Hoppa yfir valmynd
20. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra styrkir tengslin við Bandaríkjaþing

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ásamt þeim Borgari Þór Einarssyni aðstoðarmanni og Bergdísi Ellertsdóttur sendiherra. - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði í vikunni með þingmönnum öldunga- og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings með það að markmiði að efla tengslin á sviði efnahags- og viðskiptamála og kynna stefnu Íslands í málefnum norðurslóða. 

Ráðherra fundaði með lykilþingmönnum öldungadeildar og fulltrúadeildar þingsins í Washington D.C., þ.á.m. með formanni fjárlaganefndar, formanni vinnuhóps um málefni norðurslóða og öðrum þingmönnum sem hafa látið sig málefni hafsins, norðurslóða og alþjóðaviðskipta sérstaklega varða.

Á fundunum lagði ráðherra ríka áherslu á að dýpka tvíhliða efnahags- og viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna. Meðal forgangsmála sem rædd voru sérstaklega má nefna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, fríverslun og áritanir fyrir fjárfesta og viðskiptaaðila sem myndu auðvelda aðgang að Bandaríkjamarkaði. Þá var óskað eftir stuðningi þingmanna við að koma á fót vinnuhópi um málefni Íslands með fulltrúum úr báðum þingdeildum. 

 „Það er okkur mikilvægt að styrkja markvisst tengsl við Bandaríkjaþing og það er jafnframt lykillinn að því að efla hagsmunagæslu almennt í Bandaríkjunum. Ég finn fyrir miklum meðbyr sem ég ætla mér að nýta til hins ítrasta til þess að efla samstarf Íslands og 
Bandaríkjanna með enn frekari viðskiptum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarsson.

Bandaríkin og Ísland hafa í gegnum árin átt gott samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála. Bandaríkin eru mikilvægasta viðskiptaland Íslands en heildarviðskipti landanna námu á síðasta ári yfir einum milljarði Bandaríkjadala, um 120 milljörðum króna.

Utanríkisráðherra átti einnig fundi með fulltrúum þjóðaröryggisráðs og utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna en vilji Bandaríkjastjórnar til að efla samvinnu við Ísland hefur glögglega komið fram á undanförnum mánuðum.

Í sumar fór fyrsta efnahagssamráð ríkjanna fram í Reykjavík en það var sett á laggirnar í framhaldi af Íslandsheimsókn Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna í febrúar. Því var fylgt eftir með viðskiptaþingi um samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála sem utanríkisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, leiddu í Höfða fyrr í þessu mánuði.  

 
  • Á meðal þeirra sem Guðlaugur Þór hitti var Richard Shelby, formaður fjárlaganefndar öldungadeildarinnar - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Rick Ray Larsen, fulltrúadeildarþingmaður og formaður vinnuhóps um málefni norðurslóða. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum