Hoppa yfir valmynd
29. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra Færeyja í heimsókn á Íslandi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, á Arnarstapa. - mynd

Jenis av Rana mennta- og utanríkisráðherra Færeyja og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherrra funduðu í dag, og heimsóttu Snæfellsnes. Færeyski ráðherrann hefur verið í einkaheimsókn á Íslandi undanfarna dag ásamt eiginkonu sinni Önnu av Rana.

Ráðherrarnir áréttuðu gagnkvæman ávinning þjóðanna af Hoyvíkursamningnum en núverandi stjórn Færeyja afturkallaði uppsögn samningsins sem annars hefði tekið gildi um síðustu áramót. Lýstu þeir yfir vilja sínum um að á grundvelli samningsins verði áfram unnið að því að efla viðskipti landanna báðum löndum til hagsbóta.

„Samstarf frændþjóðanna hefur reynst heilladrjúgt í gegnum tíðina og var ánægjulegt að það skyldi takast að viðhalda Hoyvíkursamningnum sem innsiglar þessi nánu tengsl landanna. Færeyingar hafa reynst okkur vel og það er afar ánægjulegt að taka á móti ráðherranum og sýna honum landið okkar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þeir ræddu einnig hvernig efla megi samstarf á öðrum sviðum eins og menntamálum, meðal annars á framhalds og háskólastigi. Þá upplýsti Guðlaugur Þór Þórðarson um stöðu viðræðna Íslands og Bretlands um framtíðarsamskipti ríkjanna vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig ræddu ráðherrarnir alþjóðamál, þar með talið stöðu mála í Rússlandi og Kína.

Ráðherrarnir ræddu einnig kórónufaraldurinn, efnahagslegar áskoranir honum tengdar og möguleika á nánara samstarfi á grundvelli árangursríkra viðbragða beggja ríkja við faraldrinum hingað til.

Á meðan á heimsókninni stendur mun færeyski ráðherrann einnig funda með menntamálaráðherra um samstarf landanna á sviði menntamála.


 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum