Hoppa yfir valmynd
15. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Ísland aðili að kjarnahópi um réttindi hinsegin fólks

Gangbraut hjá höfuðstöðvum SÞ í NY í litum regnbogafánans - myndUN Spokesperson

Ísland gerðist formlega aðili að kjarnahópi ríkja um málefni hinsegin fólks (UN LGBTI Core Group) á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Markmið hópsins er að vinna að réttindum hinsegin fólks í málefnastarfi SÞ, tryggja virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi, með áherslu á vernd gegn mismunun og ofbeldi.

Kjarnahópurinn heldur sameiginlega viðburði og samræmir starf ríkjahópsins í því augnamiði að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks, styrkja fjölþjóðastarf og samræma vinnu í málaflokknum innan SÞ. Hópnum er einnig ætlað að stuðla að opnu samtali við önnur aðildarríki og auka samstarf við frjáls félagasamtök á þessum vettvangi. Ísland gerist aðili að kjarnahópnum samtímis Nepal, en lagt er upp með að skapa tengsl milli þróaðra og þróunarríkja í samtali um réttindi hinsegin fólks á heimsvísu. Nepal er annað ríki Asíu sem gerist aðili að kjarnahópnum, en lista yfir aðildarríki má finna á vef hópsins.

Síðustu ár hafa íslensk stjórnvöld beitt sér af meiri þunga í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og er þátttaka Íslands í hópnum hluti af þeirri stefnu sem mörkuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í gær var tilkynnt um að Ísland hafi hækkað um fjögur sæti á milli ára á Regnbogakortinu, úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu, og er Ísland nú í 14. sæti. Ísland er einnig hluti stýrihóps Equal Rights Coalition (ERC) sem er bandalag ríkja sem vinna saman að því að tryggja að hinsegin fólk hvarvetna fái notið allra mannréttinda. Þá hefur Ísland skrifaði undir yfirlýsingu bandalagsins sem birtist í dag, þar sem stjórnvöld um allan heim eru hvött til að tryggja að áhrif COVID- 19 heimsfaraldursins bitni ekki harðar á hinsegin fólki (LGBTI) og bent á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi þessa hóps í faraldrinum.

Á undanförnum árum hafa mannréttindamál fengið aukið vægi í utanríkisstefnunni og Ísland hefur í vaxandi mæli tekið virkan þátt í málsvarastarfi á erlendum vettvangi í þágu mannréttinda. Þannig voru málefni hinsegin fólks á meðal áherslumála Íslands í mannréttindaráðinu á tímabilinu 2018-2019.

Tengt efni:

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira