Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2019

Samráð á sviði viðskipta, alþjóða- og öryggismála í brennidepli í Washington DC

Vikan einkenndist af samráði fulltrúa íslenskra stjórnvalda við tengiliði í bandaríska stjórnkerfinu. Þar bar hæst árlegt samráð Bandaríkjanna og Íslands á sviði alþjóða- og öryggismála sem fór fram á miðvikudeginum 6. nóvember. Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri leiddi fundinn fyrir Íslands hönd en ásamt honum sátu fundinn sendherra Íslands í Bandaríkjunum, skrifstofustjórar alþjóða- og varnamálaskrifstofu ráðuneytisins, fulltrúar landhelgisgæslunnar, skrifstofustjóri almanna- og réttaröryggis hjá dómsmálaráðuneytinu, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og starfsmenn sendiráðsins í Washington. Frá Bandaríkjunum sóttu fundinn sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi ásamt starfsfólki sendiráðsins og tengiliðir Íslands á sviði öryggis- og varnamála hjá utanríkis- og varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna. Auk þess að ræða almennt um samstarf landanna var rætt um samstarf á alþjóðavettvangi, m.a. innan Atlantshafsbandalagsins og sameiginleg áherslumál.

Á þriðjudeginum funduðu Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri, Bergdís Ellertsdóttir sendiherra, Auðbjörg Halldórsdóttir ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og Hreinn Pálsson sendifulltrúi ásamt starfsfólki sendiráðs Bandaríkjanna og fulltrúum úr utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna með öldungadeildarþingmönnunum Lisu Murkowski frá Alaska og Angus King frá Maine. Þau sitja bæði í vinnuhópi öldungadeildarinnar um málefni norðurslóða. Á fundinum var þannig lögð áhersla á málefni norðurslóða. Einnig var rætt um viðskiptamál og þá sér í lagi mögulegan fríverslunarsamning á milli Íslands og Bandaríkjanna og áritanir fyrir íslenska fjárfesta og viðskiptaaðila. Fundurinn var liður í vinnu sendiráðsins og ráðuneytisins við að efla tengsl við Bandaríkjaþing.

Á miðvikudeginum sóttu Kristinn F. Árnason sendiherra og Una Jóhannsdóttir sendiráðunautur samráðsfund EFTA ríkjanna og aðalsamningamanns Bandaríkjaforseta (US Trade Representative) í Washington. Um er að ræða árlegan samráðsfund þar sem skipst er á upplýsingum um áherslumál á sviði fríverslunar og alþjóðaviðskipta. Rætt var um nýlega samninga Bandaríkjanna við Kína, Japan, Kanada og Mexíkó. Jafnframt var rætt um þá stöðu sem upp er komin á sviði alþjóðaviðskipta og um málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá var rætt um viðskipti EFTA-ríkjanna og Bandaríkjanna með áherslu á gerð samnings um gagnkvæma viðurkenningu á góðum framleiðsluháttum í lyfjagerð.

Skrifstofustjórar alþjóðamála utanríkisráðuneyta Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna funda tvisvar á ári sameiginlega með tengiliðum í bandaríska utanríkisráðuneytinu og ganga þessir samráðsfundir undir nafninu EPINE. Fyrsti EPINE fundur ársins var á Íslandi í júní og seinni fundurinn var í Washington og borginni Annapolis daganna 7. - 8. nóvember. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og ber þannig einnig ábyrgð á að leiða EPINE fundina. Af því tilefni var boðað til móttöku hjá sendiherra Íslands í Washington á miðvikudag áður en fundirnir hófust. Fundina sóttu fyrir Íslands hönd Martin Eyjólfsson skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Hreinn Pálsson sendifulltrúi í sendiráði Íslands í Washington. Á fundunum var m.a. rætt um málefni norðurslóða, Mið-Austurlanda, Úkraínu og þau mál sem eru helst á döfinni í alþjóðamálum.

Að lokum má nefna að sendiráðið tekur reglulega á móti nemendum frá Bandaríkjunum og Íslandi til að fræða þá um starfsemi sendiráðsins og áherslur Íslands í utanríkismálum. Á föstudeginum heimsótti hópur háskólanema frá háskólanum í Kansas sendiráðið. Þessi hópur skipar lið í uppsetningu á öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna (Model United Nations) þar sem nemendurnir gegna hlutverki fulltrúa Íslands í ráðinu. Una Jóhannsdóttir sendiráðunautur ræddi við þau m.a. um formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og áherslur á sviði umhverfismála og mannréttinda. Það verða flottir fulltrúar Íslands frá Kansas sem að mæta til leiks í uppsetningu á öryggisáðinu um helgina.

Annasöm vika að baki í Washington sem er til marks um það hve samstarf Bandaríkjanna og Íslands er virkt á hinum ýmsu sviðum.

  • Samráð á sviði viðskipta, alþjóða- og öryggismála í brennidepli í Washington DC - mynd úr myndasafni númer 1
  • Samráð á sviði viðskipta, alþjóða- og öryggismála í brennidepli í Washington DC - mynd úr myndasafni númer 2
  • Samráð á sviði viðskipta, alþjóða- og öryggismála í brennidepli í Washington DC - mynd úr myndasafni númer 3
  • Samráð á sviði viðskipta, alþjóða- og öryggismála í brennidepli í Washington DC - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum