Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júní 2020 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf

Fulltrúar atvinnulífsins og utanríkisráðuneytisins eftir fundinn. - myndMynd: BIG

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra átti í dag samráðsfund með forystufólki úr atvinnulífinu þar sem rætt var um fríverslunarviðræður Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland sem nú eru að hefjast. Samtök atvinnulífsins boðuðu til málstofunnar að ósk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Eins og kunnugt er gekk Bretland úr EES samningnum þann 31. janúar sl. og er því brýnt að samkomulag náist um nýjan fríverslunarsamning áður en aðlögunartímabilinu lýkur í árslok.

„Góður fríverslunarsamningur verður ekki gerður án samráðs við atvinnulífið. Við í utanríkisráðuneytinu höfum lagt sérstaka áherslu á að efla samráð okkar við hagaðila vegna fríverslunarviðræðna við Bretland, enda miklir hagsmunir í húfi,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Utanríkisráðuneytið hóf virkt samráð við hagaðila fljótlega í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um útgöngu úr ESB í júní 2016. Samráðið hefur miðast annars vegar að því að greina áhrif útgöngu ESB úr EES samningnum á íslenska hagsmuni og hins vegar að móta samningsmarkmið fyrir yfirstandandi viðræður við Bretland um framtíðarsamband ríkjanna. Í lok maí var sett upp sérstök samráðsgátt fyrir hagaðila á vefsíðu Íslandsstofa til að afla nýjustu sjónarmiða og upplýsinga úr atvinnulífinu í aðdraganda fríverslunarviðræðnanna.

„Samtök atvinnulífsins fagna því frumkvæði utanríkisráðherra að efna til virks samtals við atvinnulífið um hvernig hag íslenskra fyrirtækja sé best borgið í nýjum fríverslunarsamningi við Breta í kjölfar Brexit. Samstarfið hefur verið árangursríkt og verið byggt á þeirri forsendu að tryggja útflutningshagsmuni Íslands með bestum hætti. Ljóst er að í samningnum er feiknarlega mikið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf og því til mikils að vinna að hafa fengið hagaðila snemma að borðinu nú þegar fríverslunarviðræður eru að bresta á,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samráð atvinnulífs og stjórnvalda hefur því staðið yfir í tæp fjögur ár. Haustið 2017 voru settir á fót sérstakir Brexit- vinnuhópar stjórnarráðsins, sem hafa átt tugi funda með hagaðilum á hinum ýmsum sviðum. Umfangsmikil greining á hagsmunum Íslands var birt í nóvember 2017 í skýrslunni Ísland og Brexit: Greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES. Þá hafa hagaðilar fengið sendar greiningar og upplýsingar um stöðu mála að meðaltali annan hvern mánuð. Þá er fjallað um þróun mála og undirbúning stjórnvalda í árlegum skýrslum utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál til Alþingis, og haldnir hafa verið vel á annan tug kynninga og upplýsingafunda fyrir hagsmunaaðila. 

Fyrir hönd atvinnulífsins sátu fundinn Helga Árnadóttir og Halldór Benjamín Þorbergsson fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Árni Sigurjónsson og Sigríður Mogensen fyrir hönd Samtaka iðnaðarins, Ingibjörg Ólafsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, Ægir Páll Friðbertsson og Heiðrún Lind Marteinsdóttir fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Guðrún Jóhannesdóttir og Andrés Magnússon fyrir hönd Samtaka verslunar og þjónustu, Katrín Júlíusdóttir fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja, og Páll Erland fyrir hönd Samorku. Fyrir hönd utanríkisráðuneytisins sátu fundinn, auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Sturla Sigurjónsson, Þórir Ibsen, Borgar Þór Einarsson og Ögmundur Hrafn Magnússon.

 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Þórir Ibsen, aðalsamningamaður Íslands í framtíðarviðræðum við Bretland.
  • Halldór Benjamín Þorbergsson og Helga Árnadóttir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira