Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Grein norrænu þróunarmálaráðherranna í tilefni af leiðtogafundi alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun (ICPD25)

Sameiginleg grein norrænu þróunarsamvinnuráðherranna í aðdraganda Naíróbí leiðtogafundar alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun (ICPD25).

Peter Eriksson, ráðherra þróunarsamvinnu, Svíþjóð

Rasmus Prehn, ráðherra þróunarsamvinnu, Danmörku

Ville Skinnari, ráðherra þróunarsamvinnu og utanríkisviðskipta, Finnlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Íslandi

Dag-Inge Ulstein, ráðherra þróunarmála, Noregi

 

Hagsæld og góð lífskjör á Norðurlöndunum má ekki aðeins rekja til skóga, landbúnaðar, tækni eða gnægðar auðlinda á borð við fisk og olíu. Áratugum saman hafa konur á Norðurlöndunum notið jafnra réttinda, ókeypis menntunar og aðgengis að getnaðarvörnum, ásamt öruggum og löglegum fóstureyðingum. Aðgengi að ódýrum, opinberum leikskólum fyrir börn er tryggt, ásamt veglegu fæðingarorlofi og lagaramma sem gerir foreldrum kleift að sinna starfsframa jafnhliða barnauppeldi. Sókn í réttindamálum og valdeflingu kvenna hefur leikið lykilhlutverk við þróun samfélaga okkar og gert þjóðum okkar í heild sinni kleift að taka þátt í atvinnulífinu og uppbyggingu efnahags okkar.

Jákvæð áhrif félagslegs og efnahagslegs kynjajafnréttis eru vel þekkt.  Þrátt fyrir þetta skortir hundruði milljóna kvenna aðgengi að nútímagetnaðarvörnum og hætta þannig á ótímabærar þunganir. Á hverjum degi eiga sér stað 33 þúsund giftingar stúlkubarna, og dag hvern deyja 830 konur við barnsburð eða af völdum þungunartengdra fylgikvilla eða óöruggra fóstureyðinga.

Í mörgum löndum er rétturinn til umráða yfir eigin líkama enn umdeildur, jafnvel þótt alþjóðasamningur um þetta efni hafi verið samþykktur fyrir 25 árum síðan. Á alþjóðaráðstefnunni um mannfjölda og þróun árið 1994 í Kaíró, samþykktu 179 ríkisstjórnir að allir einstaklingar – hvort heldur ungmenni eða fullorðnir, giftir eða einhleypir – skyldu hafa rétt til að ákveða hvort og hvenær þeir stofnuðu fjölskyldu. Þessi samhljóða samþykkt markaði tímamót. Hún gerði það að verkum að litið var á mannréttindi og kynjajafnrétti sem lykilatriði í sjálfbærri þróun, og þjóðir heims stóðu sameinaðar á þessu sviði.

Alþjóðasamfélagið mun innan tíðar koma saman á ný í Naíróbí til að fagna aldarfjórðungsafmæli alþjóðaráðstefnunnar um mannfjölda og þróun og til að leitast við að ljúka því starfi sem hófst í Kaíró. Leiðtogafundurinn verður í boði Kenya, Danmerkur og Mannfjöldasjóðs SÞ, en þar koma saman leiðtogar ríkja, ráðherrar, embættismenn, fulltrúar borgaralegs samfélags, einkageirans og fræðasamfélagsins, ásamt ungu fólki, til að ræða hvernig þoka megi þessari vinnu áleiðis.

Við höfum þungar áhyggjur af því að réttinum til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin líkama er ógnað í mörgum löndum. Mikil andstaða er víða gegn almennri kynfræðslu, réttinum til öruggra og löglegra fóstureyðinga og jöfnum réttindum til handa LGBTQ fólks. Ríkisstjórnir okkar eru staðráðnar í að vinna með vaxandi fjölda stuðningsmanna þessara réttinda í því skyni að stuðla að framgangi í þessum efnum.

Ímyndum okkur heim þar sem deilur um þessi málefni hafa verið leiddar til lykta og þar sem við getum þess í stað beint athyglinni að þeim ávinningi sem felst í að veita öllum óskoraðan sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama.

  • Við myndum koma í veg fyrir 67 milljón óæskilegar þunganir í þróunarlöndum ár hvert ef konur og ungmenni byggju við aðgengi að nútímagetnaðarvörnum.
  • Við myndum binda enda á barnahjónabönd og með almennri kynfræðslu væri ungu fólki gert kleift að taka upplýstar ákvarðanir um líkama sinn og líf, ásamt því að hagnýta sér möguleika sína til fulls.
  • Við myndum tryggja að stúlkur byggju við jöfn tækifæri til menntunar, til að fá tilgangsrík, launuð störf og til að taka þátt í samfélagi sínu til jafns við piltana.

 

Það er svona veröld sem við óskum okkur.

Valdefling kvenna og ungmenna er ekki aðeins mikilvægt markmið í sjálfu sér, heldur beinlínis forsenda þess að ná markmiðunum um sjálfbæra þróun.

Við – Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð – munum áfram vera traustir pólitískir og fjárhagslegir stuðningsaðilar fyrir bætt kyn- og frjósemisheilbrigði, sem og fyrir réttindum öllum til handa.

Við getum ekki liðið að konur deyi enn af barnsförum, né heldur að börn skuli neydd í hjónaband eða að milljónir kvenna og stúlkna skuli enn í dag óttast ótímabærar þunganir. 

Við höldum til Naíróbí með þann skýra ásetning að ljúka þessum verkefnum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta