Hoppa yfir valmynd
23. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Fyrsti norðurslóðaviðburðurinn í formennskutíð Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi við Mike Sfraga, frkvstj. Wilson Center’s Polar Institute - myndUtanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðstefnu um viðskipti á norðurslóðum sem haldin var í sendiráði Íslands í Washington. Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu og efnahagshvatar og fjárfestingar á norðurslóðum voru aðalefni ráðstefnunnar, sem bar yfirskriftina Doing Business in the Arctic. 

Ráðstefnan, sem er fyrsti viðburðurinn sem tengist formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, var skipulögð af Íslensk-ameríska viðskiptaráðinu í Bandaríkjunum, sendiráði Íslands í Washington, Efnahagsráði norðurslóða og Wilson Center’s Polar Institute í Washington. Þátttakendur voru bæði úr einkageiranum og opinbera geiranum frá Bandaríkjunum, Íslandi, Grænlandi og Noregi. 

Guðlaugur Þór tók þátt í pallborðsumræðum um fjárfestingar á norðurslóðum og hélt ræðu um formennskuáætlun Íslands. „Rauði þráðurinn í okkar formennskutíð verður sjálfbær þróun en við leggjum ríka áherslu á allar þrjár stoðir hugtaksins og samspilið þeirra á milli: sterk samfélög, öflugan efnahag og umhverfisvernd. Þessari sýn deilum við með Bandaríkjunum og því sérstök ánægja að þessi fyrsti viðburður sem Ísland tekur þátt í sem formennskuríki skuli eiga sér stað hér í höfuðborg landsins,“ sagði utanríkisráðherra að fundi loknum.

Í Bandaríkjunum er mikill áhugi á fjárfestingum á norðurslóðum, þar á meðal á Íslandi, en undanfarin fimm ár hefur rúmur þriðjungur erlendra fjárfestinga á Íslandi komið þaðan. Þá hafa íslensk fyrirtæki aukið umsvif sín á svæðinu undanfarin ár, til dæmis í sjávarútvegi í Alaska og fraktflutningum til og frá Grænlandi. Áætluð fjárfestingaþörf á norðurslóðum er talin nema um eitt þúsund milljörðum Bandaríkjadala og því ljóst að um veruleg tækifæri er að ræða, ekki síst á sviði innviðauppbyggingar. 

Auk þátttöku í ráðstefnunni hélt Guðlaugur Þór fyrirlestur hjá Wilson Center’s Polar Institute-hugveitunni í Washington. Í ávarpi sínu þar fjallaði hann um formennskuáætlunina, stefnu Íslands í norðurslóðamálum, um samstarf norðurslóðaríkja og eflingu Norðurskautsráðsins. Að fundi loknum átti ráðherra fund með aðstoðarráðherra Bandaríkjanna fyrir málefni hafsins, Tim Gallaudet, þar sem þeir ræddu um samstarf um málefni hafsins og norðurslóðir. 

Um leið og ráðstefnan fór fram var opnuð sýning á verkum ljósmyndarans Ragnars Axelssonar í sendiráði Íslands. Sýningin, sem heitir Jöklar, er í tilefni af formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og verður hún opin almenningi um helgar í húsnæði sendiráðsins fram til 11. ágúst 2019.
  • Utanríkisráðherra flytur ávarp í Wilson Center’s Polar Institute - mynd
  • Utanríkisráðherra var á meðal þátttakenda á ráðstefnunni Doing Business in the Arctic - mynd
  • Sýning á verkum Ragnars Axelssonar var opnuð í sendiráði Íslands í Washington - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum