Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2018

Réttindi íslenskra borgara í Bretlandi eftir Brexit

Íslenskir ríkisborgarar njóta á grundvelli EES-samningsins réttar til að búa og starfa í Bretlandi án sérstaks leyfis. Á grundvelli draga að samningi Bretlands um útgöngu sína úr Evrópusambandinu er gert ráð fyrir að EES-samningurinn gildi áfram á svokölluðu bráðabirgðatímabili og að staða íslenskra ríkisborgara í Bretlandi haldist því óbreytt fram til 31. desember 2020.

Undanfarna mánuði hefur Ísland átt í viðræðum við Bretland um að tryggja á gagnkvæmnisgrundvelli réttindi íslenskra ríkisborgara sem búa í Bretlandi eða koma til Bretlands fyrir árslok 2020 til að búa þar áfram. Miða viðræðurnar að því að tryggja íslenskum ríkisborgurum sambærileg réttindi og skv. drögum að útgöngusamningi ESB og Bretlands. Viðræðurnar hafa gengið vel og er stefnt að því að ljúka samningi um þessi réttindi nánast um leið og útgöngusamningur Bretlands og ESB liggur fyrir.

Á vef breska innanríkisráðuneytisins eru þau réttindi sem samið hefur verið um í drögum að útgöngusamningi Bretlands við ESB útskýrð og má gera ráð fyrir að sambærileg réttindi og sömu ferlar gildi einnig fyrir íslenska ríkisborgara. 

Samkvæmt nýju fyrirkomulagi munu ESB-borgarar og borgarar EES-ríkjanna þurfa að staðfesta búseturétt sinn með skráningu. Bresk stjórnvöld hafa þegar upplýst að skráningarkerfið til að staðfesta búseturétt muni einnig gilda fyrir íslenska ríkisborgara. Handhafar áður útgefinna búsetuleyfa í Bretlandi þurfa einnig að skrá sig. Íslenskir ríkisborgarar sem búa í Bretlandi eða munu flytja þangað fyrir 31. desember 2020 munu hafa svigrúm frá 29. mars 2019 til 30. júní 2021 til þess að ganga frá skráningu. Samkvæmt nýja skráningarkerfinu fá þeir sem hafa búið í Bretlandi í fimm ár svokallaðan "settled status" eða fasta búsetu en þeir sem hafa dvalið skemur geta sótt um að fá "pre-settled status" og fá tækifæri til að safna upp í árin fimm til þess að hljóta fasta búsetu.

Sjá nánar á vef breska innanríkisráðuneytisins.

Ekki liggur fyrir hver staða þeirra verður sem hyggjast flytja til Bretlands eftir 31. desember 2020. Nema um annað verði samið, ræðst staða þeirra af breskum lögum. Bresk stjórnvöld vinna nú að mótun nýrrar innflytjendalöggjafar.

Hvað ef Bretland gengur úr ESB án samnings?

Nokkuð hefur verið spurt um hvað muni gerast ef svo ólíklega vill til að Bretland gengi úr ESB án samnings. Á fundi forsætisráðherra Íslands og Bretlands í Ósló hinn 30. október 2018 sammæltust ráðherrarnir um að jafnvel þó Bretland gengi úr ESB án útgöngusamnings myndu stjórnvöld leitast við að tryggja rétt borgara hins ríkisins til áframhaldandi búsetu á gagnkvæmnisgrundvelli. Ekki hefur á þessari stundu verið útfært hvernig það yrði gert.

Sjá frétt á vef Stjórnarráðsins um fund forsætisráðherra Íslands og Bretlands.

Ekki liggur fyrir hver staða þeirra verður sem hyggjast flytja til Bretlands eftir útgöngudag Bretlands úr ESB 29. mars 2019. Nema um annað verði samið, ræðst staða þeirra af breskum lögum. Innanríkisráðherra Bretlands gaf til kynna í bréfi til breska þingsins hinn 31. október sl. að við útgöngu Bretlands úr ESB kunni staða EES-borgara fyrst um sinn að verða óbreytt. Sendiráðið ráðleggur fólki í þessari stöðu að fylgjast með tilkynningum frá breskum stjórnvöldum hvað þetta varðar eða leita upplýsinga hjá breska sendiráðinu í Reykjavík.

Spurt og svarað um Brexit á vef utanríkisráðuneytisins


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum