Hoppa yfir valmynd
10. júní 2019

Tvíhliða efnahagssamráð Íslands og Japans

Í síðustu viku fór fram tvíhliða efnahagssamráð milli Íslands og Japans í Tókýó. Af Íslands hálfu sóttu fundinn fulltrúar utanríkisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt sendiherra og viðskiptafulltrúa sendiráðs Íslands í Tókýó.

Íslensk stjórnvöld hafa um nokkurt skeið óskað eftir upphafi fríverslunarviðræðna við Japan, sem er stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu, og jafnframt þriðja stærsta efnahags kerfi heims.

Á fundinum í síðustu viku fóru fulltrúar japönsku ráðuneytanna yfir stöðuna á yfirstandandi fríverslunarviðræðum Japans við önnur ríki. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að hafnar yrðu könnunarviðræður um mögulegar fríverslunarviðræður sem fyrst. Rætt var um núverandi viðskipti landanna, en Japan er mikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur og þjónustu, m.a. sjávarafurðir, heilbrigðistækni og landbúnaðarvörur.

Rætt var um aukna möguleika á tvíhliða fjárfestingum og tækifæri í nýsköpunstarfi og fyrir íslensk og japönsk sprotafyrirtæki, en fjölbreyttur hópur fyrirtækja á Íslandi á í viðskiptum við Japan. Stefnt er að öðrum fundi þar sem greindar verða forsendur fyrir því að hefja fríverslunarviðræður.

Fyrr í vikunni hélt Íslenska Viðskiptaráðið í Japan kynningarfund í sendiráði Íslands í Tókýó, þar sem helstu viðskiptaðilum landanna bauðst tækifæri til að hitta íslensku sendinefndina að máli. Meðal meðlima ráðsins er að finna nokkur helstu fyrirtæki Íslands m.a. Icelandair, Össur, HB Grandi, Samherji og fleiri. Í ráðinu eru einnig japönsk fyrirtæki eins og Maruha Nichiro, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims, Fuji Electric, leiðandi fyrirtæki í framleiðslu orkubúnaðar, og fleiri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum