Hoppa yfir valmynd
2. desember 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór tók þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins

Fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins - myndNATO

Hernaðaruppbygging Rússlands, málefni Kína og Afganistans og pólitísk samvinna bandalagsríkjanna voru á meðal umfjöllunarefna tveggja daga fjarfundar utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag.

Á fundinum var kynnt álitsgerð vinnuhóps óháðra sérfræðinga sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, skipaði fyrr á árinu undir merkjum NATO 2030. Hópnum var falið að meta hvernig efla megi samstöðu ríkjanna og pólitískt samráð. Í álitsgerðinni er fjallað um helstu áskoranir sem Atlantshafsbandalagið stendur frammi fyrir. Hún verður höfð til hliðsjónar við gerð tillagna um umbætur sem framkvæmdastjóri mun leggja fyrir næsta leiðtogafund á árinu 2021. „Það er fagnaðarefni að niðurstaða álitsgerðarinnar staðfestir mikilvægi bandalagsins fyrir frið og öryggi í okkar heimshluta. Þetta er jafnframt í samræmi við þjóðaröryggisstefnu Íslands þar sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu er lykilstoð í vörnum landsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra að fundi loknum. 

Þá ræddu utanríkisráðherrarnir hernaðaruppbyggingu Rússlands og skaðleg áhrif hennar á alþjóðlegt regluverk um afvopnunarmál og vígbúnaðartakmarkanir. Jafnframt var fundað með utanríkisráðherrum Georgíu og Úkraínu um öryggismál við Svartahaf og aukin hernaðarumsvif Rússlands. „Þróun rússneskra stjórnvalda á nýjum eldflaugakerfum er mikið áhyggjuefni sem ekki verður litið framhjá. Því miður ríkir óvissa í öryggismálum í okkar heimshluta. Um það eru bandalagsríkin sammála og hækkandi framlög til varnarmála endurspegla það,“ segir Guðlaugur Þór. 

Utanríkisráðherrar Finnlands, Svíþjóðar, Japans, Kóreu, Ástralíu og Nýja-Sjálands tóku þátt í umræðum ráðherranna um málefni Kína, ásamt Josep Borrell utanríkismálastjóra ESB. „Það er mikilvægt að eiga þétt samráð við þessi nánu samstarfsríki okkar, efla þekkingu okkar og skilning og ræða tækifæri og áskoranir í samskiptum við Kína. Það er þó ekki síður mikilvægt að við stöndum vörð um þau grunngildi sem Atlantshafsbandalagið stendur fyrir: einstaklingsfrelsi, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið,“ segir Guðlaugur Þór.

Aðkoma bandalagsins að friðaruppbyggingu í Afganistan var einnig til umræðu. Voru bandalagsríki sammála um að halda áfram að styðja við bakið á afgönskum stjórnvöldum með ráðgjöf og þjálfun undir merkjum Resolute Support-verkefnisins. Brýnt væri að koma í veg fyrir að Afganistan yrði á ný griðastaður alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka. Þá væri áríðandi að standa vörð um þann árangur sem þar hefur náðst á sviði réttinda kvenna og barna, í menntamálum og á fleiri sviðum.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum