Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. febrúar 2019 UtanríkisráðuneytiðFastanefnd Íslands hjá NATO

Norður-Makedónía verður 30. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins

Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, við undirritunarathöfnina. - mynd
Í dag undirritaði utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, Nikola Dimitrov, ásamt fastafulltrúum Atlantshafsbandalagsins, viðauka við stofnsáttmála bandalagsins sem markar inngöngu Norður-Makedóníu í bandalagið. 

Á fundinum sem fram fór í Brussel talaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sérstaklega um þann áfanga sem stjórnvöld í Norður-Makedóníu og Grikklandi hefðu náð með að leysa deiluna um nafn landsins, með því að leggja áherslu á að horfa til framtíðar og ná samstöðu um leiðina áfram veginn.  

Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, áréttaði mikilvægi þess að vera kominn í hóp náinna samstarfsríkja og vinaríkja sem ríkið ætti heima í, en auk þess héldi Norður-Makedónía nú áfram vinnu sinni í átt að aðild að Evrópusambandinu.

Norður-Makedónía tekur nú sæti á fundum Atlantshafsbandalagsins sem áheyrnarríki og verðandi bandalagsríki þar til viðaukinn hefur verið fullgiltur í öllum ríkjum þess. Undirbúningur þinglegrar meðferðar vegna fullgildingarinnar er þegar hafinn hérlendis. 

Anna Jóhannsdóttir sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, undirritaði viðaukann fyrir Íslands hönd.
 
  • Anna Jóhannsdóttir sendiherra, fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, undirritar viðaukann fyrir Íslands hönd.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira