Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. maí 2020 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Íslands og Japans ræða samstarf á tímum heimsfaraldurs

Veirulyfin bárust Landspítalanum frá Japan í gær.  - mynd

Góður árangur Íslands og Japans í baráttunni við COVID-19 faraldurinn var til umræðu á símafundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, með Toshimitsu Motegi utanríkisráðherra Japans í dag. Neyðarstigi hefur nú verið aflétt í báðum löndunum en japönsk stjórnvöld hafa sérstaklega hrósað Íslandi fyrir góð viðbrögð við faraldrinum.

Á fundinum færði Guðlaugur Þór japönskum stjórnvöldum þakkir fyrir að hafa gefið Landspítalanum veirulyfið Avigan í læknisfræðilegum og vísindalegum tilgangi. Ísland var með fyrstu löndunum utan Japans til að fá lyfið.

Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu og þess að skiptast á upplýsingum og reynslu í tengslum við faraldurinn. Þá ræddu þeir mögulega afléttingu ferðatakmarkana á milli landana og vonuðust til að tvíhliða samskipti gætu aftur orðið virk sem fyrst. Þeir lýstu yfir vilja til að efla samskiptin enn frekar og voru sammála um að ein stærsta áskorunin framundan væri að koma efnahagslífinu í gang að nýju.

„Japan er stærsta viðskiptaland Íslands í Asíu. Ég tel brýnt að efnahagssamráð milli ríkjanna sem komið var á fót á síðasta ári geti hafist aftur sem allra fyrst. Ég bind vonir við að það geti leitt til fríverslunarsamnings á síðari stigum,“ segir Guðlaugur Þór.

Ráðherrarnir ræddu að lokum samvinnu Íslands og Japans við skipulagningu þriðju vísindaráðstefnu Norðurslóða sem fram fer í Tókýó í nóvember sem og alþjóðlega kvennaráðstefnu sem átti að fara fram í borginni í apríl en þurfti að aflýsa vegna kórónuveirunnar.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira