Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. desember 2020 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Vel heppnaður kynningarfundur fyrir bandaríska og kanadíska fjárfesta

Samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru ofarlega á baugi í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti opnunarávarp á kynningarfundi um fjárfestingar á Íslandi sem haldinn var fyrir bandaríska og kanadíska fjárfesta á mánudag undir yfirskriftinni „How do I Invest in Iceland?“.

Aðalræðisskrifstofa Íslands í New York og Íslandsstofa stóðu fyrir fundinum þar sem rætt var um aðild Íslands að alþjóðasamningum, tækifæri til fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og í Kauphöll Íslands, viðskiptaumhverfið almennt og fjármálaumhverfið hér á landi.

Markmiðið með fundinum var að auka vitund erlendra fjárfesta og fyrirtækja um þau fjárfestingartækifæri sem liggja á Íslandi og hvernig sé að búa og starfa hér á landi.

Samskipti Íslands og Bandaríkjanna voru ofarlega á baugi í ávarpi ráðherra. Sagði Guðlaugur Þór Bandaríkin vera mikilvægasta einstaka samstarfsríki Íslands á sviði viðskipta og að efnahagssamráð þjóðanna sem fest hefur í sessi væri til marks um aukna samvinnu þeirra. Þá áréttaði hann að viðskipti og fjárfestingar væru lykillinn að auknum samskiptum og samvinnu þjóða á milli.

„Við vinnum stöðugt að því að bæta fjárfestingarumhverfi erlendra fjárfesta hér á landi og höfum lagt kapp á að bæta aðgengi íslenskra fjárfesta að mörkuðum í Bandaríkjunum. Til dæmis með Íslandsfrumvarpinu svokallaða sem hefur verið lagt fram í bandaríska þinginu,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu.

Eliza Reid forsetafrú flutti lokaávarp en hún vinnur með Íslandsstofu að kynningu á íslensku atvinnulífi gagnvart fjölmiðlum og samstarfsaðilum íslenskra fyrirtækja. Jafnframt tóku fjölmargir fulltrúar íslensks atvinnulífs til máls en mælendur voru:

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Helga Valfells, stofnandi vísisjóðsins Crowberry Capital og stjórnarformaður Framvís.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands.
Haraldur I. Birgisson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðiráðgjafar Deloitte.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Stacey Katz, stjórnandi hjá Marel.
Eliza Reid, forsetafrú.

Upptöku af fundinum má sjá hér.

Frétt Investiable Universe um fundinn má sjá hér.

Þá má hlusta á viðtal við ráðherra í tilefni af fundinum hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira