Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2018

Ísland mælir fyrir ÖSE-könnun á mannréttindabrotum á hinsegin-fólki í Tsjetsjeníu.

Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands í Vín

 

Fastafulltrúi Íslands í fastaráði Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu mælti í dag fyrir könnun á grófum mannréttindabrotum gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu. Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands, flutti á fundi ráðsins yfirlýsingu af hálfu sextán aðildarríkja ÖSE til að fá svör frá rússneskum stjórnvöldum við þessum ásökunum. Ennfremur afhenti hann rússneska fastafulltrúanum bréf þess efnis.

Aðilar, sem láta sig mannréttindi varða, telja sannanir fyrir því, að hinsegin fólk í Tsjetsjeníu verði fyrir stöðugum ofsóknum af hálfu stjórnvalda og hafi verið tekið af lífi án dóms og laga. Á síðustu misserum hafa þessar ásakanir oft verið teknar upp í fastaráði ÖSE, meðal annars með yfirlýsingum sem Ísland hefur verið meðflytjandi að, þar sem skorað er á stjórnvöld í Rússlandi að stöðva ofbeldið, vernda fórnarlömb og rannsaka ásakanir um ofsóknirnar. Hingað til hafa Rússar veitt ófullnægjandi svör í fastaráðinu og þykir stjórnvöldum í ríkjunum sextán að við svo búið megi ekki lengur sitja. 

Í bréfinu segir meðal annars að skrifleg ósk aðildarríkjanna frá því í sumar um svör við spurningum um mannréttindabrot gagnvart  hinsegin fólki í Tsjetsjeníu hafi ekki borið árangur. Því hafi þau ákveðið að setja af stað svokallað Moskvuferli (Moscow Mechanism), samkvæmt samþykkt ÖSE frá 1991. Það gerir ráð fyrir að sett verði á fót nefnd sérfræðinga, sem rannsaki málið til hlítar og gefi Rússlandi, ÖSE og alþjóðasamfélaginu ráð um mögulega lausn varðandi þær spurningar, sem lagðar voru fram. Óskað er eftir góðri samvinnu við rússnesk stjórnvöld um þetta.

Undir bréfið skrifa fastafulltrúar Belgíu, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Írlands, Hollands, Bretlands, Bandaríkjanna, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, en fjöldi annarra aðildarríkja styður ferlið gagnvart Rússlandi.

Í erindi aðildarríkjanna í sumar voru lagðar fram nokkrar spurningar til rússneskra stjórnvalda samkvæmt hinu svokallaða Vínarferli ÖSE (Vienna Mechanism). Þar voru þau til dæmis spurð hvernig þau hefðu rannsakað ásakanir um mannréttindabrot gegn hinsegin fólki í Tsjetsjeníu, meðal annars aftökur á 27 einstaklingum sem sagðar eru hafa átt sér stað í janúar í fyrra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira