Hoppa yfir valmynd
19. júní 2020

Sendiherrar Norðurlandanna funda með sérstökum erindreka fyrir málefni kvenna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, fundaði í vikunni ásamt sendiherrum Norðurlandanna með Kelley Currie, sérstökum erindreka fyrir málefni kvenna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. 

Sendiherrar Norðurlandanna í Washington eiga í nánu samstarfi og funda reglulega með lykiltengiliðum í bandaríska kerfinu og halda sameiginlega viðburði í tengslum við norræn áherslumál. Jafnrétti og mannréttindi kvenna eru hornsteinn í alþjóðlegu mannréttindastarfi ríkjanna og eitt af áherslusviðum utanríkisstefnu Íslands. Mikilvægt er að ræða þessi mál sem önnur við bandarísk stjórnvöld. 

Rætt var um þá vinnu sem Bandaríkin hafa lagt í verkefni á sviði valdeflingu kvenna og þátttöku þeirra í friðarviðræðum og uppbyggingu að átökum loknum. Norðurlöndin hafa einnig verið virk á þessu sviði á alþjóðavettvangi og hvöttu til samstarfs og reglulegra upplýsingaskipta. Var m.a. rætt um að skoða stofnun vinnuhóps skipuðum fulltrúum utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og sendiráða Norðurlandanna í Washington sem funda myndi reglulega til að ræða um og deila upplýsingum um sameiginleg áherslumál. 

Norðurlöndin lögðu áherslu á að ræða um stöðu kvenna og stúlkna í núverandi heimsfaraldri og mikilvægi þess að áfram sé ötullega unnið að heilbrigðisréttindum kvenna. Jafnvel þó að karlmenn virðist vera líklegri til að látast af völdum kórónuveirunnar eru það víðast konur sem verða verst úti í heimsfaraldrinum, m.a. vegna aukinnar hættu á ofbeldi gagnvart konum, efnahagslegra afleiðinga þar sem tekjumöguleikar kvenna skerðast meira en karla, aðgengi að menntun og skerðingu á heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að mismunandi þarfir kvenna og karla verði hafðar í huga meðan faraldurinn geysar og í komandi bataferli og uppbyggingu um heim allan. 

  • Sendiherrar Norðurlandanna funda með sérstökum erindreka fyrir málefni kvenna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Sendiherrar Norðurlandanna funda með sérstökum erindreka fyrir málefni kvenna í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum