Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. janúar 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, DómsmálaráðuneytiðSamgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Öryggi fjarskiptakerfa vegna innleiðingar 5G í íslenskt samfélag

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði fyrr í vikunni þriggja manna starfshóp um öryggi fjarskiptakerfa vegna innleiðingar 5G í íslenskt samfélag. Í starfshópnum eiga sæta fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Starfshópnum er ætlað að meta þörf á breytingum á regluverki vegna öryggishagsmuna sem væru til þess fallnar að auka öryggi 5G-kerfa á Íslandi og tryggja traust og trúverðugleika erlendra sem innlendra aðila á íslenska fjarskiptakerfinu.

Tilefni skipunar starfshópsins er að undanfarið ár hefur öryggi 5G farneta verið áberandi í opinberri umræðu í flestum ríkjum og mörg þeirra gripið til ýmissa ráðstafana til að viðhalda trausti til sinna fjarskiptakerfa. Þær ráðstafanir hafa þó verið með ýmsu móti. Innan Evrópu hefur því verið unnið að samhæfingu í mati á ógnum og öryggisþörf. Þann 29. janúar sl. gaf Evrópusambandið út skjal þar sem lýst er aðgerðum sem taldar eru nauðsynlegar til þess að stuðla að öryggi 5G neta. Skjalið nefnist „Secure 5G deployment in the EU – Implementing the EU toolbox“. Skjal þetta ásamt einblöðungi sem gefur gott yfirlit um innihald skjalsins má finna á vef Evrópusambandsins.

Starfshópurinn mun í vinnu sinni meðal annars styðjast við þetta skjal Evrópusambandsins og líta til þess hvernig grannríki okkar bregðast við í þessu máli. 

Fulltrúar starfshópsins héldu fund með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar þann 30. janúar sl. og kynntu þar fyrirhugaða vinnu starfshópsins á þessu sviði. Fundargerð þess fundar má finna hér.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira