Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra Nýja-Sjálands í Íslandsheimsókn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Winston Peters, utanríkisráðherra Nýja-Sjálands - myndUtanríkisráðuneytið

Tvíhliða samskipti, mannréttindamál og öryggismál voru efst á baugi á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Winston Peters, utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, sem fram fór í Grindavík í dag.

Íslandsheimsókn Peters, sem jafnframt gegnir embætti varaforsætisráðherra Nýja-Sjálands, er liður í ferð hans um Norðurlönd en Nýja-Sjáland opnaði nýverið sendiráð í Stokkhólmi sem annast fyrirsvar gagnvart öllum norrænu ríkjunum. Þetta er í fyrsta sinn sem nýsjálenskur utanríkisráðherra sækir Ísland heim en ríkin tóku upp stjórnmálasamband árið 1988.

Þeir Peters og Guðlaugur Þór Þórðarson ræddu á fundi sínum sameiginleg hagsmunamál ríkjanna og samvinnu, meðal annars á sviði mannréttinda en Nýja-Sjáland studdi framboð Íslands til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í fyrra. Þá voru jafnframt til umræðu á fundinum öryggismál, hryðjuverkaógnin, alþjóðaviðskipti, málefni hafsins og baráttan gegn loftslagsbreytingum svo fátt eitt sé nefnt.

 „Þótt hálf jarðarkringlan skilji að Ísland og Nýja-Sjáland eiga þessi tvö ríki margt sameiginlegt. Landshagir beggja eru um margt svipaðir og samfélögin grundvallast bæði á gildum á borð við lýðræði, mannréttindi og jafnrétti kynjanna. Það kemur því vart á óvart að á fundi okkar Peters hafi komið fram gagnkvæmur vilji til að auka samskipti ríkjanna og þróa áfram en nýsjálensk stjórnvöld horfa í vaxandi mæli til Norðurlandanna, bæði sem líkt þenkjandi vinaþjóða og vegna norðurslóða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Fyrr í dag skoðuðu utanríkisráðherrarnir fjölbreytta náttúru Reykjanesskaga og kynntu sér atvinnulíf á svæðinu, meðal annars sjávarútvegsfyrirtækið Vísi í Grindavík og HS Orku í Svartsengi.  Í kvöld fer svo fram vinnukvöldverður þeirra Winston Peters og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

  • Ráðherrarnir heimsóttu höfuðstöðvar HS Orku - mynd
  • Ráðherrarnir skoðuðu hausaþurrkun á leið sinni um Reykjanesskagann - mynd
  • Ráðherrarnir kynntu sér starfsemi útgerðarfyrirtækisins Vísis í Grindavík - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum