Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna - myndPontus Hook
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ávarpar í kvöld allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York. Í dag átti utanríkisráðherra fjölmarga tvíhliða fundi auk þess sem hann undirritaði loftferðasamning Íslands og Líberíu.

74. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í höfuðstöðvunum í New York og sækir utanríkisráðherra þingið venju samkvæmt. Dagurinn hófst á morgunverðarfundi svonefnds Grænhóps, sem er óformlegur samstarfshópur um loftslagsmál sem sex ríki eiga aðild að: Ísland, Grænhöfðaeyjar, Kosta Ríka, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Singapúr og Slóvenía. Hópurinn var stofnaður 2009 en hefur legið í láginni undanfarin ár þar til nú.

„Umhverfis- og loftslagsmál eru eitt brýnasta viðfangsefni samtímans og meðal annars þess vegna hefur lífi verið blásið á ný í Grænhópinn svonefnda. Ísland hefur margt fram að færa í þessum efnum og á fundinum fór ég meðal annars yfir reynslu Íslands af jarðhita og vatnsaflsnýtingu. Um leið var fróðlegt að heyra nálgun þessara ólíku ríkja enda ýmislegt sem við getum lært af þeim,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Í dag hefur svo utanríkisráðherra átt fjölmarga tvíhliða fundi. Sá fyrsti var með Luís Filipe Tavares, utanríkisráðherra Grænhöfðaeyja, þar sem meðal annars tvíhliða samskipti og samstarf á sviði ferðaþjónustu voru til umræðu. Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, var aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu og fullgilding hennar efst á baugi og á fundi með David Zalkaliani, utanríkisráðherra Georgíu, voru tvíhliða samskipti ríkjanna, alþjóðlegt samstarf og málefni fólks á vergangi í Georgíu efst á baugi. Guðlaugur Þór átti svo fund með Mariu Ubach Font, utanríkisráðherra Andorra, um viðræður ESB og Andorra um mögulegan samstarfssamning og reynslu Íslands af EFTA. Síðasti tvíhliða fundurinn var svo með Chingiz Aidarbekov, utanríkisráðherra Kirgistans þar sem tvíhliða samskipti ríkjanna voru til umræðu en íslensk fyrirtæki skoða m.a. verkefni um virkjun fallvatna í landinu í samvinnu við þarlenda aðila.

Þá undirrituðu þeir Guðlaugur Þór og Gbehzohngar Milton Findley, utanríkisráðherra Líberíu, loftferðasamning ríkjanna. Gengið var frá samningnum á loftferðaráðstefnu árið 2015 og hann þá áritaður en undirritunin í dag markar formlega gildistöku hans. „Undirritun loftferðasamnings við Líberíu er mjög jákvæður áfangi í átt að auknu samstarfi við Afríkuríki á þessu sviði. Flugiðnaðurinn er mikilvægur þáttur í íslenskum efnahag og því skiptir hver einasti loftferðasamningur máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Sem fyrr segir flytur utanríkisráðherra ræðu sína í allsherjarþinginu í kvöld og er gert ráð fyrir að hann taki til máls fljótlega upp úr miðnætti. Hægt er að fylgjast með ræðunum í beinu streymi frá allsherjarþinginu.
  • Guðlaugur Þór ásamt Nikola Dimitrov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu - mynd
  • Loftferðasamningur við Líberíu handsalaður - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og og Gbehzohngar Milton Findley, utanríkisráðherra Líberíu, loftferðasamning ríkjanna. - mynd
  • Guðlaugur Þór og Chingiz Aidarbekov, utanríkisráðherra Kirgistans. - mynd
  • Guðlaugur Þór og Filipe Tavares, utanríkisráðherra Grænhöfðaeyja - mynd
  • Guðlaugur Þór og David Zalkaliani, utanríkisráðherra Georgíu - mynd
  • Guðlaugur Þór og Maria Ubach Font, utanríkisráðherra Andorra. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum