Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sótti 70 ára afmælisfund Atlantshafsbandalagsins

Jens Stoltenberg, frkvstj. Atlantshafsbandalagsins, flutti ávarp í móttöku utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Andrew Mellon-salnum í gærkvöld - myndAtlantshafsbandalagið
Utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins komu saman til fundar í Washington í tilefni af 70 ára afmæli bandalagsins, en hinn 4. apríl 1949 var stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins undirritaður af tólf stofnríkjum, Íslandi þar á meðal. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn.

Samskiptin við Rússland voru ofarlega á baugi á fundinum, þ.m.t. staða INF-samningsins um meðaldrægar kjarnaflaugar sem sagt var upp eftir ítrekuð brot Rússlands á ákvæðum samningsins. Þróun mála í Úkraínu og við Svartahaf, ekki síst eftir atburðina á Azov hafi í nóvember sl., var ennfremur til umfjöllunar og hétu bandalagsríki áframhaldandi stuðningi við Georgíu og Úkraínu.

Ráðherrarnir ræddu jafnframt baráttuna gegn hryðjuverkum og stöðuna í Afganistan, þ.m.t. gang mála í friðarumleitunum í landinu. Frekari stuðningur Atlantshafsbandalagsins við uppbyggingarverkefni í Írak, Jórdaníu og Túnis var einnig ræddur, sem og áframhaldandi þátttaka í fjölþjóðlegu bandalagi gegn ISIS hryðjuverkasamtökunum.

Ráðherrafundinum lauk með umræðum um jafnari skiptingu framlaga til  Atlantshafsbandalagsins, en á síðustu árum hafa öll ríki bandalagsins aukið framlög til eigin og sameiginlegra varna. Borgaralegt framlag Íslands og þátttaka í verkefnum Atlantshafsbandalagsins hefur sömuleiðis farið vaxandi. Þá samþykktu utanríkisráðherrarnir yfirlýsingu um sögulegt hlutverk Atlantshafsbandalagsins í tilefni afmælisins.

Í gær komu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins saman í Andrew W. Mellon-salnum í Washington þar sem stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins var undirritaður fyrir sjötíu árum. Bjarni Benediktsson þáverandi utanríkisráðherra ritaði undir samninginn fyrir Íslands hönd.

 „Atlantshafsbandalagið er einstakt varnarbandalag ríkja sem aðhyllast sömu gildi og deila hagsmunum. Það hefur stuðlað að friði og hagsæld í Evrópu og styrkt tengslin við Norður Ameríku. Það eldist jafnframt vel og hefur þróast samhliða breyttu og sífellt flóknara öryggisumhverfi. Grunnstoð Atlantshafsbandalagsins um samstööu, og einn fyrir alla og alla fyrir einn, er tímalaus og á jafnt við í dag og fyrir sjötíu árum. Það reyndist heillaspor hjá ungu lýðveldi að undirrita Washington sáttmálann þann 4. apríl 1949,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Guðlaugur Þór átti jafnframt tvíhliða fund með Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, þar sem aðild Norður-Makedóníu að Atlantshafsbandalaginu var til umfjöllunar, en Norður-Makedónía verður þrítugasta aðildarríki bandalagsins að loknu fullgildingarferli í aðildarríkjum. Þá fundaði Guðlaugur Þór með Chrystia Freeland, utanríkisráðherra Kanada, þar sem öryggismál og fríverslunarmál voru helsu umræðuefni.
  • Norður-Atlantshafsráðið kom saman til fundar í dag - mynd
  • Utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum