Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2020 UtanríkisráðuneytiðSendiráð Íslands í Genf

Skýrsla um Ísland í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

Markmiðin sem lagt var upp með í tengslum við fulla aðild Íslands að mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna náðust í öllum aðalatriðum. Þetta er á meðal niðurstaðna skýrslu sem utanríkisráðuneytið vann eftir að kjörtímabili Íslands í mannréttindaráðinu lauk um áramótin. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að viðbrögðin á alþjóðavísu sýni að Ísland hafi staðist þá prófraun sem seta í ráðinu felur í sér. 
 

„Seta Íslands í mannréttindaráðinu er án efa eitt mikilvægasta verkefni sem íslensku utanríkisþjónustunni hefur verið falið og einn af hápunktum þess sem ég hef fengist við í embætti utanríkisráðherra. Verkefnið var prófsteinn á það hvernig íslenska utanríkisþjónustan tekst á við stór og vandasöm verkefni. Ef marka má umsagnir alþjóðlegra mannréttindasamtaka og stórra erlendra fjölmiðla má segja að við höfum staðist þá prófraun,“ segir í aðfararorðum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í skýrslunni.
 
Kjör Íslands í mannréttindaráðið bar að með skömmum fyrirvara. „Við tók sleitulaus vinna þar sem mest reyndi á fólkið okkar í Genf,“ segir Guðlaugur Þór. „Einhugur ríkti um að við ætluðum okkur að hafa jákvæð áhrif á líf fólks í þeim ríkjum sem staða mannréttinda er bág. Áður en Ísland kom til skjalanna höfðu stjórnvöld í Sádi-Arabíu sloppið að mestu við gagnrýni í ráðinu og ákall eftir úttekt Sameinuðu þjóðanna á ástandinu á Filippseyjum var hávært. Við þessu varð að bregðast og Ísland leiddi hóp ríkja í gagnrýni á Sádi-Arabíu í mars 2019 og í júlí 2019 samþykkti mannréttindaráðið að frumkvæði Íslands að óska eftir skýrslu um Filippseyjar frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna.“

Í skýrslunni er farið yfir aðdraganda kjörs Íslands í mannréttindaráðið, hvernig undirbúningi var háttað og hvaða mál voru efst á baugi meðan á setu Íslands í ráðinu stóð. Enn fremur er gerð tilraun til að horfa gagnrýnum augum á setuna í mannréttindaráðinu, meta hvernig til tókst og hvaða lærdóm megi draga. Í skýrslunni er þeirri spurningu velt upp hvort Ísland eigi framvegis að sækjast reglulega eftir kjöri í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, til skiptis við hin Norðurlöndin. 

Utanríkisráðherra kynnti skýrsluna í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag og verður kynning á efni hennar á fundi utanríkismálanefndar Alþingis við fyrsta tækifæri. 

43. fundarlota mannréttindaráðsins hefst mánudaginn 24. febrúar og sækir utanríkisráðherra árlega ráðherraviku í tengslum við lotuna. Þetta er fjórða árið í röð sem Guðlaugur Þór tekur þátt í þessum viðburði en árið 2017 varð hann fyrstur íslenskra utanríkisráðherra til þess.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira