Hoppa yfir valmynd
14. september 2020

Heimsókn sendiherra til Múrmansk

Heimsókn til Viðskiptaráðs Múrmansk-héraðs - myndSendiráð Íslands í Moskvu

Árni Þór Sigurðsson sendiherra heimsótti Múrmansk í norðvestur Rússlandi dagana 9. - 11. september síðastliðinn. Tilefni heimsóknarinnar var m.a. opnun nýrrar fiskvinnsluverksmiðju Murman Seafood, en verksmiðjan er búin tækjum og búnaði frá Völku hf. Fulltrúar Völku, Jón Birgir Gunnarsson og Kristján R. Kristjánsson voru viðstaddir opnunina. Ilona Vasileva viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í Moskvu var í för með sendiherra.

Við opnun verksmiðjunnar flutti Árni Þór ávarp og lagði hann áherslu á mikilvægi samstarfs íslenskra fyrirtækja og fyrirtækja í Múrmanskhéraði sem væri umfangsmikið. Íslensk hönnun og tæknilausnir væru vel kynntar á svæðinu og þættu framúrskarandi. Þá nefndi hann að rússneskt-íslenskt viðskiptaráð hefði verið stofnað á Íslandi á síðasta ári og um 40 fyrirtæki ætti þar aðild og væru í tengslum við rússneskt viðskiptalíf.

Auk heimsóknarinnar til Murman Seafood heimsótti sendiherra fiskvinnsluna Polar Sea, Hampiðjuna og Moretron, en öll fyrirtækin tengjast Íslandi og íslenskum fyrirtækjum.

Árni Þór heimsótti einnig Borgarbókasafnið í Múrmansk, útibú sem nefnt er “módel-bókasafn” en þar er m.a. lögð áhersla á þjónustu við börn, fatlað fólk og eldri borgara. Borgarstjórinn í Múrmansk, Evgeníj Nikora, og sendiherra fluttu ávörp og undirstrikuðu báðir mikilvægi menningarsamstarfs. Árni Þór fjallaði einnig sérstaklega um kvikmyndahátíðir, tónlistarviðburði og ýmsa aðra listviðburði sem skiptu máli í að efla tengsl milli þjóða. Sendiherra færði bókasafninu að gjöf nokkrar íslenskar bækur, flestar í rússneskri þýðingu, m.a. Aðventu Gunnars Gunnarssonar, Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Þorvald víðförla eftir Árna Bergmann, Rússnesk-íslenska orðabók eftir Helga Haraldsson, safnrit íslenskra nútímaljóða í nýlegri rússneskri þýðingu o.fl.

Háskólinn á Akureyri og Tækniháskólann í Múrmansk gerðu með sér samstarfssamning árið 2018 þar sem m.a. er lögð áhersla á samstarf á sviði norðurslóðavísinda. Sendiherra heimsótti Tækniháskólann, kynnti sér námsframboð og skoðaði aðbúnað og ræddi svo við forsvarsmenn skólans um eftirfylgni með samstarfssamningnum, m.a. varðandi gagnkvæmar heimsóknir kennara og fræðimanna, nemendaskipti o.fl. Augljóst er að það er mikill áhugi í Múrmansk á að styrkja samskipti háskólanna og fræðasamfélagsins.

Annar megin tilgangur heimsóknar sendiherra var að funda með héraðsstjóra Múrmansk-héraðs, Andrej Tsjíbis.  Héraðsstjórar í Rússlandi fara með framkvæmdavald sambandsríkisins í sínu héraði og eru kjörnir beinni kosningu af íbúum héraðsins til 5 ára í senn. Árni Þór og Tsjíbis ræddu samstarf milli Íslands og Múrmansk-héraðs á mörgum sviðum, s.s. á sviði viðskipta, menningar, menntamála, norðurslóðamálefna, vinabæjarsamstarfs en Múrmansk er vinabær Akureyrar, o.fl. Voru þeir sammála um að tækifæri væri til aukinna viðskipta, ekki síst fyrir íslensk hátæknifyrirtæki á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu. Þá var fjallað um stöðu ferðaþjónustu og tækifærin sem í henni fælust til framtíðar litið. Rætt var um Covid-heimsfaraldur og stöðu þeirra mála á Íslandi og í Múrmansk-héraði.

Að lokum heimsótti sendiherra Viðskiptaráð Múrmansk-héraðs og ræddi um þau samskipti sem þegar væru fyrir hendi á viðskiptasviðinu og möguleika til að auka þau enn frekar. Fram kom hjá fulltrúum Viðskiptaráðsins að þau ættu í góðu samstarfi við fyrirtæki á Íslandi, og fögnuðu þau sérstaklega stofnun Rússnesk-íslenska viðskiptaráðsins á síðasta ári.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum