Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júní 2019 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar ræddu komu tyrkneska landsliðsins

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi í morgun í síma við Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, um komu tyrkneska karlalandsliðsins í knattspyrnu hingað til lands á sunnudaginn.

Í samtalinu, sem var að ósk tyrkneska ráðherrans, lét Çavuşoğlu í ljós vonbrigði með framkvæmd öryggiseftirlits og vegabréfaskoðunar á Keflavíkurflugvelli og óskaði skýringa á henni. Guðlaugur Þór útskýrði málið út frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda og áréttaði að framkvæmdin hefði að öllu leyti verið í samræmi við hefðbundið verklag og óskir um sérstaka hraðmeðferð, sem alla jafna stæði íþróttaliðum ekki til boða, hefðu borist of seint. 

„Mér þykir leitt að tyrkneska landsliðið hafi haft neikvæða upplifun af komunni til Íslands því að við leggjum mikið upp úr að taka vel á móti erlendum gestum okkar. Hins vegar verður eitt yfir alla að ganga og venjubundnu verklagi var fylgt í hvívetna. Þetta skýrði ég út fyrir Çavuşoğlu og um leið lýsti ég yfir undrun vegna viðbragða tyrkneskra stjórnvalda, sem væru mun harðari en tilefni gæfi til. Á endanum snýst koma tyrkneska liðsins hingað til lands um knattspyrnu og ég vonast til að allir geti nú einblínt á leikinn í kvöld, sem efalítið verður spennandi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira