Hoppa yfir valmynd
6. október 2020

Þungum áhyggjum lýst vegna ástandsins í Xinjiang og Tíbet

Frá umræðum í allsherjarþinginu - myndUtanríkisráðuneytið

Ísland átti í dag hlut að sameiginlegu ávarpi 39 ríkja í almennri umræðu í þriðju nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (mannréttindanefndinni) í New York þar sem lýst var þungum áhyggjum af ástandi mannréttinda í héruðunum Xinjiang og Tíbet í Kína og þróun nýverið í Hong Kong.

Í ávarpinu er rifjað upp að fimmtíu sérstakir erindrekar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hafi sent frá sér ákall í júní sl. þar sem farið var fram á það við stjórnvöld í Kína að virða mannréttindi, ekki síst í Xinjiang og Tíbet. Er tekið undir þetta ákall. Í Xinjiang-héraði hafa kínversk stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir að neyða meira en milljón manns í eins konar „pólitískar endurmenntunarbúðir“. Lýsa ríkin þrjátíu og níu áhyggjum af fregnum af grófum mannréttindabrotum í þessu samhengi.

Þá deila þau áhyggjum sem hópur sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þess efnis að ný öryggislöggjöf í Hong Kong brjóti í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Kína. Sérstaklega er lýst áhyggjum af ákvæðum um framsal fólks til meginlands Kína, þar sem þess bíði ákærur og fangelsisvist. Tryggja verði rétt fólks undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um félagsleg og pólitísk réttindi, sem og undir samkomulagi Kína og Bretlands um yfirráð yfir Hong Kong, sem víki m.a. að málfrelsi, frelsi fjölmiðla og fundafrelsi.

Það var fastafulltrúi Þýskalands sem flutti ávarpið fyrir hönd ríkjanna 39; en þau voru, auk Þýskalands og Íslands: Albanía, Austurríki, Ástralía, Bandaríkin, Belgía, Bosnía og Hersegóvína, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Haítí, Holland, Hondúras, Írland, Ítalía, Japan, Kanada, Króatía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Marshall-eyjar, Mónakó, Nauru, Norður Makedónía, Noregur, Nýja Sjáland, Palau, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss og Svíþjóð.
 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira