Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. febrúar 2021 Sendiráð Íslands í Moskvu

Sendiherra Íslands afhendir trúnaðarbréf í Úsbekistan

Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhendir Abdulaziz Kamilov, utanríkisráðherra Úsbekistan, trúnaðarbréf sitt - mynd

Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhenti þann 16. febrúar sl. utanríkisráðherra Úsbekistan, Abdulaziz Kamilov, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Moskvu. Athöfnin fór fram í utanríkisráðuneytinu í Tashkent. Á fundi þeirra voru rædd tvíhliða samskipti ríkjanna, samstarf þeirra á vettvangi alþjóðastofnana á borð við UNESCO og möguleikar á auknum viðskiptum, einkum og sér í lagi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa en íslensk þekking og reynsla á því sviði er eftirsóknarverð vegna uppbyggingar í Úsbekistan. Einnig ræddu þeir tækifærin í ferðaþjónustu að loknum kórónuveirufaraldrinum, samstarf í menntamálum, nýsköpun og þróun. Þá rifjaði ráðherrann  meðal annars upp ánægjulega heimsókn sína til Íslands fyrir all mörgum árum.

Utanríkisráðherrann gerði grein fyrir stjórnmálaþróun í Úsbekistan undanfarin ár og helstu áskoranir framundan, en landið hefur undanfarin fjögur til fimm ár stigið markviss og jákvæð skref á sviði mannréttindamála, í baráttu gegn spillingu, til að bæta samskipti við nágrannaríkin og almennt í átt að opnara samfélagi.

Árni Þór flutti ávarp þann 17. febrúar síðastliðinn á ráðstefnu um vatnsorku en þar voru samankomnir fulltrúar orkufyrirtækja og stjórnvalda frá ríkjum Mið-Asíu og í kringum Kaspíahaf. Víða á þessu svæði eru verulegir ónýttir möguleikar til að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Sendiherra fór yfir stöðu orkumála á Íslandi og greindi frá þeirri sérþekkingu sem er þar til staðar, bæði á nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem mætti nýta til uppbyggingar í Úsbekistan. Hann fundaði í kjölfarið með Sherzod Hodzhaev, varaorkumálaráðherra Úsbekistan, þar sem sérstaklega var rætt um samstarfsfleti á sviði endurnýjanlegrar orku. Loks fundaði hann með Bakhodir Alikhanov, yfirmanni alþjóðaskrifstofu ráðuneytis fjárfestinga og utanríkisviðskipta, þar sem farið var yfir mögulegt samstarf á ýmsum sviðum, m.a. orkumálum, ferðamennsku, landbúnaðarmálum og matvælavinnslu svo fátt eitt sé nefnt. Ákveðið var að kanna nánar grundvöll fyrir samstarfi á milli ríkjanna.

  • Frá fundi með fulltrúum ráðuneytis fjárfestinga og utanríkisviðskipta í Úsbekistan

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira