Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. nóvember 2019 UtanríkisráðuneytiðSendiráð Íslands í Helsinki

Utanríkisráðherra á norðurslóðaráðstefnu í Finnlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpar ráðstefnuna - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag alþjóðlega ráðstefnu um málefni norðurslóða sem haldin var í Helsinki. Utanríkisráðherra ræddi meðal annars alþjóðamál og tvíhliða samskipti á fundi með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands. 

Finnar fara með formennsku í Evrópusambandinu til áramóta og er ráðstefnan í Helsinki, sem bar yfirskriftina A Clean and Global North, liður í henni. Aðalumfjöllunarefni ráðstefnunnar voru þróun og framtíð svæðisbundinnar samvinnu í norðri með sérstakri áherslu á norðurskautssvæðið. Þá var tuttugu ára afmæli Norðlægu víddarinnar (Northern Dimension) sérstaklega fagnað en þessi samstarfsvettvangur Íslands, Noregs, Rússlands og ESB um þróun mála í norðanverðri Evrópu var settur á fót á sínum tíma að frumkvæði Finnlands. 

Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, hélt opnunarávarp ráðstefnunnar en Guðlaugur Þór flutti lokaávarpið þar sem hann fjallaði um stefnu Íslands á norðurslóðum og mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu. Þá gerði hann grein fyrir helstu áherslum í formennsku Íslands innan Norðurskautsráðsins: málefnum hafsins, loftlagsmálum og grænum orkulausnum, og fólkinu og samfélögum á norðurslóðum.. „Við stöndum á tímamótum hvað norðurslóðir varðar og miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á þessu viðkvæma svæði næstu áratugina. Formennskuáherslur okkar í Norðurskautsráðinu endurspegla þessar umbreytingar og áskoranir sem framundan eru og það er ávallt gott að geta vakið á þeim athygli og hvatt til umræðu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands. Þar voru málefni norðurslóða, tvíhliða samskipti ríkjanna, málefni EES og alþjóðamál efst á baugi. 

  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira