Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Fundur vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun á Íslandi

Ísland veitir vinnuhópi Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Working Group - SDWG) formennsku samhliða formennsku landsins í Norðurskautsráðinu. Dagana 10.-12. september fundar vinnuhópurinn í Reykjavík og á Ísafirði. Um 70 manns, embættismenn frá öllum átta ríkjum ráðsins, fulltrúar frá frumbyggjasamtökum af svæðinu og áheyrnaraðilum ráðsins, munu sækja fundinn.

SDWG fjallar um viðfangsefni sjálfbærrar þróunar út frá þeim þremur stoðum sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja upp með og leggur þannig áherslu á jafnvægi milli umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta. Lögð er áhersla á að bæta lífsgæði íbúa svæðisins, þ.m.t. frumbyggja, með vel skilgreindum verkefnum og aðgerðum en frá því hópurinn var settur á laggirnar árið 1998 hefur hann ráðist í u.þ.b. 65 verkefni m.a. á sviði lýðheilsu, sjálfbærrar efnahagsþróunar, menntunnar og menningar.

Lögð er áhersla á að samþætta starf vinnuhóps um sjálfbæra þróun við starf hinna fimm vinnuhópa Norðurskautsráðins. Lesa má nánar um vinnuhópana hér.

Fundurinn er hluti af röð reglubundinna funda Norðurskautsráðsins og tengdra viðburða sem fara munu fram víðsvegar um landið næstu tvö árin. Fyrsti stjórnarfundur embættismannanefndar ráðsins fór fram í Reykjanesbæ í júní sl. en fundir eru auk þess ráðgerðir í Hveragerði, á Akureyri, Reykjavík og Egilsstöðum. Norðurslóðatengdir viðburðir á Íslandi verða vel á þriðja tug á þessu tveggja ára tímabili.

Frekari upplýsingar um Norðurskautsráðið og formennsku Íslands í ráðinu má finna á Stjórnarráðsvefnum. Einnig er hægt að fylgjast með formennsku Íslands á Twitter, @IcelandArctic.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira