrirkomulagi í sjóðakerfi kvikmyndagerðar til að koma til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna. Með frumvarpinu er einnig skerpt á fáum atriðum er varða Kvikmyndasafn Íslands og Kvikmyndamiðstöð Íslands. Meginefni frumvarpsins er að kveða skýrt á um heimild Kvikmyndasjóðs til að veita skilyrta styrki til sjónvarpsþáttagerða. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga (upplýsingar um hluthafa, siðareglur endurskoðenda, innleiðing, o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar í samræmi við ábendingar og athugasemdir haghafa og innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila. Innleiðing. Endurflutt. September.

  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (innleiðing).
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/828 frá 17. maí 2017 um breytingu á tilskipun 2007/36/EB að því er varðar hvatningu til þátttöku hluthafa til lengri tíma (SRD II). Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög sem varða að mestu félög þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði og lúta að deili á hluthöfum slíkra félaga, upplýsingagjöf o.fl. Innleiðing. Nóvember.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003 (innleiðing).
    Með frumvarpinu er mælt fyrir um innleiðingu á ákvæðum tilskipana og reglugerða (ESB) um samtengingakerfi skráa EES-ríkjanna. Annars vegar er um að ræða upplýsingar í fyrirtækjaskrám EES-ríkjanna (BRIS – Business Registers Interconnection System) og hins vegar upplýsingar í skrám um raunverulega eigendur í EES-ríkjunum (BORIS – Beneficial Ownership Registers Interconnection System). Innleiðing. Nóvember.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014.
    Lagt er til að sett verði gjaldskrárheimild fyrir vissa þjónustu um skjalavörslu og skjalastjórn sveitarfélaga sem er hluti af verkefnum Þjóðskjalasafns gagnvart sveitarfélögum s.s. ráðgjöf um skjalahald þeirra og eftirlit með því og miðlun gagna sveitarfélaga. Einnig er lagt til að veitt verði heimild til að taka gjald vegna kostnaðar sem fellur til vegna vinnu sérfræðinga Þjóðskjalasafns við yfirfærslu safnkosts og verkefna héraðsskjalasafns sem ákveðið hefur verið að leggja niður eða hefur fallið í vanhirðu. Nóvember.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (menningarframlag fjölmiðlaveitna).
    Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um fyrirkomulag um skyldubundið menningarframlag fjölmiðlaveitna sem miðla efni til neytenda hér á landi með því að gera kröfu um að tiltekið hlutfall af áskriftartekjum vegna slíkrar miðlunar renni til menningarverkefna sem stuðli að gerð sjónvarpsefnis á íslensku. Janúar.

  8. Frumvarp til markaðssetningarlaga.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á ákvæðum laga um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, nr. 141/2001, laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, laga um Neytendastofu, nr. 62/2005, og laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 20/2020. Markmið endurskoðunarinnar er að tryggja góða neytendavernd, tryggja bætt samræmi við EES-rétt, auka skýrleika og létta reglubyrði. Frumvarpið felur einnig í sér innleiðingu á hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB, 2005/29/EB og 2011/83/ESB að því er varðar betri framfylgd og nútímavæðingu reglna Sambandsins um neytendavernd (tilskipun um nútímavæðingu). Innleiðing. Febrúar.

  9. Frumvarp til laga um bókhald.
    Frumvarpið felur í sér tillögu um ný heildarlög um bókhald, sem byggjast á heildarendurskoðun á bókhaldslögum með áherslu á rafrænt bókhald og einföldun í þágu minni félaga. Febrúar.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 (heimagisting).
    Með frumvarpinu er stefnt að því að færa sveitarfélögum vald til að ákveða nánari útfærslu heimildar til heimagistingar innan marka 90 daga heimildarinnar. Febrúar.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (endurskoðun).
    Frumvarpið felur í sér þrepaskipta fjölgun mánaðarlegra starfslauna sem koma til úthlutunar, fjölgun sjóða sem listamannalaun eru veitt úr, breytingar á fyrirkomulagi heiðurslauna listamanna og almenna endurskoðun laganna. Febrúar.

  12. Frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar.
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um rafrænar skuldaviðurkenningar, nýtt lánaform sem ætlað er að veita sambærilegt réttarfarslegt hagræði og skuldabréf, en samræmast betur rafrænni lánaumsýslu og þinglýsingu auk þess að stuðla að skilvirkni og einföldun viðskipta. Endurflutt. Febrúar.

  13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendakaup, nr. 48/2003, o.fl. (innleiðing).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um neytendakaup, nr. 48/2003, með síðari breytingum vegna innleiðingar á tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/770 og 2019/770 um tiltekna þætti varðandi samninga um afhendingu á stafrænu efni og stafrænni þjónustu og um samninga um sölu á vörum. Þá felur frumvarpið auk þess í sér innleiðingu á hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2161 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE og tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB, 2005/29/EB og 2011/83/ESB að því er varðar betri framfylgd og nútímavæðingu reglna Sambandsins um neytendavernd. Innleiðing. Mars.

  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (innleiðing).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/2121 frá 27. nóvember 2019 um breytingu á tilskipun (ESB) 2017/1132 að því er varðar breytingar, samruna og skiptingu í kjölfar flutninga yfir landamæri. Innleiðing. Mars.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (innleiðing).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2019/1151 frá 20. júní 2019 um breytingu á tilskipun (ESB) 2017/1132 að því er varðar notkun stafrænna tækja og ferla í félagarétti. Innleiðing. Mars.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (höfundaréttur á stafræna innri markaðnum).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/790 frá 17. apríl 2019 um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum og um breytingu á tilskipunum 96/9/EB og 2001/29/EB. Innleiðing. Mars.

  17. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (reglur um höfundarétt og tilteknar netútsendingar útvarpsfyrirtækja og endurvarp hljóðvarps- og sjónvarpsefnis).
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/789 frá 17. apríl 2019 um reglur um nýtingu höfundaréttar og skyldra réttinda sem gilda um tilteknar netútsendingar útvarpsfyrirtækja og endurvarp hljóðvarps- og sjónvarpsefnis og um breytingu á tilskipun ráðsins 93/83/EBE. Innleiðing. Mars.

  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991 (endurskoðun).
    Með frumvarpinu er stefnt að heildarendurskoðun laga um samvinnufélög. Mars.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (innleiðing).
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða í íslenskan rétt tilskipun (ESB) 2022/2464 um upplýsingagjöf um sjálfbærni (CSRD). Innleiðing. Mars.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (hagræði vegna styrkja til einkarekinna fjölmiðla).
    Stefnt er að því að festa í sessi fyrirkomulag sem skapi hvata fyrir einstaklinga og lögaðila til að styrkja einkarekna fjölmiðla. Með frumvarpinu er ætlunin að kveða á um skilyrði sem fjölmiðlar þurfa að uppfylla og skilgreina hlutverk eftirlitsaðila með framkvæmdinni. Mars.

  21. Tillaga til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu (stefnumótun og aðgerðaáætlun).
    Tillagan miðar að því að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku með því að stuðla að bættu miðlalæsi og auka fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum. Þá miðar tillagan að því að búa fjölmiðlum starfsumhverfi sem stuðli að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku fjölbreyttra fjölmiðla, auka fjölmiðlalæsi almennings og vernda börn og ungmenni gegn skaðlegu efni í fjölmiðlum. Október.

  22. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026.
    Áætlunin inniheldur 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins. Október.

  23. Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls.
    Í þingsályktunartillögu um málstefnu um íslenskt táknmál er staða íslenska táknmálsins skýrð og er hún unnin í samræmi við drög að íslenskri málstefnu. Málstefna um íslenskt táknmál miðar að því að skilgreina markmið og aðgerðir fyrir dulin og sýnileg ferli sem varða bæði viðhorf og hegðun til jafns við stöðu og form íslenska táknmálsins. Október.

  24. Tillaga til þingsályktunar um uppbyggingu á söguslóðum.
    Tillögunni er ætlað að styðja við framþróun og eflingu íslenskra sögustaða sem mikilvægra áfangastaða ferðamanna sem og gildi þeirra fyrir íslenskan menningararf. Febrúar.

  25. Tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu til 2030 og aðgerðaáætlun hennar (stefnumótun og aðgerðaáætlun).
    Áætlunin byggir á Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 og verður byggð á starfi sjö vinnuhópa á sviði ferðamála. Febrúar.

 

Mennta- og barnamálaráðherra

  1. Frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu.
    Frumvarpið felur í sér heildarlög um nýja þjónustu- og þekkingarmiðstöð á sviði fræðslu- og menntamála á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu, snemmtækur stuðningur o.fl.).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis í því skyni að samræma löggjöf við ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, styrkja umgjörð um þjónustu og snemmtækan stuðning í þágu barna og réttindi barna. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (endurgreiðslur).
    Frumvarpið felur í sér aðlögun reglna um endurgreiðslur ríkissjóðs til barnaverndarþjónusta sveitarfélaga vegna fylgdarlausra barna og barna sem eru hér á landi án dvalarleyfis. Markmið breytinganna er að skýra gildandi reglur og samræma þær breytingum sem hafa orðið á barnaverndarþjónustu við fylgdarlaus börn. Október.

  4. Frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna og ungmenna.
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um gagnaöflun um börn og ungmenni á málefnasviði mennta- og barnamálaráðherra. Markmið frumvarpsins er að tryggja yfirsýn yfir stöðu og líðan barna og ungmenna. Þar verður meðal annars fjallað um aðferðir við gagnaöflun, greiningar og miðlun gagna. Október.

  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, o.fl. (reglugerðarheimildir).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á reglugerðarheimildum í IV. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og barnaverndarlögum, nr. 80/2002. Markmið breytinganna er að skýra ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra þegar kemur að reglugerðum sem varða gæði þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Október.

  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008 (vinnustaðanám, innritun o.fl.). 
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem tengjast stefnumótun á sviði framhaldsskóla. Um er að ræða aðlögun laganna vegna innleiðingar breytinga á reglum um vinnustaðanám og breytingar sem tengjast meðal annars innritun í framhaldsskóla, forvörnum og viðbrögðum vegna eineltis, kynferðislegs ofbeldis, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis og samningum við einkaskóla. Nóvember.

  7. Frumvarp til laga um skólaþjónustu.
    Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um skólaþjónustu í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Undirbúningur frumvarpsins hefur farið fram í víðtæku samráði frá árinu 2022. Þar verður meðal annars fjallað um innihald skólaþjónustu og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Nóvember.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 (nemendur með alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða).
    Frumvarpið felur í sér að nemendur með alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða njóti sama réttar til námsstyrkja og íslenskir ríkisborgarar. Janúar.

  9. Frumvarp til laga um skák. 
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um skák. Í frumvarpinu munu felast nýjar reglur um stuðning hins opinbera við skák og afreksfólk í skák sem koma í stað gildandi reglna. Samhliða verði lög um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990, og lög um Skákskóla Íslands, nr. 76/1990, felld úr gildi. Febrúar.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um námsgögn, nr. 71/2007, o.fl. (námsgögn).
    Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um námsgögn og lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla. Markmiðið er að breyta núverandi fyrirkomulagi námsgagnaútgáfu, m.a. til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni fyrir öll skólastig. Febrúar. 

  11. Frumvarp til laga um barnavernd.
    Frumvarpið felur í sér síðari hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga en fyrri hluti heildarendurskoðunarinnar tók gildi 1. janúar 2022. Gert er að ráð fyrir að frumvarpið hafi að geyma endurskoðuð ákvæði um meðferð barnaverndarmála, úrræði í barnavernd og aðra aðlögun lagareglna að þróun í barnaverndarþjónustu. Mars.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, o.fl. (börn með fjölþættan vanda).
    Frumvarpið felur í sér breytingar á reglum laganna þar sem fjallað er um börn með fjölþættan vanda. Frumvarpið mun taka mið af vinnu stýrihóps um málefni barna með fjölþættan vanda og verður unnið í tengslum við frumvarp til nýrra laga um barnavernd. Mars.

  13. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2023-2026.  Framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar er lögð fram skv. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í áætluninni verða settar fram tillögur um áherslur stjórnvalda í málaflokknum og lagðar til helstu aðgerðir og framkvæmdir á málefnasviðinu næstu ár. September.

  14. Skýrsla mennta- og barnamálaráðherra um framkvæmd skólahalds í grunnskólum.
    Í 4. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, kemur fram að mennta- og barnamálaráðherra skuli á þriggja ára fresti gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólahalds í grunnskólum. Skýrslan tekur til framkvæmdar skólahalds árin 2017-2021. September.

 

Umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (geymsla koldíoxíðs).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á VI. kafla A laganna sem fjallar um geymslu koldíoxíðs í jörðu sem eru nauðsynlegar til að samræma orðalag laganna við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2009/31/EB frá 23. apríl 2009 um geymslu koltvísýrings í jörðu og um breytingu á tilskipun ráðsins 85/337/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB, 2001/80/EB, 2004/35/EB, 2006/12/EB, 2008/1/EB og reglugerð (EB) nr. 1013/2006 og til að tryggja fullnægjandi innleiðingu tilskipunarinnar. Innleiðing. Endurflutt. September.

  2. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi o.fl.). 
    Með frumvarpinu er lagður grunnur að útfærslu tillagna starfshópa sem fjallað hafa um raforkuöryggi þar sem lagt er til að mælt verði fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga um stöðu á raforkumarkaði og um forgang almennra notenda og smærri fyrirtækja komi til skömmtunar raforku. Endurflutt. September.

  3. Frumvarp til laga um breytingu lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003, og raforkulögum, nr. 65/2003 (Raforkueftirlitið).
    Með frumvarpinu er lagt til að útfæra nánar ákvæði raforkulaga og laga um Orkustofnun í ljósi athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA og krafna tilskipunar 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu tilskipunar 2003/54/EB gagnvart sjálfstæðu raforkueftirliti. Endurflutt. September.

  4. Frumvarp til laga um brottfall laga um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, nr. 81/1997.
    Í tengslum við endurskoðun á stofnanaskipulagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, sem hófst í júní 2022, hefur ráðuneytið unnið að greiningu á sérstöðu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar (SVS). Horft var til ábendinga í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni stofnana ríkisins, sem fram koma í skýrslu til Alþingis frá desember 2021. Þar kemur fram að Ríkisendurskoðun telur ástæðu fyrir stjórnvöld að endurskoða rekstrarform SVS og bendir á að með hliðsjón af hlutverki stofnunarinnar væri eðlilegra að hún heyrði beint undir Háskólann á Akureyri (HA). Samstaða er um samruna SVS og HA og er því í frumvarpi þessu lagt til brottfall á lögum nr. 81/1997, um stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Október.

  5. Frumvarp til laga um Loftslagsstofnun.
    Frumvarpið er tilkomið í kjölfar greiningar á tækifærum til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en stofnanir þess eru margar og fámennar. Frumvarpið er í samræmi við stefnu stjórnvalda um einföldun stofnanakerfisins og er megináhersla lögð á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur í nýrri stofnun. Markmiðið er að samnýta þekkingu, innviði og gögn og skapa faglega spennandi og áhugaverðan vinnustað. Auk þess að tryggja meiri sveigjanleika til að takast á við verkefnin, auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar og rekstrarhagkvæmni og bæta umgjörð mannauðsmála. Einnig að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum víða um land, að styðja við starfseiningar sem tryggja umbætur og nýsköpun, auka stafræna umbreytingu, skilvirkari og aðgengilegri þjónustu og samfélagslegan ávinning. Í frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun og sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að loftslags- og umhverfismálum sameinist í einni stofnun. Gert er ráð fyrir að sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að náttúruvernd muni verða hluti af nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun. Auk nýrra laga er lagt til að breytingar verði gerðar á þeim lögum þar sem viðkomandi stofnanir eru tilgreindar. Október.

  6. Frumvarp til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun.
    Frumvarpið er tilkomið í kjölfar greiningar á tækifærum til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en stofnanir þess eru margar og fámennar. Frumvarpið er í samræmi við stefnu stjórnvalda um einföldun stofnanakerfisins og er megináhersla lögð á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur í nýrri stofnun. Markmiðið er að samnýta þekkingu, innviði og gögn og skapa faglega spennandi og áhugaverðan vinnustað. Auk þess að tryggja meiri sveigjanleika til að takast á við verkefnin, auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar og rekstrarhagkvæmni og bæta umgjörð mannauðsmála. Einnig að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum víða um land, að styðja við starfseiningar sem tryggja umbætur og nýsköpun, auka stafræna umbreytingu, skilvirkari og aðgengilegri þjónustu og samfélagslegan ávinning. Í frumvarpinu er lögð til sameining Vatnajökulsþjóðgarðs, Þingvallaþjóðgarðs, Minjastofnunar Íslands og náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Auk nýrra laga er lagt til að breytingar verði gerðar á þeim lögum þar sem viðkomandi stofnanir eru tilgreindar. Október.

  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
    Frumvarpið er tilkomið í kjölfar greiningar á tækifærum til endurskipulagningar á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, en stofnanir þess eru margar og fámennar. Frumvarpið er í samræmi við stefnu stjórnvalda um einföldun stofnanakerfisins og er megináhersla lögð á að skapa vettvang fyrir kraftmeira fagstarf og árangur í nýrri stofnun. Markmiðið er að samnýta þekkingu, innviði og gögn og skapa faglega spennandi og áhugaverðan vinnustað. Auk þess að tryggja meiri sveigjanleika til að takast á við verkefnin, auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar og rekstrarhagkvæmni og bæta umgjörð mannauðsmála. Einnig að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu með sveigjanlegum starfsstöðvum víða um land, að styðja við starfseiningar sem tryggja umbætur og nýsköpun, auka stafræna umbreytingu, skilvirkari og aðgengilegri þjónustu og samfélagslegan ávinning. Í sameiningarvinnunni hefur m.a. verið lagt upp með að til verði ný Náttúruvísindastofnun með sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veðurstofu Íslands, Íslenskra orkurannsókna (Ísor), Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Frekari greiningar þurfti við á stöðu Ísor sökum sérstöðu þeirrar stofnunar, en hún er B-hluta stofnun og starfar á samkeppnisgrundvelli. Í greiningarvinnunni komu í ljós atriði sem fela í sér tilteknar áskoranir og þurfa frekari greiningar við. Í ljósi þessa var ákveðið að fyrsta skrefið yrði að leggja til sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn þar sem mikil samlegð er með verkefnum þessara stofnana og ríkur vilji til sameiningar. Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á þeim lögum sem viðkoma umræddum stofnunum. Október.

  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002 (hringrásarhagkerfi, umbúðir, ökutæki o.fl.).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald til að ná þeim markmiðum sem að var stefnt með lögum nr. 103/2021 um að skapa sem fyrst skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi. Stefnt er að því að skýra álagningu úrvinnslugjalds á ökutæki, uppfæra viðauka við lögin um umbúðir og bregðast við vanda innflytjenda með heimild til ákvörðunar úrvinnslugjalds á umbúðir þegar upplýsingar um meginsöluumbúð liggja ekki fyrir. Október.

  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (niðurlagning Loftslagssjóðs).
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á fyrirkomulagi styrkveitinga ráðuneytisins. Ráðuneytið rekur tvo sjóði, Orkusjóð og Loftslagssjóð, sem styrkja verkefni sem tengjast orkuskiptum og nýsköpun á sviði loftslagsmála. Þá hefur ráðuneytið veitt styrki til verkefna á málefnasviði ráðuneytisins og þá sérstaklega styrki til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu. Með frumvarpinu er ætlunin að framangreindar styrkveitingar verði sameinaðar. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um Loftslagssjóð verði felld á brott úr lögum um loftslagsmál. Október.

  10. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (viðskiptakerfi fyrir raforku o.fl.).
    Með frumvarpinu verða gerðar tillögur að breytingum á raforkulögum í tengslum við rekstur skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku. Í raforkulögum er gert ráð fyrir rekstri skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku og að leyfi ráðherra þurfi til þess. Með frumvarpinu verða gerðar tillögur um reglur sem gilda skulu í viðskiptakerfi, svo sem um bann við markaðsmisnotkun sem og eftirlit með rekstri skipulegs viðskiptakerfis fyrir raforku. Nóvember.

  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (EES-innleiðing, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir). 
    Með frumvarpinu verður innleiddur hluti gerða úr „Fit for 55“, loftslags- og orkulöggjafarpakka ESB. Gerðirnar sem um ræðir eru breytingar á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Annars vegar tilskipun ESB 2023/958 (flugstarfsemi) og hins vegar tilskipun 2023/959 (staðbundinn iðnaður, sjóflutningar og byggingar, vegasamgöngur og smærri iðnaður).  Innleiðing. Nóvember.

  12. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna leyfisveitinga Orkustofnunar (þjónustugjöld).
    Helstu lagabálkar auðlindanýtingar sem Orkustofnun starfar eftir eru lög nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins (hafsbotnslög), lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu (auðlindalög), raforkulög nr. 65/2003 og vatnalög nr. 15/1923. Í ákvæðum laganna er lítið fjallað um málsmeðferð eða ferli leyfisveitinga. Þá eru ákvæði um gjaldtöku ýmist ófullnægjandi eða þeim ekki fyrir að fara. Brýnt er að tryggð verði heimild stofnunarinnar til töku þjónustugjalda vegna vinnu við leyfisumsóknir vegna auðlindanýtingar, útgáfu leyfa og eftirlits með þeim. Nóvember.

  13. Frumvarp til laga um vindorku.
    Í frumvarpinu er að finna sérstök ákvæði sem snúa að hagnýtingu vindorku til raforkuframleiðslu í samræmi við skýrslu starfshóps um málið. Í lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, er kveðið á um að allir virkjunarkostir, 10 MW og stærri, skuli fá umfjöllun í rammaáætlun þar sem þeim er raðað í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Nóvember.

  14. Frumvarp til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum dýrum, fuglum og spendýrum.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun gildandi laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi. Endurflutt með breytingum. Nóvember.

  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004 (EES-innleiðing, móttaka úrgangs í höfnum).
    Með frumvarpinu er lagt til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttöku úrgangs frá skipum, sem breytir tilskipun (ESB) 2010/65 og fellir úr gildi tilskipun (ESB) 2000/59. Tilskipunin kemur í stað eldri tilskipunar um sama efni sem hefur verið innleidd hér á landi. Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna innleiðingar á tilskipuninni. Innleiðing. Nóvember.

  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004 (varp í hafið).
    Í lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda er meginreglan sú að varp efna og hluta í hafið sé óheimilt. Umhverfisstofnun er þó heimilt að veita leyfi fyrir því að tilteknum efnum og hlutum sé varpað í hafið. Skilgreining á varpi í hafið hefur í framkvæmd valdið ákveðnum vandkvæðum og verður í frumvarpinu leitast við skýra það frekar og/eða að bæta við heimildum Umhverfisstofnunar til leyfisveitinga. Markmiðið með frumvarpinu er að auka skýrleika og koma í veg fyrir óþarfa reglubyrði, t.d. þegar litið er til mikilvægra rannsóknar- og þróunarverkefna í kolefnisbindingu á hafi. Janúar.

  17. Frumvarp til laga um eldsneytisbirgðir.
    Með frumvarpinu er lagt til að mælt sé fyrir um lágmarksbirgðahald jarðefnaeldsneytis í samræmi við orkustefnu Íslands, skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 og aðgerðir sem átakshópur um úrbætur á innviðum skilgreindi í kjölfar óveðursins 2019. Febrúar.

  18. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (landtaka skipa utan hafna).
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök ákvæði í lögin til að bregðast við áskorunum sem fylgja landtöku skemmtiferðaskipa á viðkvæmum svæðum utan hafna landsins. Febrúar.

  19. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (raforkuöryggi).
    Með frumvarpinu verða tillögur starfshópa sem fjallað hafa um orkuöryggi útfærðar með frekari hætti. Gerðar verða tillögur um skyldur aðila á raforkumarkaði sem og almenn og sértæk úrræði í þágu raforkuöryggis almennings. Febrúar.

  20. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna sameininga stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis (samræming málsmeðferðarreglna, valdheimilda og annarra reglna).
    Frumvarpið er til samræmis við frumvörp sem fyrirhugað er að leggja fram á þinginu vegna stofnanasameininga ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að þörfin á lagabreytingum verði einna helst í tengslum við nýja Náttúruverndar- og minjastofnun. Mismunandi reglur gilda að sumu leyti í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum auk þess sem samræma þarf málsmeðferðarreglur og valdheimildir stofnana samkvæmt þessum lögum. Einnig er þörf á að skoða málsmeðferðarreglur og valdheimildir Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar í tilefni af frumvarpi um nýja Loftslagsstofnun. Febrúar.

  21. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (verkefni Raforkueftirlitsins).
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í tengslum við verkefni Raforkueftirlitsins. Um er að ræða ábendingar ESA vegna sérstakra verkefna Raforkueftirlitsins eins og mælt er fyrir um í tilskipun 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku. Innleiðing. Febrúar.

  22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997 (markmiðsákvæði, endurskoðun hættumats, sektir o.fl.). 
    Í frumvarpinu er aukið á skýrleika laganna, bætt við ákvæði um markmið með lögunum, lagðar til breytingar á ákvæðum um endurskoðun hættumats, eftirlit, um nýtingu húseigna og innheimtu gjalda og lögð til sektarákvæði. Frumvarpið var lagt fram á 151. löggjafarþingi. Endurflutt með breytingum. Mars.

  23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (EES-innleiðing, áfastir tappar og lok á einnota plastflöskur).
    Innleiðing á ákvæði 1. mgr. 6. gr. tilskipunar ESB 2019/904 sem kveður á um að einungis megi setja einnota drykkjarílát úr plasti (allt að þriggja lítra) á markað ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu á meðan fyrirhuguð notkun þess stendur yfir. Innleiðing. Mars.

  24. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012 (styrking stjórnsýslu loftslagsmála o.fl.). 
    Í frumvarpinu verður lagt til endurskoðað hlutverk Loftslagsráðs í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og aukin áhersla lögð á ráðgefandi hlutverk og vísindastarf auk aðhalds- og eftirlitshlutverks gagnvart stjórnvöldum. Í frumvarpinu verða enn fremur lagðar fram tillögur að skipulagi og efnistökum landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Frumvarpið mun jafnframt fela í sér endurskoðun á hlutverki Umhverfisstofnunar hvað snertir loftslagsstefnu ríkis og sveitarfélaga. Mars.

  25. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (endurskoðun eftirlitskerfis).
    Markmið frumvarpsins er að fylgja eftir tillögum starfshóps sem stofnaður var haustið 2022. Hlutverk starfshópsins er að koma með tillögur að nýju eftirlitskerfi á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og matvælalaga eða eftir atvikum breytingum á núverandi kerfi. Mars.

  26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn vatnamála (málsmeðferðarreglur).
    Með frumvarpinu verður lagt til að skýra málsmeðferðarreglur laga um stjórn vatnamála sem varða heimild til breytinga á vatnshloti. Höfð er hliðsjón af reynslu af framkvæmd laganna með það að markmiði að auka skilvirkni stjórnsýslu. Mars.

  27. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
    Í 39. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, með síðari breytingum, segir að ráðherra skuli á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með þessum hætti getur Alþingi lagt fram ákveðnar meginreglur og viðmið sem taka ber mið af við gerð kerfisáætlunar á hverjum tíma, enda er í raforkulögum kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli taka tillit til hennar. Kerfisáætlunin er annars vegar langtímaáætlun til tíu ára og hins vegar framkvæmdaáætlun til þriggja ára. Í tillögu að uppfærðri þingsályktun verður tekið mið af stöðu verkefna sem tilgreind eru í núgildandi þingsályktun sem og orkustefnu. Janúar.

  28. Tillaga til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun (4. áfangi).
    Tillaga lögð fram í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Mars.

  29. Skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um raforku.
    Skýrsla sem ráðherra skal leggja fyrir Alþingi á tveggja ára fresti skv. 39. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Mars.

 

Utanríkisráðherra

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum (bókun 35).
    Með frumvarpinu er ætlunin að gera nauðsynlegar breytingar til þess að breyta innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn og tryggja fulla virkni hans hér á landi í þágu einstaklinga og lögaðila. Endurflutt. Október.

  2. Tillaga til þingsályktunar um þróunarsamvinnustefnu.
    Samkvæmt 5. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, með síðari breytingum, skal utanríkisráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fimmta hvert ár. Þingsályktunartillagan felur í sér stefnu stjórnvalda í málaflokknum tímabilið 2024-2028 sem taka mun við af núgildandi stefnu sem rennur út í lok árs 2023. Október.

  3. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið), ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2022 frá 10. júní 2022 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2023 frá 3. febrúar 2023 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn og ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2023 frá 17. mars 2023 um breytingu á V. viðauka (Frjáls för launþega) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.
    1) Ákvörðun nr. 190/2022: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. 2) Ákvörðun nr. 191/2022: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/883 frá 17. apríl 2019 um móttökuaðstöðu í höfnum til afhendingar úrgangs frá skipum, um breytingu á tilskipun 2010/65/ESB og um niðurfellingu tilskipunar 2000/59/EB. 3) Ákvörðun nr. 17/2023: Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/369 frá 1. mars 2021 um að koma á nauðsynlegum tækniforskriftum og verklagsreglum fyrir samtengingarkerfi miðlægra skráa sem um getur í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849. 4) Ákvörðun nr. 50/2023: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1157 frá 20. júní 2019 um að efla öryggi kennivottorða borgara Sambandsins og dvalarskjala sem gefin eru út til handa borgurum Sambandsins og aðstandendum þeirra sem nýta sér réttinn til frjálsrar farar. Október.

  4. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu.
    Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Moldóvu. Október.

  5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ekki hefur enn verið tekin. Nóvember.

  6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 185/2023: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 frá 30. maí 2022 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskráartækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB. Febrúar.

  7. Skýrsla utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins.
    Árleg skýrsla til Alþingis, skv. 9. gr. reglna Alþingis um þinglega meðferð EES-mála. Október.

  8. Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.
    Árleg skýrsla til Alþingis. Mars. 
Síðast uppfært: 14.9.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum