Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. september 2019 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Vel heppnuð ráðstefna um velferð og samfélagslega þátttöku ungmenna á norðurslóðum

Fjöldi fólks lagði leið sína á ráðstefnuna Velferð, styrkur og samfélagsleg þátttaka ungmenna á norðurslóðum sem fram fór frá hádegi í gær í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu.

Á ráðstefnunni var lögð áhersla á stöðu, viðhorf og samfélagslega þátttöku ungmenna eins og hún endurspeglast í nýlegum rannsóknum og verkefnum. Fulltrúar ungs fólks tóku virkan þátt í pallborðsumræðunum og lögðu áherslu á að málefni sem þau varða verði ekki rædd án þeirra þátttöku. Einnig var rætt um styrkleika og velferð ungmenna á norðurslóðum og tengingu rannsókna við raunverulegar aðstæður. Tíðni sjálfsvíga á þessu svæði er víða mjög há og því var lögð sérstök áhersla á forvarnir í geðheilbrigðismálum, sem fela m.a. í sér áfallamiðaða nálgun, virka þátttöku ungmenna, virðingu fyrir menningarlegum fjölbreytileika og sjálfbærni.

Velferð fólks og samfélaga á norðurslóðum er ein af megináherslum formennskuáætlunar Íslands í Norðurskautsráðinu. Ráðstefnan er haldin í tengslum við fund vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun sem fram fer á Ísafirði þessa dagana en vinnuhópurinn mun jafnframt fara yfir helstu niðurstöður ráðstefnunnar.

Utanríkisráðuneytið stóð fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands, Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér, en einnig má nálgast upplýsingar um þá sérfræðinga sem tóku til máls á ráðstefnunni hér.

Frekari upplýsingar um Norðurskautsráðið og formennsku Íslands í ráðinu má finna á Stjórnarráðsvefnum. Einnig er hægt að fylgjast með formennsku Íslands á Twitter, @IcelandArctic

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira