Hoppa yfir valmynd
31. október 2019 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Sigurður Ingi flutti skýrslur um norrænt samstarf á þingi Norðurlandaráðs

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag. - myndMagnus Fröderberg/norden.org

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti skýrslur um norrænt samstarf á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í dag. Í þeim er greint frá því helsta sem hefur áunnist á árinu í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Í máli ráðherra kom fram að mikilvægt sé að að samnorræn verkefni styðji og styrki Norðurlöndin út á við og þjóni hinum almenna borgara.

Formennskuáætlun Íslands hefur lagt áherslu á málefni ungs fólks, sjálfbæra ferðaþjónustu og hafið, og hafa þær áherslur fléttast inn í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar á fjölmörgum sviðum. Þannig héldu t.d. norrænir forsætisráðherrar fund með fulltrúum ungs fólks á Norðurlöndunum í gær og fylgdu eftir ungmennaráðstefnu á Íslandi í apríl sl. Stærsta viðfangsefnið á formennskuárinu var hins vegar að ná samstöðu um nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf sem leggur áherslu á Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi, sérstaklega varðandi aðgerðir í loftslagsmálum og kolefnishlutleysi.  Þá hafa málefni vestnorræna svæðisins – Færeyja, Grænlands og Íslands – fengið aukna athygli á formennskuárinu þar sem m.a. ný áætlun í málefnum Norður-Atlantshafssvæðisins fékkst samþykkt (NAUST). 

Þá sótti Sigurður Ingi, ásamt samstarfsráðherrum Grænlands og Færeyja, árlegan fund með forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins. Markmið ráðsins er að starfa að sameiginlegum hagsmunum landanna sem snúa einna helst að auðlinda- og menningarmálum og voru málefni hafsins og varðveisla tungumálanna á dagskrá. Þá var á fundinum rætt fyrirkomulag við fyrirspurnum frá Vestnorræna ráðinu.

Sigurður Ingi heimsótti einnig höfuðstöðvar norrænu byggðarrannsóknarstofnunarinnar, NORDREGIO, og norrænu velferðarstofnunarinnar, sem eru í Stokkhólmi. Báðar þessar stofnanir sinna mikilvægum rannsóknum á sínum málefnasviðum og nýtist starf þeirra í stefnumótun á norrænum vettvangi og í einstökum ríkjum. Í næsta mánuði mun NORDREGIO halda stóra ráðstefnu á Íslandi um viðnámsþrótt byggða („Hæfni svæða með seiglu“) sem fram fer undir formerkjum formennsku Íslands. 

Loks var Sigurður Ingi viðstaddur þegar Silja Dögg Gunnarsdóttir var kjörinn forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 en Ísland tekur þá við formennskunni af Svíþjóð. Næsta Norðurlandaráðsþing fer því fram í Reykjavík í lok október næsta árs.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum