Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. janúar 2018 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Ræddi öryggisáskoranir á norðurslóðum hjá Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnuninni

Guðlaugur Þór ræðir við Dr. Hans Blix, heiðursfélaga í SIPRI. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gerði öryggisáskoranir á norðurslóðum að umtalsefni í ávarpi sem hann flutti í Alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnuninni í Stokkhólmi (SIPRI) í dag. Ráðherra gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hefðu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi á undanförnum árum með vaxandi umferð rússneskra herflugvéla og kafbáta, sem og viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins.

Ráðherra sagði skilning á lögmætum öryggishagsmunum Rússlands á norðurslóðum og nauðsyn trúverðugra varna. Hins vegar vekti umfang, hraði og yfirlýstur metnaður rússneskra stjórnvalda til hernaðaruppbyggingar í þessum heimshluta eðlilegar spurningar. Þetta hefði orsakað stíganda í umsvifum kafbátaleitarflugvéla bandalagsríkja á Íslandi. Þá hefði stuðningur Rússlands við uppreisnarmenn í Úkraínu og innlimun Krímskagans markað tímamót í alþjóðamálum.

„Ekkert Vesturlanda vill afturhvarf til kalda stríðsins með öllum þeim hættum og kostnaði sem því fylgdi. En að láta eins og ekkert hefði í skorist árið 2014 væri tækifærissinnuð og skammsýn afstaða," sagði Guðlaugur Þór. Þrátt fyrir viðskiptaþvinganir Rússlands gegn Íslandi hefðu íslensk stjórnvöld haldið áfram samskiptum við rússnesk stjórnvöld á hæstu stigum og talað á alþjóðavettvangi fyrir staðfestu og varðstöðu með alþjóðalögum, en jafnframt samtali og samstarfi við Rússland. „Ísland vill að Rússland hafi réttmætan sess í hinni evrópsku fjölskyldu en á grundvelli sameiginlegra evrópskra gilda," sagði ráðherra ennfremur.

Utanríkisráðherra vísaði til aukinnar athygli Atlantshafsbandalagsins á þróun öryggismála á norðurslóðum og nauðsynjar þess að Norður-Atlantshafið yrði aftur skilgreindur hluti í herstjórnarkerfi bandalagsins. Þá væri annað skylt svæðisbundið samstarf mjög mikilvægt, einkum á meðal Norðurlanda, og Ísland teldi Svíþjóð og Finnland fremstu samstarfsríki bandalagsins. Ráðherra fór yfir hvað Ísland legði að mörkum til öryggis- og varnarmála, meðal annars í stuðningi við liðsafla bandalagsríkja á Íslandi og borgaralegu framlagi af öðrum toga. Um leið lagði hann áherslu á að íslensk stjórnvöld hefðu um árabil lagt áherslu á að forðast bæri hervæðingu norðurslóða og engin áform væru um fasta viðveru erlends herliðs á landinu. Öryggismálastefna ríkisstjórnar Íslands byggðist á þjóðaröryggisstefnu sem nyti víðtæks stuðnings á Alþingi.

„Þótt óveðursský séu við sjónadeildarhring alþjóðamála eru margar ástæður til bjartsýni varðandi almennar horfur á norðurslóðum. Þar er traustvekjandi að verða vitni að hratt vaxandi pólitískum samskiptum og hagnýtri samvinnu. Norðurskautssvæðið er stærsta ósnerta víðáttan á hnettinum og þar eru afleiðingar loftslagsbreytinga sýnilegastar. Þetta viðkvæma svæði eru heimaslóðir 4 milljóna íbúa sem eiga rétt á sama öryggi og velmegun og aðrir, og virða þarf hagsmuni þeirra," sagði Guðlaugur Þór. Norðurskautsráðið gegndi lykilhlutverki í þessu samhengi og þegar Ísland tæki þar við formennsku árið 2019 yrði lögð áhersla á að viðhalda stöðu þess sem helsta vettvangs til alþjóðlegrar umfjöllunar um málefni norðurslóða. Um leið og gætt yrði réttinda aðildarríkjanna styddi Ísland aukna þátttöku áheyrnaraðila og annarra samstarfsaðila, ekki síst frumbyggja.

„Öll aðildarríki Norðurskautsráðsins eiga mikla hagsmuni í velgengni og árangri þess. Þess vegna hefur tekist að einangra þennan vettvang frá ágreiningi á öðrum sviðum. Ísland styður svæðisbundið samstarf í Norður-Evrópu og við viljum að norðurslóðir verði áfram svæði stöðugleika og samvinnu. Hánorður en lágspenna,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp Guðlaugs Þórs.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira