Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir Covid-19 faraldurinn við starfsbróður sinn í Singapore

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi í gærmorgun við utanríkisráðherra Singapore, Dr. Vivian Balakrishan, um hnattræn áhrif og afleiðingar Covid-19 faraldursins. Upphaflegur tilgangur símafundarins var að óska eftir aðstoð stjórnvalda í Singapore um að fá heimild til notkunar á hugbúnaði til að rekja smitleiðir, en í liðinni viku var gefinn frjáls aðgangur að þessum búnaði.

Utanríkisráðherra sagði Dr. Balakrishan frá því átaki sem hér hefur verið gert í að greina Covid smit meðal almennings og sagði íslensk stjórnvöld reiðubúin að deila gagnlegum upplýsingum sem þannig hafa fengist með stjórnvöldum í Singapore og með öðrum ríkjum.

Ráðherrarnir ræddu einnig nauðsyn þess að auka samskipti og samstarf ríkjanna sem eiga, þrátt fyrir fjarlægð og ólíkar aðstæður, margar sameiginlegar áskoranir og hagsmuni. Því væri æskilegt að stjórnvöld í báðum ríkjum skilgreindu samstarfsmöguleika til lengri og skemmri tíma, því bæði ríkin gætu miðlað af reynslu sinni á ýmsum sviðum. Dr. Balakrishan þakkaði stuðning íslenskra stjórnvalda varðandi áheyrnaraðild Singapore að Norðurskautsráðinu og samstarfsvilja á því sviði. 

Auk símafundar með utanríkisráðherra Singapore, hefur Guðlaugur Þór fundað með utanríkisráðherrum Norðurlandanna gegnum fjarfundabúnað, og átt tvíhliða símafundi með utanríkisráðherra Færeyja, Jenis av Rana og Evrópumálaráðherra Austurríkis, Karoline Edtstadler. Á fundi Guðlaugs Þórs og Edtstadler var sérstaklega rætt um viðbrögð stjórnvalda ríkjanna við faraldrinum, en aðgerðir íslenskra stjórnvalda og skimun fyrir kórónaveirunni hafa vakið athygli í Austurríki.

Norrænt samstarf mikilvægt á tímum sem þessum

„Norrænt samstarf og gott samband við nágrannalönd okkar er afar mikilvægt á tímum sem þessum,“ segir Guðlaugur Þór. „Þrátt fyrir þann glundroða sem hröð útbreiðsla faraldursins hefur valdið í alþjóðlegu samstarfi er flestum orðið ljóst að veiran virðir engin landamæri. Samstarf og samkennd er lykillinn að því að ráða niðurlögum þessa vágests.“

Annar reglubundinn fundur norrænu utanríkisráðherranna vegna COVID-19 fór fram 26. mars sl. Náið samráð hefur átt sér stað undanfarið meðal Norðurlandanna í tengslum við heimferðir Norðurlandabúa hvaðanæva að. Ráðherrarnir báru saman bækur sínar hvað varðar efnahagslegar horfur og viðbrögð stjórnvalda og sammæltust um mikilvægi þess að vinna gegn hvers konar viðskiptahindrunum, hvort sem það væri innan EES eða á öðrum vettvangi. Ráðherrarnir munu funda aftur síðar í þessari viku.

Lýsa áhyggjum af áhrifum COVID-19 á efnahags- og heilbrigðiskerfi þróunarlanda

Á fjarfundi norrænna þróunarsamvinnuráðherra síðasta föstudag ræddu ráðherrarnir um stöðu mála vegna baráttunnar við COVID-19 í þróunarlöndum, þá helst í Afríku sunnan Sahara. Ráðherrar lýstu áhyggjum af áhrifum faraldursins á þróunarríki þar sem efnahags- og heilbrigðiskerfi eru veikburða. Samstaða er um að það þurfi að bregðast hratt og örugglega við og munu flest ríkjanna tilkynna um auknar fjárveitingar vegna ákalls SÞ ásamt því að skoða langtímaaðgerðir til að brúa mannúðaraðstoð og uppbyggingu í þróunarríkjum. Áhersla verður lögð á norræna samvinnu, reglulega stöðufundi og upplýsingaflæði milli þróunarsamvinnuráðherranna vegna faraldursins og tengdum aðgerðum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira