Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2020 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundi NB8-ríkjanna í Tallinn lokið

Frá utanríkisráðherrafundi NB-ríkjanna í Tallinn í dag - myndUtanríkisráðuneyti Eistlands
Ástandið í Hvíta-Rússlandi var í brennidepli á tveggja daga fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Tallinn í Eistlandi sem lauk fyrr í dag. Í yfirlýsingu fundarins var tilræðið við rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní fordæmt.  

Vegna kórónuveirufaraldursins er fundurinn í dag sá fyrsti sem ráðherrar NB8-ríkjanna svonefndu eiga með sér augliti til auglitis á þessu ári en þeir hafa haft reglulegt samráð í gegnum fjarfundabúnað. Eistar fara með formennsku í samstarfi ríkjanna á þessu ári og því var fundurinn haldinn í Tallinn.  

Málefni Hvíta-Rússlands voru ofarlega á baugi á fundinum enda hafa ríkin átta sýnt samstöðu í gagnrýni sinni á framkvæmd forsetakosninganna þar í ágúst sl. og harkaleg viðbrögð stjórnvalda við víðtækum mótmælum í kjölfarið. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna ítrekuðu þeir fyrri yfirlýsingu sína frá 11. ágúst og skoruðu á stjórnvöld í Minsk að leysa pólitíska andstæðinga tafarlaust úr haldi. Ráðherrarnir fordæmdu enn fremur að taugaeitrinu Novichok hefði verið beitt gegn rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní og kölluðu eftir óháðri alþjóðlegri rannsókn á máli hans. Í yfirlýsingunni var einnig lögð áhersla á aukið efnahagslegt samstarf ríkjanna, ekki síst í ljósi efnahagsþrenginga af völdum COVID-19, svo og á samstarf á sviði stafrænna lausna.  

Auk þessa ræddu ráðherrarnir á fundinum alþjóðamál í víðara samhengi, vaxandi togstreitu í samskiptum stórveldanna og mikilvægi þess að styðja við fjölþjóðastofnanir og alþjóðalög. Þá var rætt um það sem hæst ber á vettvangi Evrópusamstarfsins, svo sem samningaviðræður við Bretland. Loks var þess minnst að þrjátíu ár eru liðin frá fyrsta utanríkisráðherrafundi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. 

María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu, fór fyrir íslensku sendinefndinni þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, átti ekki heimangengt. 

Sameiginlega yfirlýsingu utanríkisráðherranna er að finna hér.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira