Hoppa yfir valmynd

Ísland og NATO

Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur þeirrar samvinnu vestrænna ríkja sem Ísland tekur þátt í til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.  Atlantshafsbandalaginu var komið á fót með Atlantshafssáttmálanum sem undirritaður var í Washington 4. apríl 1949 og var Ísland eitt tólf stofnríkja þess.  Auk aðildar að bandalaginu, er varnarsamningur Íslands við Bandaríkin frá 1951 ein meginstoð Íslands í öryggis- og varnarmálum, eins og fram kemur í 3. og 4. grein þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var 2016.

Á þessum tíma hefur starfsemi NATO og þátttaka Íslands í því gerbreyst. Við lok kalda stríðsins dró úr áherslu á ógnir og varnarviðbúnað í Evrópu, en sjónir beindust að friðargæsluverkefnum og aðgerðum, m.a. á Balkanskaga, auk þess sem barátta gegn hryðjuverkaógn og stuðningur við þjálfun, umbætur, uppbyggingu og skipulag öryggis- og varnarmála þjóða sem glímt hafa við átök, hefur verið í forgrunni. Evrópuríki sem öðlast hafa sjálfstæði á ný hafa á síðustu áratugum gengið til liðs við bandalagið, sem nú telur alls 30 ríki.  Auk formlegrar aðildar að bandalaginu, eiga fjölmörg ríki í nánu samstarfi við Atlantshafsbandalagið, m.a. með þátttöku í æfingum, verkefnum í friðargæslu, þjálfun og aðgerðum, pólitísku samráði og samstarfi.  Einnig á Atlantshafsbandalagið í virku samráði og samstarfi við stofnanir og samtök á alþjóðavísu, m.a. Evrópusambandið, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þess, og sérstakt samráð við ríkjahópa í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Fastanefndin sinnir fyrirsvari og hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel, svo og í herstjórnarmiðstöð þess í Mons í Belgíu, SHAPE.  Enn fremur sendir íslenska utanríkisráðuneytið sérfræðinga til starfa í verkefnum bandalagsins, aðgerðum, friðargæslu, þjálfun og stuðningsverkefnum, innan ramma friðargæsluverkefna íslenskra stjórnvalda.  Almennt eru um 10 stöður mannaðar íslenskum sérfræðingum til lengri eða skemmri tíma og eru sérfræðingar starfandi m.a. í Litháen og Eistlandi, auk starfa innan herstjórnarsviða í Mons, Northwood og í alþjóðastarfsliði í höfuðstöðvum í Belgíu. Tímabundin verkefni, m.a. þjálfunarverkefni í sprengjueyðingu fyrir íraska sérfræðinga, hafa verið nokkur undanfarin ár.

Atlantshafsbandalagið er bandalag 30 ríkja í Evrópu og N-Ameríku. Það er öryggis- og varnarbandalag og starfar í samræmi við stofnsáttmála sinn, Atlantshafssáttmálann (sem einnig er kallaður Washington sáttmálinn) sem var undirritaður 4. apríl 1949 í Washington af stofnríkjum bandalagins, en Ísland er eitt þeirra. Höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins eru í Brussel og tvær yfirherstjórnir bandalagsins eru staðsettar í Mons í Belgíu og Norfolk í Bandaríkjunum.  Yfirherstjórnin í Mons, ACO eða SHAPE, hefur sem meginverkefni aðgerðir og æfingar bandalagsins, en yfirherstjórnin í Norfolk, ACT, einblínir á umbreytingar, framtíðarógnir- og viðbúnað, þjálfun o.fl. Svæðisherstjórnir eru í Brunssum í Hollandi, Lissabon í Portugal og Napóli á Ítalíu, auk þess sem verið er að setja á fót tvær slíkar til viðbótar í Norfolk í Bandaríkjunum, og í Ulm í Þýskalandi með sérstök áherslumál.

Framkvæmdastjóri bandalagsins er Jens Stoltenberg.

Hlutverk bandalagsins er að tryggja frelsi og öryggi bandalagsríkjanna, með pólitísku samráði og hernaðargetu, í samræmi við ákvæði sáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Bandalagið byggir á gildum lýðræðis, mannréttinda og lögmætis. Sameiginleg skuldbinding ríkjanna um að árás á eitt bandalagsríkjanna jafngildi árás á þau öll, hefur verið hornsteinn bandalagsins frá stofnun og er tilgreind í 5. grein Washingtonsáttmálans.

Breytt öryggisumhverfi í gegnum tíðina, fjölgun bandalagsríkjanna og nýjar ógnir hafa breytt áherslum bandalagsins, sem þarf á hverjum tíma að aðlaga sig og bregðast við þeim ógnum sem helst steðja að, og horfa til framtíðar varðandi hættur, ástand í alþjóðamálum, síbreytilegar aðferðir og markmið. Síðustu áratugum starfstíma bandalagsins má e.t.v. skipta í þrennt, fyrst kaldastríðstímann fram að hruni Sovétríkjanna, þá aðgerða og þátttöku í friðargæsluverkefnum utan svæðis bandalagsins, m.a. á Balkanskaga og í Afganistan, en frá 2014 hefur bandalagið á ný horft meira inn á við og á sameiginlegar varnir, gagnvart bæði ógnum af hálfu annarra ríkja og viðbrögð og lausnir vegna hryðjuverkaógnar og annarra óhefðbundinna ógna sem ná yfir landamæri, svo sem netógnir og fjölþættar ógnir.

Æðsta ákvörðunarvald bandalagins liggur hjá Norður Atlantshafsráðinu (North Atlantic Council, NAC) þar sem sendiherrar bandalagsríkjanna funda í viku hverri. Haldnir eru tveir utanríkisráðherrafundir á ári og varnarmálaráðherrafundir almennt um þrisvar á ári. Leiðtogafundir eru haldnir reglulega, almennt á 1-3 ára fresti, síðast í Brussel 2018. Leiðtogayfirlýsingar fundanna (Communiqué) eru mikilvæg stefnumörkun bandalagsins til næstu ára. Alþjóðastarfslið bandalagsins og fulltrúar ríkja innan fastanefnda undirbúa mál í fjölmörgum nefndum og ráðum innan bandalagsins, fyrir ákvarðanatöku fastaráðsins. Þar má nefna helstar samráðsnefnd varafastafulltrúa, nefnd um pólitísk málefni og samstarfsríki, aðgerðanefnd, fjárfestinga- og innviðanefnd, fjármála- og fjárlaganefnd.

Hermálanefnd (Military Committee) fjallar um hernaðarleg málefni, liðsafla og skipulag aðgerða sem bandalagið tekur ákvarðanir um. Hermálanefnd veitir ráðgjöf um málefni á þessu sviði til fastaráðsins og funda yfirmenn herafla í bandalagsríkjunum einnig reglulega á þessum vettvangi.

Evró-Atlantshafsráðið (Euro-Atlantic partnership Council, EAPC) er umgjörð Atlantshafsbandalagsins fyrir samvinnu við öll samstarfsríkin.

NATO - Rússlandsráðið (NATO-Russia Council, NRC) er vettvangur fyrir skoðanaskipti bandalagsríkja og Rússlands á jafnréttisgrundvelli og stýrir framkvæmdastjóri NATO fundum þess. Undir merkjum ráðsins hefur verið unnið að verkefnum og skipst á skoðunum á sviði öryggis- og varnarmála, m.a. í undirnefndum og –ráðum. Frá 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskaga Úkraínu með ólögmætum hætti og eftir ólöglega innrás þeirra í febrúar 2022, hafa öll samráðs- og samstarfsform verið fryst.

NATO-Georgíunefndin (NATO-Georgia Commission, NGC).Bandalagið á í þéttu samstarfi við Georgíu um þjálfun, uppbyggingu í varnar- og öryggismálum og umbótastarf. 

NATO–Úkraínunefndin (NATO Ukraine Commission, NUC). Bandalagið á fjölþætt samstarf við Úkraínu, einkum um endurskipulagningu á sviði varnar- og öryggismála. Samstarfið hefur verið þétt enn frekar frá 2014 í kjölfar ólögmætrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og íhlutunar Rússa í austurhéruðum Úkraínu (Donbas).

Fjölmörg samstarfsform eru til staðar við ríkjahópa, m.a. Miðjarðarhafs-samráðið (Mediterranean Dialogue), við Egyptaland, Ísrael, Máritaníu, Marokkó, Túnis, Alsír og Jórdaníu.  Samráð við Flóaríki fer fram undir merkjum Istanbul Cooperation Initiative en í því koma Kúveit, Bahrein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Qatar. Þá hafa Saudi-Arabía og Óman átt kost á þátttöku í samstarfinu.

Þingmannasamtök NATO (NATO Parliamentary Assembly) er vettvangur fyrir þingmenn úr röðum bandalagsríkjanna til að ræða sameiginleg hagsmunamál og áherslur. Þingmannasamtökin eru óháð bandalaginu en þau mynda þýðingarmikil tengsl á milli bandalagsins og þjóðþinga ríkja þess. Íslandsdeild þingmannanefndarinnar skipa þrír þingmenn hverju sinni.

Laus störf hjá Atlantshafsbandalaginu eru auglýst á vef bandalagsins og eru umsóknir sendar rafrænt

Tvisvar árlega (apríl og október) eru auglýstar starfsnemastöður (internship) í alþjóðastarfsliði NATO.  Stöðurnar eru mjög eftirsóttar og samkeppni mikil.  Starfsnámið er til sex mánaða, er lítillega launað, og hefur reynst gríðarlega góð og mikil reynsla fyrir þá sem slíkar stöður fá. 

Helstu umsóknarskilyrði:

  • Hafa a.m.k. 2 ára háskólamenntun (grunngráða, jafnvel meistaranám er kostur í samkeppninni)
  • Vera yngri en 30 ára.
  • Geta talað og unnið á öðru tveggja tungumála bandalagsins, ensku eða frönsku. (Ekki er raunsætt að geta komist í starfsnám ef viðkomandi talar ekki og skrifar nokkuð góða ensku, franska er kostur).
  • Umsækjendur verða að vera ríkisborgarar bandalagsríkis NATO

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum